
Að íslenskt samfélag og vistkerfi búi að viðnámsþrótti gagnvart loftslagsvá og að aðlögun að loftslagsbreytingum sé þáttur í áætlunum og starfssemi hins opinbera og fyrirtækja og þekkt viðfangsefni meðal félagasamtaka og almennings.
Í þessari fyrstu aðlögunaráætlun er áhersla lögð á vöktun, viðbrögð og mat á áhrifum loftslagsbreytinga á íslenska náttúru, samfélag og innviði. Forgangsaðgerðir leggja grunn að frekari ákvarðanatöku vegna aðlögunar og öruggara samfélagi.

Nauðsynlegt er að vita hvar aðgerðir eru staddar hverju sinni, með tilliti til fjármögnunar, framkvæmda og þróunar aðgerða.
Í samræmi við reglugerð 786/2024 um verkefnisstjórn loftslagsaðgerða skal eitt ráðuneyti vera skilgreint sem ábyrgðarráðuneyti hverrar aðgerðar. Í áætluninni má einnig finna aðgerðir á ábyrgð Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem á fulltrúa í verkefnisstjórn loftslagsaðgerða.
Áætlunin skiptist í fjögur svið. Hvert þeirra rammar inn aðgerðir sem hafa mismunandi áhrif á samfélagið.
Aðlögun býr samfélög undir að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Gæta þarf þess hvar byggð er skipulögð til framtíðar m.t.t. aukinnar tíðni náttúruvár og vinna að því að verja innviði. Breytingar utan Íslands hafa einnig áhrif hér á landi.
Aðlögun er gert hátt undir höfði í Parísarsamningnum með það að markmiði að auka aðlögunargetu, styrkja viðnámsþrótt og draga úr varnarleysi gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga.
Besta aðlögunaraðgerðin til langs tíma er eftir sem áður ör samdráttur í losun.
Aðlögunaráætlun er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn loftslagsaðgerðar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.


Aðgerðin byggir upp grunn fyrir langtímavöktun vistkerfa og mat á viðkvæmni þeirra gagnvart loftslagsbreytingum og súrnun sjávar.
Með því að koma upp neti vöktunarstaða og framkvæma áhættumat vegna loftslagstengdra þátta (s.s. hitabreytinga, þurrka, sjávarhæðarhækkunar, sífrera og framandi tegunda) er markmiðið að greina snemmbær merki um breytingar í náttúru og styðja við stefnumótun, mótvægisaðgerðir, verndaráætlanir og aðlögun í landnotkun. Einnig að koma upp sjálfvirku kerfi til þess að fylgjast með breytingum á jökullónum út frá gervitunglamyndum Kóperníkusaráætlunarinnar.

Aðgerðin miðar að því að byggja upp samræmd landupplýsingagögn um búsvæði, jarðfræði, jarðveg og útbreiðslu loftslagsnæmra tegunda til að styðja við aðlögun að loftslagsbreytingum.
Kortlagningin mun gera stjórnvöldum kleift að greina vistkerfi og svæði í hættu, forgangsraða verndaraðgerðum og innleiða viðbragðsáætlanir gegn framandi tegundum sem geta breiðst út með hlýnandi loftslagi. Gagnasafnið verður nýtt í stefnumótun um náttúruvernd, landnotkun og áhættumat vegna loftslagsbreytinga.

Áhættu- og viðkvæmnimat Íslands ætti að snúa að beinum og óbeinum áhættum vegna loftslagsbreytinga auk þess sem sérstaklega er hugað að kerfislægum áhættum, s.s. áhættum þvert á landamæri og miðað að því að koma auga á tækifærin sem gætu falist í breyttu loftslagi.
Skapa þarf skýran ramma utan um framkvæmd viðkvæmni- og áhættumats Íslands til þess að tryggja að slíkt mat verði heildrænt, taki mið af mismunandi geirum og byggi á samræmdum upplýsingum og aðferðum. Sett verður fram tímalína sem rímar við tímalínu aðlögunaráætlunar Íslands, samræmd aðferðafræði, skilgreiningar og leiðbeiningar fyrir lykilgeira og sveitarfélög. Samhliða því verður lögð áhersla á að setja fram lykiláhættur og skilgreina lykilgeira íslensks samfélags ásamt því að meta hverjir beri ábyrgð á gerð viðkvæmni- og áhættumats hvers málaflokks.

