
Upplýsingaóreiða og brotakennd nálgun milli málefnasviða og stofnana torveldar samþættingu og hægir á innleiðingu aðlögunaraðgerða. Almennt er skortur á þverfaglegu samstarfi til að tryggja skilvirka og árangursríka innleiðingu aðlögunaraðgerða.
Markmiðin á þessu sviði byggja á sameiginlegri framtíðarsýn og forgangsröðun. Þau eru leiðarljós í ákvarðanatöku og verkefnavinnu og tryggja að starfsemin skili áþreifanlegum árangri.
Aðlögunaráætlun er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn loftslagsaðgerðar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.


Til að tryggja skilvirka og samhæfða framkvæmd, eftirfylgni og utanumhald er brýnt að skilgreina loftslagsþjónustu skýrar í lögum, regluverki og stefnugögnum stjórnvalda. Slík skilgreining ætti að tilgreina hlutverk og ábyrgð Veðurstofu Íslands og þá sérstaklega miðlunar- og þjónustuhlutverk skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar.
Snar þáttur í efldri loftslagsþjónustu er að tryggja aðgengilegar upplýsingar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi.
Loftslagsatlas Íslands er myndræn vefsjá sem veitir yfirsýn yfir líkleg áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi. Hann byggir á niðurkvarðaðri úrvinnslu sviðsmynda IPCC og nær yfir bæði land og hafsvæði innan íslenskrar efnahagslögsögu. Atlasinn er formlegur farvegur til að miðla viðurkenndum loftslagssviðsmyndum og styðja við stefnumótun, aðlögun og fræðslu.
Á vegum vísindanefndar um loftslagsbreytingar og Veðurstofunnar hefur verið unnið úr hnattrænum reikniniðurstöðum loftslagslíkana sem byggja á losunarsviðsmyndum IPCC. Til að tryggja að framreikningar séu byggðir á nýjustu þekkingu þarf að uppfæra úrvinnslu reglulega eftir því sem ný gögn verða aðgengileg. Þróa þarf aðferðir og verkfæri til að framkvæma slíka niðurkvörðun hratt og örugglega. Jafnframt er mikilvægt að þróa og miðla frávikasviðsmyndum, s.s. vegna samdráttar eða mögulegs hruns AMOC. Niðurstöðum úr sviðsmyndagreiningum verður miðlað í gegnum Loftslagsatlas Íslands sem og í skýrslum og greinargerðum. Markmiðið er að afleiðingar helstu frávika frá líklegri þróun séu vel skjalfestar og gagnlegt efni aðgengilegt hagaðilum. Fyrsta útgáfa atlassins var birt í apríl 2025 og nýjar útgáfur munu bæta við fleiri loftslagsvísum og sviðsmyndum, þróa nýja virkni og tengjast öðrum gagnagáttum, s.s. varðandi náttúruvá og áhættu.
Tilraunaverkefni um gagnagátt vegna vatns og sjávarflóða hófst árið 2021 í kjölfar útgáfu Loftslagsþolins Íslands. Í næsta áfanga verkefnisins, 2025–2029, er lagt upp með að þróun gagnagáttarinnar verði sjálfstætt verkefni og eitt af þeim verkefnum sem listað er upp í landsáætlun aðgerða vegna loftslagsbreytinga. Verkefni tengd náttúruvá eins og bæði vatnavá og sjávarflóðavá verði skilgreind í sértækum verkefnum.
Þegar innleiðingu gagnagáttarinnar verður lokið og fyrirliggjandi gögn yfirfarin og gerð aðgengileg verður unnið að því að koma inn upplýsingum um yfirfarin gögn fyrir fleiri vatnasvið og frá sjávarborðsmælum. Gagnagáttin verður jafnframt þróuð áfram til þess að birta fleiri gögn til viðbótar við vatnsflóð og sjávarflóð. Notendakannanir verða framkvæmdar og kannað hvort og þá hvaða úrbætur þarf að ráðast í til þess að gagnagáttin virki sem skyldi fyrir hagaðila og nýtist við ákvarðanatöku aðgerða til þess að draga úr og laga sig að áhrifum loftslagsbreytinga.
