Aðgerðin felur í sér að greina hvar megi bæta landnýtingu í þágu loftslagsmála á jörðum í eigu ríkisins og á þjóðlendum, vinna heildstæða framkvæmdaáætlun með skilgreindum markmiðum og forgangsraða aðgerðum. Ríkissjóður Íslands á tæplega 430 jarðir og æskilegt er að ríkið gangi á undan með góðu fordæmi um að breyta landnotkun í þágu loftslagsmála. Mikilvægt er að fyrir liggi skýr stefna ríkisins um nýtingu ríkisjarða og þjóðlendna og að í henni séu loftslagsáhrif og vernd líffræðilegrar fjölbreytni höfð að leiðarljósi.
Þátttaka einstaklinga, félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana í undirbúningi og framkvæmd aðgerða í landgræðslu og skógrækt er lykilatriði til að ná markmiðum á sviði loftslagsmála og vernd líffræðilegrar fjölbreytni í tengslum við landnotkun. Því er mikilvægt að endurskoða og koma upp enn skilvirkara kerfi hvað varðar fjármögnun aðgerða í þágu loftslagsmála á einkalöndum. Auk þess þarf að skilgreina með hvaða hætti Land og skógur hvetji alla geira samfélagsins til þátttöku og efla starf félagasamtaka og einstaklinga.
Aðgerðin miðar að því að þróa aðferðir og setja upp langtímavöktunarverkefni til að meta magn og breytingar á kolefni í íslenskum vistkerfum út frá þekktum matsbreytum þannig að eigi síðar en árið 2030 verði hægt að áætla kolefnisforða allra vistkerfa í losunarbókhaldi Íslands, breytingar á kolefnisforða þeirra og áhrif landnýtingar og endurheimtar á kolefnisforða. Sakvæmt auknum kröfum ESB vegna nýrrar reglugerðar um gæði og kröfu gagna og aðferðafræði í LULUCF til að draga úr óvissu og bæta þekkingu og framsetningu þurfa tölur frá öllum helstu landnýtingarflokkunum að vera komin á aðferðaþrep 2 árið 2026, þ.e. stuðlar byggðir á íslenskum rannsóknum, og aðferðaþrep 3 árið 2030, þ.e. stuðlar byggðir á reiknilíkönum fyrir Ísland.
Aðgerðin felur í sér að endurheimta votlendi á jörðum í eigu ríkisins með markvissum hætti í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisins. Miklir möguleikar gætu því legið í endurheimt votlendis á ríkisjörðum og þar með komið í veg fyrir mikla losun gróðurhúsalofttegunda. Land og líf, stefna stjórnvalda í landgræðslu og skógrækt, gerir ráð fyrir að 15.600 ha af röskuðu votlendi verði endurheimt fyrir 2031, eða um 6% af röskuðu votlendi.
Aðgerðin felst í gerð verklags fyrir endurheimt votlendis og endurheimt fyrsta votlendisins sem fylgir þeim reglum og stöðlum sem þarf til að hægt sé að skrá kolefnisbindingu svæðanna sem vottaðar hágæðakolefniseiningar. Gerð verklagsins er hugsað sem hvatning og fyrirmynd fyrir einkaaðila, fyrirtæki og stofnanir til að fara í endurheimt votlendis sem uppfyllir reglur og staðla
Náttúrulegir birkiskógar þekja nú um 1,5% af landsvæði Íslands en miklir möguleikar eru til að auka útbreiðslu þeirra og þar með kolefnisbindingu. Til þess að svo geti orðið þarf markvissar verndar- og endurheimtaraðgerðir. Tryggja þarf friðun svæða og setja fram áætlun um aðgerðir, t.d. gróðursetningu, og eflingu fræseta, í samræmi við aðferðafræði skógræktar á landslagsheildum (e. Forest Landscape Restoration) og með vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Mikilvægt er að ríkið setji fram skýra ferla til að auka aðgengi að jörðum í eigu ríkisins fyrir aðgerðir á sviði verndar og endurheimtar birkiskóga.