Loftslagsbreytingar munu fela í sér breytingar á starfsumhverfi landbúnaðar. Dæmi um áhrif sem geta haft bein áhrif á landbúnað er að þurrkadögum kann að fjölga, úrkomuákefð að aukast og veðurfar að hlýna.
Afleiðingar þessa kunna að vera tíðari gróðureldar, aukin flóðahætta, aukin útbreiðsla ágengra lífvera og að skriðuföll aukist. Við viðkvæmni- og áhættumat er viðeigandi loftslagstengd hætta fyrir málaflokkinn metin gróflega og mat gert á viðkvæmni viðeigandi aðila. Vinna þarf viðkvæmni- og áhættumat fyrir landbúnað til að undirbyggja mótun, val og forgangsröðun aðlögunaraðgerða.

Loftslagsbreytingar munu fela í sér breytingar á starfsumhverfi sjávarútvegs og lagareldis, einkum sjókvíaeldis. Dæmi um bein áhrif á sjávarútveg og fiskeldi er að úrkomuákefð eykst og veðurfar hlýnar.
Afleiðingar þessa kunna að vera tíðari ofsaveður, breytt sjávarstaða og aukin flóðahætta, aukin útbreiðsla ágengra lífvera, lækkun sýrustigs sjávar og að far fiskstofna taki breytingum. Við áhættu- og viðkvæmnimat er viðeigandi loftslagstengd hætta fyrir málaflokkinn metin gróflega og mat gert á viðkvæmni viðeigandi aðila. Vinna þarf áhættu- og viðkvæmnimat fyrir sjávarútveg og fiskeldi til að undirbyggja mótun, val og forgangsröðun aðlögunaraðgerða.

Kortleggja þyrfti viðnámsþrótt eða seiglu vegakerfisins m.t.t. loftslagsbreytinga til að hægt sé að meta forgangsröðun aðgerða til að styrkja samgöngur og takmarka líkur á samgöngurofi.
Aðgerðin er grundvallarforsenda þess að hægt sé að bregðast við í tíma, áður en fyrirséðar loftslagsbreytingar valda alvarlegum röskunum. Þróun á aðferðafræði við kortlagninguna er hafin innan Vegagerðarinnar með tilraunaverkefni og verður hægt að byggja á niðurstöðum þess verkefnis fyrir heildarkortlagningu áhættustaða. Mikilvægt er að kortleggja hvar váin er mest til að hægt sé að forgangsraða mögulegum aðgerðum til að draga úr líkum á samgöngutruflunum.

Vegagerðin vinnur að greiningum á áhrifum loftslagsbreytinga á strandsvæði m.t.t. sjávarstöðuhækkunar og aukins ölduálags og gefur m.a. út viðmið fyrir skipulag á hafnar- og strandsvæðum. Þessar greiningar ná m.a. til öryggis, viðkvæmni og tjónnæmi þessara svæða. Þörf er á að styrkja þessa vinnu á grundvelli þekkingar og reynslu sem er til staðar.
Einnig þarf að styðja þróun líkana; tryggja uppfærslur og viðbætur nýrra gagna og samþættingu þeirra. Niðurstöður úr greiningum og líkanagerð yfir stærri svæði nýtast m.a. til að hægt sé að huga að áhættu vegna loftslagsbreytinga á stærri svæðum, m.a. við skipulag strandsvæða með mótvægisaðgerðum eða skipulagsskilmálum.
· Greining á sjávarstöðubreytingumsamhliða landhæðarbreytingum m.v. núverandi mælakerfi.
· Styrkja líkanareikninga ogöldumælingar í kringum landið.
· Styrkja ölduspá á grunnslóð ogsjávarflóðaspá.
· Styðja við framsetningu líkana oggagna.
· Greining á þörf á bættumflóðavörnum og vöktunar- og viðvörunarkerfum.
· Uppfæra hönnunarviðmið bygginga oginnviða á lágsvæðum í takt við niðurstöður líkana.