Þekking á áhrifum loftslagsbreytinga og aðlögunaraðgerðum er oft dreifð, brotakennd og erfitt að miðla milli hagaðila. Vöntun er á vettvangi þar sem mismunandi greinar, stjórnsýslustig og samfélög geta lært hvert af öðru, miðlað reynslu og eflt getu sína sameiginlega. Þekkingarrof milli vísindasamfélagsins og stefnumótenda dregur úr áhrifum rannsókna og hamlar markvissri innleiðingu aðlögunaraðgerða. Hafa ber í huga að aðlögun er staðbundin í eðli sínu, en margar áskoranir eru sameiginlegar og krefjast samvinnu þvert á geira og landshluta.
Að efla sameiginlega þekkingargrunn og ræða og meta árangur aðlögunaraðgerða með reglulegum ráðstefnum, málstofum eða fundum sem miða að því að tengja saman vísindi, stefnumótun og framkvæmd, miðla reynslu og lærdómi milli sveitarfélaga, stofnana, fræðasamfélags og annarra hagaðila, skapa vettvang fyrir gagnvirka umræðu og sameiginlega mótun lausna, og kynna nýjar aðferðir, verkfæri og rannsóknarniðurstöður sem styðja við ákvarðanatöku og stefnumótun. Á þennan hátt er stuðlað að aukinni hæfni, upplýsingamiðlun og samstarfi sem styrkir samfélagslegan viðnámsþrótt og eykur áhrif aðlögunarstarfs á landsvísu.
Almennt hvað þessa verkþætti varðar skal reynaeftir fremsta megni að nýta kannanir, verkfæri, efni og miðlunarleiðir semþegar eru til staðar eða nýttar. Þetta á t.d. við um reglulega fundi meðalhagaðila. Þó skal bent á að minni málstofur með skýran fókus á nærumhverfi erulíklegri til að skila árangri hvað varðar aukið þekkingarstig og aukið virði íþeim upplýsingum og leiðbeiningum sem miðlað er.
Til þess að tryggja samhæfingu og þverfaglegt samstarf skal þróa áfram vinnu og verklag við alþjóðstarf Íslands undir Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) og gerð íslenskra samantektarskýrslna um vísindalega þekkingu um loftslagsbreytingar á Íslandi. Hluti af þessari vinnu er að skipuleggja vinnu við næstu samantektarskýrslur og samstarf undir IPCC í samstarfi við landsnefnd um vísindastarf vegna loftslagsbreytinga. Nefndin var skipuð í nóvember 2024 til þriggja ára og hefur ráðgefandi hlutverk gagnvart ráðuneyti, Veðurstofu Íslands og Umhverfis- og orkustofnun og samhæfingar- og stuðningshlutverk gagnvart vinnuhópum á sviði loftslagsmála sem vinna samantektarskýrslurnar.
Til að tryggja samræmda yfirferð og miðlun vísinda um áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga í íslensku samhengi hefur nefndin lagt til að starfræktir verði þrír vinnuhópar að fyrirmynd vinnuhópa IPCC. Vinnuhóparnir sinna samantekt á stöðu þekkingar á: (1) eðlisvísindalegum grunni loftslagsbreytinga, (2) áhrifum, aðlögun og viðkvæmni samfélagsins og vistkerfa og (3) mótvægisaðgerðum og kolefnisbindingu. Markmið vinnuhópanna verði að safna saman, greina og miðla stöðu vísinda um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi og leggja þannig grunn að stefnumótun, áhættumati og aðlögun. Hóparnir skuli byggja á nýjustu gögnum og rannsóknum og tryggja framsetningu sem styður við ákvörðunartöku, stefnumótun og forgangsröðun aðgerða á landsvísu og hjá sveitarfélögum. Miðað er við að vinnan fari fram í nánu samstarfi við landsnefnd um vísindastarf og með stuðningi frá skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar. Hver vinnuhópur skilar heildstæðri skýrslu og tekur þátt í rýni skýrslna IPCC, með áherslu á íslenskt samhengi.