Miklir möguleikar felast í skógrækt til kolefnisbindingar, ekki síst með ræktun hraðvaxta trjátegunda, og hér á landi væri hægt að auka bindingu kolefnis í skógum landsins. Þær jarðir sem ríkið á og hefur umráð yfir gætu verið nýttar til skógræktar í þágu loftslagsmála. Ríkið þarf að taka afstöðu til þess hvort ráðstafa eigi landi til ræktunar skóga með framandi hraðvaxta tegundum og eins hvort setja þurfi skýr skilyrði í eigendastefnu um hvort nota megi tegundir í ræktun sem geta talist ágengar í skilningi náttúruverndarlaga.
Ríkissjóður Íslands á tæplega 430 jarðir. Möguleikar liggja í endurheimt þurrlendisvistkerfa á þeim jörðum. Skilgreina þarf þær jarðir og þjóðlendur sem eru hentugar til endurheimtar þurrlendisvistkerfa, forgangsraða og skilgreina til hvaða aðgerða þarf að grípa svo hámarksárangur náist.
Stór hluti af íslenskum þurrlendisvistkerfum er í röskuðu ástandi og með endurheimt þeirra má binda mikið kolefni, auka virkni vistkerfa og hlúa að líffræðilegri fjölbreytni. Aðgerðin felst í gerð verklags fyrir endurheimt þurrlendis og endurheimt fyrsta þurrlendis sem fylgir þeim reglum og stöðlum sem þarf til að hægt sé að skrá kolefnisbindingu svæðanna sem vottaðar hágæða kolefniseiningar. Gerð verklagsins er hugsað sem hvatning og fyrirmynd fyrir einkaaðila, fyrirtæki og stofnanir til að fara í endurheimt þurrlendis sem uppfyllir reglur og staðla
Aðlaga þarf skóga að loftslagsbreytingum með því að efla val og kynbætur á helstu trjátegundum í íslenskri skógrækt, prófa nýjar tegundir og kvæmi og halda uppi öflugum rannsóknum á aðlögun þeirra. Jafnframt þarf að aðlaga skóga að hugsanlega aukinni tíðni gróðurelda. Er það gert með skipulagi skógræktarsvæða, blöndun tegunda, grisjun á réttum tíma og fellingu og endurnýjun skóga á réttan hátt. Með réttri meðferð skóga er hægt að efla kolefnisbindingu þeirra um leið og þanþolið.
Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi og langvarandi kolefnisbindingu í viðarafurðum. Aðgerðin felur í sér að auka þekkingu og búa til hvata til að auka framleiðslu og nýtingu íslenskra viðarafurða. Með aðgerðinni er stuðlað að aukinni bindingu kolefnis í viðarafurðir og samdrætti í losun vegna notkunar jarðefnaeldsneytis. Með aðgerðinni má einnig draga úr þörf fyrir innflutning á jarðefnaeldsneyti.
Skipulagsáætlanir sveitarfélaga gegna mikilvægu hlutverki við stefnumörkun í loftslagsmálum þar sem þar eru teknar ákvarðanir um fyrirkomulag byggðar og landnotkunar. Með áherslum og aðgerðum í skipulagi er hægt að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og aukinni kolefnisbindingu með ýmsum hætti. Breytt landnotkun hefur áhrif á líffræðilega fjölbreytni og tryggja þarf að fjallað sé um líffræðilega fjölbreytni við stefnumörkun og framfylgd skipulagsáætlana. Mikilvægt er að útvega sveitarfélögum til þess bær verkfæri ásamt bestu fáanlegu gögnum hverju sinni.
Aðgerðin felur í sér að kortleggja og greina stjórntæki sem vinna að aukinni verndun kolefnisríkra vistkerfa. Greina þarf regluverk sem tengist verndun votlendis og kortleggja veikleika vegna leyfa, heimilda og viðurlaga.
Unnið verði að gerð svæðis- og landshlutaáætlana í landgræðslu og skógrækt í samstarfi við hlutaðeigandi sveitarfélög, landeigendur og félagasamtök um áherslur eftir svæðum og hvernig best verði unnið m.a. að markmiðum um kolefnishlutleysi með vernd líffræðilegrar fjölbreytni að leiðarljósi. Með því er grunnur lagður að sameiginlegri sýn á þau tækifæri sem liggja í sjálfbærri nýtingu lands, uppbyggingu auðlinda, jarðvegsvernd og vernd og endurheimt vistkerfa og stuðla þannig að aukinni sátt og samstöðu um aðgerðir.