Þekking á áhrifum loftslagsbreytinga og aðlögunaraðgerðum er oft dreifð, brotakennd og erfitt að miðla milli hagaðila. Vöntun er á vettvangi þar sem mismunandi greinar, stjórnsýslustig og samfélög geta lært hvert af öðru, miðlað reynslu og eflt getu sína sameiginlega. Þekkingarrof milli vísindasamfélagsins og stefnumótenda dregur úr áhrifum rannsókna og hamlar markvissri innleiðingu aðlögunaraðgerða. Hafa ber í huga að aðlögun er staðbundin í eðli sínu, en margar áskoranir eru sameiginlegar og krefjast samvinnu þvert á geira og landshluta.
Að efla sameiginlega þekkingargrunn og ræða og meta árangur aðlögunaraðgerða með reglulegum ráðstefnum, málstofum eða fundum sem miða að því að tengja saman vísindi, stefnumótun og framkvæmd, miðla reynslu og lærdómi milli sveitarfélaga, stofnana, fræðasamfélags og annarra hagaðila, skapa vettvang fyrir gagnvirka umræðu og sameiginlega mótun lausna, og kynna nýjar aðferðir, verkfæri og rannsóknarniðurstöður sem styðja við ákvarðanatöku og stefnumótun. Á þennan hátt er stuðlað að aukinni hæfni, upplýsingamiðlun og samstarfi sem styrkir samfélagslegan viðnámsþrótt og eykur áhrif aðlögunarstarfs á landsvísu.
Almennt hvað þessa verkþætti varðar skal reynaeftir fremsta megni að nýta kannanir, verkfæri, efni og miðlunarleiðir semþegar eru til staðar eða nýttar. Þetta á t.d. við um reglulega fundi meðalhagaðila. Þó skal bent á að minni málstofur með skýran fókus á nærumhverfi erulíklegri til að skila árangri hvað varðar aukið þekkingarstig og aukið virði íþeim upplýsingum og leiðbeiningum sem miðlað er.

Markmið þessa verkefnis er að auka getu og bolmagn íslenskra sveitarfélaga til að taka ákvarðanir um og framkvæma aðlögun að loftslagsbreytingum.
Þetta verður gert með því að auka magn, fjölbreytni og aðgengi að fræðsluefni, leiðbeiningum, sniðmátum og öðru gagnlegu efni um aðlögun að loftslagsbreytingum í samhengi íslenskra sveitarfélaga.

Aðgerðin felur í sér að efla náttúrumiðaðar lausnir með mótvægis- og aðlögunaraðgerðir í huga. Ekki liggur fyrir heildstæð greining á landsvísu á möguleikum til að nýta náttúrumiðaðar lausnir til aðlögunar að loftslagsbreytingum. Sú aðferðafræði sem til staðar er hvað varðar náttúrumiðaðar lausnir er að jafnaði miðuð við stöðvun jarðvegsrofs, endurheimt vistkerfa og sjálfbær landnýting en ekki hefur verið tekið tillit til aðlögunar að loftslagsbreytingum með markvissum og samræmdum hætti.
Hnignun gróðurs og jarðvegs hér á landi hefur leitt til taps á miklum hluta kolefnisforða landsins. Þá vegur losun gróðurhúsalofttegunda frá röskuðum vistkerfum þyngst í losunarbókhaldi Íslands. Aukinheldur getur hnignun dregið úr þanþoli vistkerfa. Náttúrumiðaðar lausnir geta bæði talist mótvægisaðgerðir (vegna kolefnisbindingar) og aðlögunaraðgerðir (vegna aukins þanþols). Opinberum fjármunum er veitt í náttúrumiðaðar lausnir, s.s. vernd og endurheimt vistkerfa, skógrækt og sjálfbæra nýtingu og aukinn áhugi er á slíkum aðgerðum meðal einkaaðila. Æskilegt er að forgangsraða fjármunum í þær náttúrumiðuðu lausnir sem mestan ávinning hafa m.t.t. eflingar þanþols vistkerfa og aðlögunar að loftslagsbreytingum samhliða kolefnisbindingu og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni og hvetja jafnframt til einkafjármögnunar slíkra aðgerða.