Verkefnið miðar að því að skapa vettvang til að styðja við þróun og innleiðingu skilvirkra, samhæfðra og samræmdra viðbragðsáætlana ríkis, sveitarfélaga og stofnana á þeirra vegum og fyrirtækja sem reka mikilvæga innviði sem stuðla að markvissum viðbrögðum þegar hamfarir verða.
Verkefnið mun stuðla að aukinni samvinnu og skilvirkni í almannavarnaástandi, með áherslu á að vernda líf, umhverfi og eignir.
Sjálfbærnistofnun HÍ ynni að því að styðja við vísindamiðlun til almennings og innan háskólasamfélagsins með samstarfi allra háskóla á landinu, styddi samstarf og samtal ólíkra aðila og verkefna á sviði aðlögunar loftslagsbreytinga og, sem hluti af því, mótaði tengslanet doktorsnema og nýdoktora á fjölbreyttum fagsviðum sem vinna rannsóknir á sviði loftslagsmála og aðlögunar loftslagsbreytinga. Styrkt verði samstarf við stofnanir, s.s. Veðurstofu Íslands og Umhverfis- og orkustofnun. Skoðað verði að stofna þverfræðilegt loftslagssetur.
Helstu verkefni væru því að efla fræðslu, miðlun og samstarf um aðlögun að loftslagsbreytingum innan háskólasamfélagsins og leiða saman ólík fræðasvið. Markmiðið með því væri að styrkja vísindalega þekkingu og miðlun hennar til stjórnvalda, almennings og hagaðila ásamt því að efla þverfaglegt samstarf um rannsóknir. Með því að tryggja samstarf og tengslamyndun mætti auka þann slagkraft sem þegar er til staðar og nýta þannig fjármuni, mannauð og þekkingu betur.
Skapandi og lifandi fræðsla til almennings, og sérstaklega barna, um áhrif loftslagsbreytinga í gegnum faglegt safnastarf. Söfn eru lifandi vettvangur til samfélagslegs samtals um söguna, nútíðina og framtíðina.
Söfn á borð við Náttúruminjasafn Íslands fræða almenning um íslenska náttúru og nauðsynlegt er að þau fjalli einnig um áhrif loftslagsbreytinga. Aukin þekking almennings um áhrif loftslagsbreytinga er til þess fallin að breyta viðhorfum og athöfnum fólks í þá átt að stuðla að umhverfisvernd og sjálfbærni.
Markmið þessa verkefnis er að auka getu og bolmagn íslenskra sveitarfélaga til að taka ákvarðanir um og framkvæma aðlögun að loftslagsbreytingum.
Þetta verður gert með því að auka magn, fjölbreytni og aðgengi að fræðsluefni, leiðbeiningum, sniðmátum og öðru gagnlegu efni um aðlögun að loftslagsbreytingum í samhengi íslenskra sveitarfélaga.
Aðgerðin felur í sér samstarf og samtal við sveitarfélög um mikilvægi náttúrumiðaðra lausna til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og sem lið í aðlögun að loftslagsbreytingum. Einnig felur hún í sér að greina hvernig breyta megi landnotkun bæði til að vinna á móti loftslagsbreytingum og til aðlögunar að þeim. Þannig verður stuðlað að upplýstri ákvarðanatöku og stefnumótun á sviði aðlögunar vegna loftslagsbreytinga í skipulagsmálum.