Aðgerðin felur í sér að koma á fót samstarfsverkefni hagaðila á landsvísu um verndun og endurheimt kolefnisríkra vistkerfa. Viljayfirlýsingin felur í sér ákall um mikilvægi þess að vernda kolefnisrík vistkerfi landsins. Einnig er lögð áhersla á að byggja upp og endurheimta vistkerfi sem hafa raskast og líffræðilega fjölbreytni þeirra. Með því að vernda og endurheimta vistkerfi er um leið verið að auka viðnámsþrótt og þanþol vistkerfa gagnvart náttúrulegum áföllum og náttúruvá, ásamt því að auka kolefnisbindingu þeirra.
Kappkosta skal að rekstur jarðvarmavirkjana verði kolefnishlutlaus fyrir árið 2030. Svo það geti orðið þarf að horfa til tæknilausna varðand föngun og geymslu eða hagnýtingu gróðurhúsalofttegunda í vinnslurásum jarðvarmavirkjana og koma þannig í veg fyrir að þær sleppi í andrúmsloftið.
Þrepaskipt krafa um útskipti jarðefnaeldsneytis í varaafli raforku- og varmaframleiðslu með endurnýjanlegu eldsneyti og öðrum vistvænum lausnum
Endurskoðun stofnanaskipulags á sviði umhverfis- og orkumála samhliða greiningu og endurhönnun leyfisveitingarferla og kortlagning á mögulegum tækifærum til umbóta er lykilatriði í að hraða verkefnum og framkvæmdum í þágu orkuskipta.
Loftslagsmarkmið stjórnvalda og sá loftslagsávinningur sem felst í einstaka framkvæmdum á að vera ákvörðunarþáttur í allri áætlanagerð um uppbyggingu og styrkingu flutnings- og dreifikerfis raforku. Leita skal leiða til að forgangsraða þeim verkefnum sem skila mestum loftslagsávinningi.
Tryggja þarf fullnægjandi framboð orku ef nýta á innlenda framleiðslu rafeldsneytis eða vetnis fyrir orkuskipti í samgöngum á landi, haftengdri starfsemi og flugsamgöngum. Orkuskipti þessi eru háð tækniþróun og framboði tækjabúnaðar og fjárfestingum í þeim, en tryggja þarf framboð af viðeigandi orkugjöfum. Leið Íslands að fullum orkuskiptum verður mætt í skrefum með aukinni orkuöflun, bættri orkunýtni, auknum orkusparnaði, tækniþróun og aflaukningu núverandi virkjana.
Aukinn kraftur settur í jarðhitaleit og nýtingu fyrir rafkyntar veitur til að fasa út jarðefnaeldsneyti í varaafli. Greining og útfærsla verði unnin með hagaðilum og stjórnvöld muni í samvinnu við orku- og veitugeirann leiða stórfellt átak í kortlagningu auðlinda og möguleika á jarðhitanýtingu.
Framkvæmd valin í reynsluverkefni út frá fyrirliggjandi orkuinnviðum og verkþáttum til að leggja grunn að prófun lágkolefnislausna í framkvæmdum Vegagerðarinnar. Með kortlagningu framkvæmda í samgönguáætlun m.t.t. orkuinnviða og umfangs er hægt að velja framkvæmd og viðeigandi verkþætti framkvæmdar sem hentar í reynsluverkefni losunarfrírra framkvæmda Vegagerðarinnar. Huga þarf að því sem fyrst í hönnunarferlinu til að hægt sé að aðlaga verkþætti og skipulag framkvæmdar að nýjum þörfum sem fylgja nýorkugjöfum.
Framfylgja stefnu og aðgerðaáætlun um vistvæna mannvirkjagerð, sem unnin var á vegum Byggjum grænni framtíð, samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs.
Auka þarf skráningar hjá Vinnueftirlitinu og uppfæra viðeigandi reglugerð svo gögn um orkunotkun og nýtingartíma geti nýst í orkuskiptaspá Orkustofnunar.
Styðja við orkuskipti hreyfanlegra véla og tækjabúnaðar í mannvirkjagerð úr Orkusjóði, þegar markaðsforsendur eru fyrir hendi.
Samvinnuverkefni með sveitarfélögum um skráningar svæðisbundinnar notkunar jarðefnaeldsneytis og greiningu um markvissan samdrátt í notkun þess.