Ísland stendur frammi fyrir flókinni og sívaxandi loftslagsáhættu sem getur haft áhrif innan lands og þvert á landamæri, m.a. í gegnum hnattræn kerfi á borð við matvælakerfi, markaði með hrávöru, birgðakeðjur, fólksflutning, heilbrigðiskerfi og vistkerfi. Til að greina og meta slíkar áhættur á kerfisbundinn hátt er nauðsynlegt að þróa sértæka vísa sem byggja á nýjustu alþjóðlegu þekkingu og viðurkenndum skilgreiningum.
Aðgerðin felur í sér að þróa gagnlega vísa fyrir kerfislæga og þverþjóðlega loftslagsáhættu með hliðsjón af starfsemi ESB og IPCC, greina hvaða gögn þurfi til og hver beri ábyrgð á söfnun og greiningu þeirra. Unnið verður að því að samþætta niðurstöður verkefnisins við vinnu við áhættumat Íslands, ramma viðkvæmnigreiningar og starf vinnuhóps 2 skv. tillögu landsnefndar um vísindastarf.

Vegagerðin tekur nú þegar inn áhrif loftslagsbreytinga í hönnun nýrra samgöngumannvirkja, m.a. breytt hönnunarflóð fyrir brýr og sjávarstöðuhækkanir á strandsvæðum. Töluverð óvissa er um staðbundin áhrif loftslagsbreytinga og því mikilvægt að verklag þróist með bættum upplýsingum og aukinni þekkingu.
Sérstök áskorun er samgöngumannvirki sem hönnuð eru til langs tíma, t.d. brýr með 100 ára hönnunarlíftíma, en óvissa um áhrif loftslagsbreytinga eykst því fjær í tíma sem horft er. Nauðsynlegt er að til sé skýrt verklag sem styður við rökstudda ákvarðanatöku um hvort mögulegur viðbótarkostnaður vegna dýrari hönnunar og byggingar mannvirkis skili árangri, skv. kostnaðarhlið. Einnig þarf að fylgjast með og þróa nýjar lausnir í hönnun sem auðvelda viðbragð og breytingar á mannvirkjum ef bregðast þarf við loftslagsáhættu.
· Þróun verklags og gátlista fyrirhönnun samgöngumannvirkja sem taka mið af loftslagsþáttum. Tryggja þarfuppfærslu í takt við bætta þekkingu.
· Þróun verklags m.t.t.kostnaðarhliða, þ.e. mat á óvissu og kostnaði við að bregðast við í hönnunvegna loftslagsbreytinga til móts við möguleg áhrif og líkur á þeim.

Bregðast þarf við mögulegum breytingum í viðhaldi og þjónustu sökum breytinga og aukinna sveiflna í veðurfari.
Búast má t.d. við því að frost- og þíðuferlar verði algengari sem leiða til aukins niðurbrots vega auk breytinga á umfangi vetrarþjónustu, breytingar á úrkomuákefð og flóðum, breytingar á árvegum og breytingar á hviðum og vindafari í tengslum við hörfun jökla. Margar þessara breytinga eru hægfara og hægt að aðlaga verklag og viðbragð á vettvangi jafnóðum en nauðsynlegt er að auka við skráningar til að hægt sé að meta áhrif til framtíðar og uppfæra hönnunarkröfur á grundvelli raungagna og skráninga.