Aðgerðin felur í sér að draga úr losun tiltekinna flúoraðra gróðurhúsalofttegunda (F-gasa) með setningu reglugerðar um hámarksmagn innfluttra vetnisflúorkolefna.
Aðgerðin felur í sér að hraða útskiptingu flúoraðra gróðurhúsalofttegunda (F-gasa) hér á landi með því að skattleggja innflutning þeirra eftir hnatthlýnunarmætti.
Endurskoða úrvinnslukerfi kælimiðla og búa til fjárhagshvata til að auka skil kælmiðla til úrgangsmeðhöndlunar séu þeir ekki endurnýttir.
Þróun og prófun heildstæðs kerfis sem hvetur bændur til hagkvæmari og loftslagsvænni búskaparhátta og verður tilbúið til innleiðingar árið 2026.
Safna með kerfisbundnari hætti jarðvegssýnum úr ræktuðu landi og nota þær upplýsingar til að bæta nýtingu áburðarefna.
Hvetja bændur til að nýta tæknilegar lausnir til að bæta áburðarnýtingu, svo sem nákvæmnisdreifibúnað, með viðeigandi loftslagsstyrkjum.
Styðja við aðgerðir eins og kölkun á ræktuðu landi til að hækka sýrustig, notkun á niturbindandi tegundum í ræktun og skjólbeltarækt til að draga úr áburðarþörf.
Aðgerðin felur í sér rannsókn á iðragerjun íslensks búfjár.
Gerð verður rannsókn á þætti geymslu búfjáráburðar í losun frá landbúnaði og greining á leiðum til að draga úr losun við geymslu
Þróun og innleiðing á ítarlegri innviðaáætlun sem skal tryggja skilvirkt net hreinorkuáfyllingarstöðva sem og þjónustustig afhendingar hreinorkukosta.
Fjárhagslegur stuðningur við uppbyggingu hreinorkuáfyllingarstöðva fyrir vistvæn ökutæki um land allt, sér í lagi flóknar og umfangsmiklar fjárfestingar og tengingar við flutningskerfin.
Notendum hreinorkuökutækja tryggðar einfaldar greiðsluleiðir á almennum hleðslu- eða áfyllingarstöðvum, þ.e. með greiðslukortum eða snertilausum búnaði, án þess að þörf sé á áskrift.
Ríkið styður við uppbyggingu hjóla- og göngustíga með fjárveitingum, aðlögun regluverks og að mótuð verði stefna og aðgerðaáætlun um virka ferðamáta, m.a. hjólreiða og smáfarartækja.
Áfram verður virðisaukaskattur felldur niður af öllum reiðhjólum, rafmagnsreiðhjólum og rafmagnshlaupahjólum. Um er að ræða ferðamáta sem hafa, ásamt göngu, lægsta kolefnissporið. Skattstyrkir tóku fyrst gildi 1. janúar 2020.
Ríkið og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu vinna að uppbyggingu hágæðaalmenningssamgöngukerfis í samræmi við samkomulag um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.
Ríkið styður við rekstur almenningssamgangna á hreinorku með fjárveitingum og bættu lagaumhverfi, en tryggja þarf viðeigandi tíðni í heildstæðara, skilvirkara og þjónustumiðaðra leiðakerfi um land allt.
Áætlun verður mótuð og tilraunaverkefni hafið um almenningssamgöngur á hreinorku milli höfuðborgarsvæðis og KEF m.t.t. þjónustuþarfar og aðstöðu farþega.
Ríkið sé fyrirmynd í innkaupum hreinorkuökutækja og vistvænnar samgönguþjónustu með undanþágum, sbr. reglugerð nr. 1330/2023.
Styrkir fyrir kaupum hreinorkuökutækja sem kosta undir 10 m.kr. verða veittir úr Orkusjóði og lækki stuðningurinn í þrepum í takt við tækni- og verðþróun á markaði.
Styrkir fyrir kaupum á hópferðabifreiðum sem ganga fyrir hreinorku verða veittir úr Orkusjóði að undangenginni auglýsingu. Hópferðabifreið skal vera nýskráð í ökutækjaflokkum M2 eða M3.
Stigvaxandi krafa á söluaðila eldsneytis um lágmarkshlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa seldra til samgangna á landi.
Stigvaxandi bifreiða- og vörugjöld á ökutæki, knúin jarðefnaeldsneyti, til samræmis við losun þeirra þar til nýskráning ökutækja, knúnum eingöngu jarðefnaeldsneyti, verður óheimil.
Í núgildandi reglum um bifreiðahlunnindi er gerður skýr greinarmunur á því hvort um er að ræða bifreið sem knúin er með jarðefnaeldsneyti eða bifreið sem knúin er með rafmagni, vetni eða metan. Lagt er upp með að gera skýrari greinamun í skattmatsreglum tekjuársins 2024 frá og með 1. júlí 2024 til að gera rafmagns-, vetnis- og metanbifreiðar hagstæðari.
Ferðamenn sem koma til landsins séu upplýstir um órjúfanlega tengingu hreinnar orkuöflunar, ósnortinnar náttúru og notkunar hreinorkuökutækja.
Krafa verður gerð um stigvaxandi hlutfall nýskráninga hreinorkuökutækja hjá ökutækjaleigum. Í lok árs 2026 skulu nýskráningar ökutækja í ökutækjaflokkum M1 og N1 hjá ökutækjaleigum vera 45% hreinorkuökutæki. Í lok árs 2027 skulu nýskráningar ökutækja í ökutækjaflokkum M1 og N1 hjá ökutækjaleigum vera 70% hreinorkuökutæki.
Í eldri aðgerðaráætlun var meginreglan sú að óheimilt yrði að nýskrá bensín- og dísilbíla á Íslandi árið 2030 en í skoðun er að flýta þessari tímalínu um tvö ár og einnig er lagt til að útvíkka skráningarbannið þannig að það gildi einnig fyrir ökutæki sem nota blandaða orkugjafa (bæði hreinorkugjafa og jarðefnaeldsneyti).
Óheimilt verði að meginreglu að nýskrá þung ökutæki knúin jarðefnaeldsneyti árið 2035. Bannið verði innleitt í þrepum í takt við tækni- og markaðsþróun.
Uppbygging háspennutenginga í stærri höfnum fyrir skip í vöruflutningum, ferðaþjónustu og sjávarútvegi út frá forgangsröðun og framkvæmdaáætlunum til viðbótar við fyrirliggjandi lágspennutengingar í heimahöfnum.
Greindar verða hagkvæmar leiðir að því að koma upp rafmagnshleðsluinnviðum fyrir rafknúin skip í höfnum. Unnið verður að forgangsröðun hafna og aðgerðaáætlun fyrir framkvæmdir í höfnum.
Greindar verða hagkvæmar leiðir, forgangsröðun og framkvæmdaáætlun um uppbyggingu áfyllingarinnviða fyrir skip knúin endurnýjanlegum orkugjöfum (öðrum en rafmagni) í höfnum, t.a.m. grænu vetni, metanóli og ammóníaki.
Hafnir skulu fá heimild til að láta gjaldskrár taka mið af umhverfissjónarmiðum með vísan til orkunýtni og kolefnisnýtni siglinga.
Unnið verður að eflingu hafrannsókna og forgangsröðun fjármagns til hafrannsókna sem tryggir gott ástand vistkerfa í hafi og lágmarkar þannig losun vegna nytja.
Fylgjast með ávinningi nýlegra breytinga á regluverki um viðbótaraflaheimildir rafvæddra strandveiðibáta sem stuðlað geta að hraðari orkuskiptum á strandveiðum og uppfæra eftir þörfum.
Fyrirtæki í sjávarútvegi skuldbinda sig til að draga úr úblæstri frá rekstri útgerðanna með ýmsum ráðum, og vinna þannig að því að draga úr losun vegna eldsneytisnotkunar fiskiskipa um 50% árið 2030 m.v. 2005
Unnið verður að orkuskiptum í ferjum ríkisins. Fram til ársins 2030 verða hannaðar, byggðar og teknar í rekstur ný Hríseyjarferja og ný Grímseyjarferja, knúnar endurnýjanlegum orkugjöfum.
Markvisst verður dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis í skipum ríkisins og skipt út fyrir endurnýjanlega orkugjafa svo 10% hlutfall náist að lágmarki í heildarflota ríkisins.
Styðja við orkuskipti í haftengdri starfsemi, hvort heldur sem er í gegnum Orkusjóð eða með stuðningi við umsóknir í alþjóðlega sjóði fyrir sjálfbærar lausnir.
Þrepaskipt krafa á söluaðila eldsneytis um lágmarkshlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa sem seldir eru til fiskiskipa og í innanlandssiglingar
Urðun á úrgangi sem inniheldur lífrænt efni veldur mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Með því að koma í veg fyrir úrgangsmyndun og koma viðeigandi úrgangsstraumum í aðra farvegi er dregið úr losun. „Í átt að hringrásarhagkerfi“ samanstendur af „Saman gegn sóun“ (úrgangsforvarnarstefna) og „Stefnu um meðhöndlun úrgangs“. „Saman gegn sóun“ er í endurskoðun árið 2024. Mikilvægt er að fylgja aðgerðum eftir úr þessum stefnum með markvissri vinnu.
Meðhöndlun matarleifa veldur losun gróðurhúsalofttegunda. Með því að koma í veg fyrir matarsóun og með því að koma matarleifum í aðra farvegi en urðun er dregið úr losun. Heildstæð áætlun um markvissar aðgerðir gegn matarsóun til næstu ára kom út í september 2021, undir heitinu „Minni matarsóun“. Í áætluninni eru 24 aðgerðir, að hluta á ábyrgð íslenskra stjórnvalda og að hluta á ábyrgð atvinnulífsins. Auk þessa hafa verið sett markmið um 30% samdrátt í matarsóun í allri virðiskeðju matvæla hérlendis fyrir árið 2025 og um 50% samdrátt fyrir árið 2030, sbr. viðauka við „Saman gegn sóun“, almenna stefnu um úrgangsforvarnir 2016–2027.
Urðun á úrgangi sem inniheldur lífrænt efni veldur mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Með því að koma þessum úrgangi í aðra farvegi er dregið úr losun. Til að unnt sé að nýta úrganginn er mikilvæg forsenda að hann sé flokkaður. Samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs er rekstraraðilum skylt að flokka rekstrarúrgang í ákveðna flokka og heimilum og lögaðilum skylt að flokka heimilisúrgang í ákveðna flokka. Lögð hefur verið áhersla á innleiðingu laganna fyrir heimili en víða er pottur brotinn hjá rekstraraðilum og lögaðilum. Mikilvægt er að leggja áherslu á innleiðingu laganna til að tryggja að úrgangsstraumar séu aðskildir.
Annars vegar sé urðun sérsafnaðs lífúrgangs bönnuð og hins vegar verði sérsöfnun lífúrgangs lögfest. Lífúrgangur er lífbrjótanlegur garðaúrgangur, matar- og eldhúsúrgangur frá heimilum, skrifstofum, heildsölum, smásölum, veitingastöðum, mötuneytum og veisluþjónustufyrirtækjum, og sambærilegur úrgangur frá vinnslustöðvum matvæla. Á vorþingi 2021 var samþykkt frumvarp umhverfis– og auðlindaráðherra sem lögfestir að komið skuli upp sérstakri söfnun lífúrgangs frá heimilum og lögaðilum og að óheimilt verði að urða úrgang sem safnað hefur verið sérstaklega. Ákvæði laganna tóku að fullu gildi 1. janúar 2023.
Í aðgerðinni felst að banna urðun lífræns úrgangs frá og með árinu 2028. Með lífrænum úrgangi er átt við allan úrgang sem brotnað getur niður fyrir tilstilli örvera, t.d. sláturúrgang, fiskúrgang, ölgerðarhrat, húsdýraúrgang, timbur, lýsi, garðyrkjuúrgang, pappírs- og pappaúrgang, seyru og lífúrgang. Aðgerðin er í samræmi við markmið stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsmálum: „Í átt að hringrásarhagkerfi“.
Samvinnuverkefni um uppbyggingu nauðsynlegra innviða svo líforkuver í Eyjafirði geti annað 10 þ.t af lífrænum úrgangi á ári. Þörf er fyrir innviði fyrir framleiðslu á afurðum úr lífrænum úrgangi á Íslandi. Í dag eru sumir úrgangsflokkar urðaðir sem er ólöglegt að urða (t.d. dýrahræ) þar sem enginn annar farvegur er til staðar.
Samvinnuverkefni um uppbyggingu nauðsynlegra innviða svo árleg brennsla á 100-140 þ.t af úrgangi með orkunýtingu og kolefnisföngun verði möguleg. Þörf er fyrir innviði til brennslu úrgangs á Íslandi. Urðun á úrgangi sem inniheldur lífræn efni stuðlar að mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Með því að koma þessum úrgangsstraumum í brennslu er dregið úr losun þar sem losunin við brennsluna er minni. Um er að ræða blandaðan úrgang frá heimilum og rekstraraðilum og annan úrgang sem ekki hentar til endurvinnslu.
Lífræn efni í fráveitu leiða til losunar gróðurhúsalofttegunda. Tryggja þarf að lífrænar hliðarafurðir fari í hringrásarhagkerfið svo skapa megi frekari verðmæti úr viðkomandi straumum. Ýmis tækni er í þróun og mikilvægt að innleiða bætta hreinsun á upprunastöðum. Verkefnið er flókið sökum stöðu tækniþróunar og því mikilvægt að það sé unnið og útfært frekar í nánu samstarfi við hagsmunaaðila.
Bæta þarf núverandi hreinsivirki til að auka hreinsun skólps með innviðauppbyggingu. Ríkið styrki innviðauppbyggingu í einstökum byggðakjörnum á vegum sveitarfélaga til að bæta hreinsun fráveitu. Reiknað er með að vinnslan hefjist með fullum afköstum árið 2030. Um er að ræða níu svæði: Hafnarfjörð, höfuðborgarsvæðið, Keflavík/Njarðvík, Akranes, Dalvík, Akureyri, Vestmannaeyjar, Grindavík og Þorlákshöfn.
Tryggja samræmi og samkeppnishæfni rekstraraðila er falla undir ETS-kerfið með því að innleiða tímalega viðeigandi regluverk, leiðbeina og upplýsa.
Setja þarf upp aðgerðaáætlun staðbundins iðnaðar, föngunaraðila og stjórnvalda, sem raungerir viljayfirlýsingu um föngun gróðurhúsalofttegunda undirritaða af viðkomandi 2021.
Setja þarf reglugerð um framkvæmd og eftirfylgni orkuúttektar rekstraraðila í iðnaði, í samræmi við lög um ETS, sem rekstraraðilar láta framkvæma svo úthlutun losunarheimilda skerðist ekki.
Varaflugvellir fyrir millilandaflug verða byggðir upp sem minnkar magn eldsneytis sem flugvél þarf til næsta varaflugvallar og eykur þannig orkunýtni.
Áfram verði unnið að orkusparnaði í farflugi með innleiðingu „frjáls flugs“ og orkusparandi verklagi við frá- og aðflug að flugvöllum í eigu Isavia ohf.
Áframhaldandi þátttaka í alþjóðlegum kerfum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá flugi (ETS og CORSIA) og uppfærsla regluverks eftir þörfum.
Innleiða þrepaskipta kröfu ESB um lágmarkshlutdeild sjálfbærs flugvélaeldsneytis (SAF) fram til ársins 2050, þ.e. 2% árið 2025, 6% árið 2030 og allt að 70% árið 2050.
Losun frá sjóflutningum stærri skipa (yfir 5000 brúttótonn og stærri) verður felld undir ETS-kerfið í skrefum. ETS-kerfið tekur gildi 1. janúar 2024 en skipafyrirtæki munu þurfa að gera upp losun sína ári síðar. Þann 1. janúar 2024 tók kerfið gildi fyrir sjóflutninga í formi vöktunar en árin 2025 og 2026 munu skipafélög þurfa að gera upp losun sína að hluta og árið 2027 þurfa þau að gera upp losun sína að öllu leyti.
Ívilnun sem felst í lækkun tekjuskatts vegna fjárfestinga í "grænu" lausafé sem telst loftslagsvænt. Ívilnunin er í gildi til loka árs 2025 og verður hún endurskoðuð með það að markmiði að gera hana markvissari.
Innleiða Evrópugerðir sem er ætlað að undirbyggja sjálfbæran fjármálamarkað, svo tryggja megi aðgang að hagstæðari lánakjörum fyrir loftslagsvænar lausnir.
Skýra starfsreglur og úthlutun átakssjóðsins svo stjórnvöld, atvinnulíf og samfélag geti sameiginlega unnið að orkuskiptum á markvissan og skilvirkan hátt.
Sem hluti af innleiðingu nýs fjármögnunarkerfis vegna umferðar og orkuskipta, þar sem gert er ráð fyrir að vörugjöld á eldsneyti lækki verulega eða falli niður, verður kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti hækkað í upphafi árs 2025. Skoðað verður hvernig megi útvíkka kolefnisgjald þannig að það nái til skemmtiferðaskipa.
Framlög til aðgerða sem stuðla eiga að kolefnisjöfnun eru upp að vissu marki frádráttarbær frá tekjuskatti lögaðila, t.d. skógrækt, landgræðsla, endurheimt votlendis og niðurdæling koldíoxíðs.
Upplýsingagjöf og markviss stuðningur við umsóknir hagaðila í Evrópusjóði vegna sjálfbærra lausna sem stuðla munu að samdrætti í losun.
Ríkissjóður hefur gefið út grænt skuldabréf og mun skila árlegri skýrslu um áhrif einstakra útgjaldaliða þar til ráðstöfun andvirði útgáfunnar er að fullu lokið. Til greina kemur að skoða frekari útgáfu á grænum skuldabréfum styðji það við önnur markmið í aðgerðaráætlun.
Stofnaðir verða samráðshópar stjórnvalda og ákveðinna atvinnugreina um markvissar ívilnanir til loftslagsvænna fjárfestingar. Mikilvægt er að tryggja samkeppnishæfi íslenskra atvinnugreina og efnahagslegan fyrirsjáanleika til að tryggja þátttöku atvinnugreina í orkuskiptum.
Aðgerðin er framhald af fyrri aðgerð um sjálfbæra innkaupastefnu og felur í sér samhæfingu við aðgerðir á sviði mannvirkjagerðar, fleiri hvata fyrir bjóðendur og markvissari framsetningu árangursmælinga og gagna.
Fyrir liggur að almenn eigendastefna horfir til loftslagsmarkmiða en í þeim tilfellum sem sértækir viðaukar fyrir einstaka félög eða sérstaka geira séu til staðar verður endurskoðað og hnykkt á sértækum áherslum fyrir viðkomandi aðila.
Aðgerðin felur í sér markvissari gagnasöfnun og framsetningu kolefnisspors ríkisrekstrar á sem fjölbreyttastan hátt hvað varðar rekstur, þjónustuveitingu, innkaup og rekstur húsnæðis.
Regluleg birting upplýsinga um áætlaðar og sögulegar tekjur og gjöld ríkisins vegna loftslagsmála, t.a.m. vegna sölu losunarheimilda, greiðslur í erlenda sjóði o.fl.
Heildstæð nálgun á innleiðingu sjálfbærnimenntunar á öllum skólastigum, með áherslu á stefnu um loftslagsvæna skóla, aðalnámskrár sem og kennaramenntun og starfsþróun.
Beita árangurstengdri fjármögnun háskólastigsins til að stuðla að aukinni sjálfbærni og langtímahagvexti byggðum á hugviti og þekkingu.
Þróa þarf námsfyrirkomulag í sí- og endurmenntun sem auðveldar sjálfbær umskipti með þjálfun starfsfólks til að mæta breyttum hæfniskröfum og markaðsforsendum.
Endurskoðun á opinberum stuðningi við fjármögnun nýsköpunar, bæði hvað varðar styrki gegnum samkeppnissjóði og þátttöku í fjármögnun sprotafyrirtækja.
Framlög í íslenska samkeppnissjóði og samstarfsáætlanir ESB hafa verið aukin, en unnið er að endurskoðun og endurskipulagningu til aukinnar skilvirkni og áhrifa í þágu samfélags og loftslagsmála.
Auka gagnaöflun og rannsóknir til að styðjast við í upplýsingagjöf um loftslagsmál. Miðlunarstefna þarf að fylgja með samræmdri orða- og hugtakanotkun til að auka skilning á málefninu og höfða til samfélagsins alls.
Meta hvaða lýðheilsuvísa vantar, hvaða gögn eru til og hvaða gögn vantar til að fjölga lýðheilsuvísum vegna loftslagsáhrifa, ásamt því að skilgreina, finna og birta fleiri loftslagstengda vísa
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn aðgerðaáætlunar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.