Í markmiðum laga um skóga og skógrækt kemur fram að skógrækt skuli stuðla að verndun jarðvegs og draga úr hugsanlegu tjóni vegna náttúruvár. Í þessu samhengi hefur t.d. talsverð vinna tengd eldvörnum í skógum farið fram og fræðsluefni verið gert aðgengilegt. Í markmiðum laga um landgræðslu kemur fram að endurheimt og uppbygging vistkerfa á landi skuli auka viðnámsþrótt og þanþol vistkerfa gagnvart náttúrulegum áföllum og náttúruvá. Unnið er að gerð svæðis- og landshlutaáætlana fyrir landgræðslu og skógrækt og þurfa þær áætlanir að miða að ofangreindum markmiðum og nýtast inn í vinnu við skipulagsáætlanir sveitarfélaga. Aðgerðin hefur tengsl við önnur stefnuskjöl og lög, t.a.m. Aðgerðaáætlun byggðaáætlunar 2022–2026 (aðgerð C.11) , Aðgerðaáætlun og stefna Land og líf, Lög um landgræðslu nr. 155/2018, Lög um skóga og skógrækt nr. 33/2019 og Landsskipulagsstefnu 2024–2038.
Að útbúa leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um leiðir til aðlögunar að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð. Styrkja viðnámsþrótt sveitarfélaga og getu þeirra til aðlögunar að loftslagsbreytingum með því að þróa leiðbeiningar sem nýtast í skipulagsgerð, með áherslu á samfélagslegt réttlæti og félagslega innviði.
Mikilvægt er að sveitarfélög taki mið að áhrifum loftslagsbreytinga við ákvarðanir um nýtingu lands og þróun uppbyggingar í hinu byggða umhverfi. Til þess er mikilvægt að þau hafi aðgang að leiðbeiningum um skipulagsgerð sem gerir þeim kleift að búa sig undir- og aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga. Leiðbeiningar um aðlögun að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð verða unnar á grundvelli vinnu verkefnis í stefnumótandi byggðaáætlun þar sem fimm sveitarfélög taka þátt í verkefni um aðlögun íslenskra sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga. Við gerð leiðbeininganna verður horft til stöðu ólíkra hópa innan sveitarfélaganna, sérstaklega viðkvæmra hópa, og tryggja með þeim hætti að tekið sé mið af stöðu þeirra þegar litið er til aðlögunar að loftslagsbreytingum við gerð skipulagsáætlana.
Að útbúa leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um leiðir til aðlögunar að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð. Styrkja viðnámsþrótt sveitarfélaga og getu þeirra til aðlögunar að loftslagsbreytingum með því að þróa leiðbeiningar sem nýtast í skipulagsgerð, með áherslu á samfélagslegt réttlæti og félagslega innviði.
Mikilvægt er að sveitarfélög taki mið af áhrifum loftslagsbreytinga við ákvarðanir um nýtingu lands og þróun uppbyggingar í hinu byggða umhverfi. Til þess er mikilvægt að þau hafi aðgang að leiðbeiningum um skipulagsgerð sem gerir þeim kleift að búa sig undir og aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga. Leiðbeiningar um aðlögun að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð verða unnar á grundvelli vinnu verkefnis í stefnumótandi byggðaáætlun þar sem fimm sveitarfélög taka þátt í verkefni um aðlögun íslenskra sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga. Við gerð leiðbeininganna verður horft til stöðu ólíkra hópa innan sveitarfélaganna, sérstaklega viðkvæmra hópa, og tryggja með þeim hætti að tekið sé mið af stöðu þeirra þegar litið er til aðlögunar að loftslagsbreytingum við gerð skipulagsáætlana.
Síðustu ár hefur Byggðastofnun leitt aðgerð C.10 á aðgerðaáætlun byggðaáætlunar 2022–2026 í samstarfi við Veðurstofu Íslands, Skipulagsstofnun og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
Þessi aðgerð byggir á aðgerð C.10 í byggðaáætlun og er markmiðið að auka getu og bolmagn íslenskra sveitarfélaga til að móta staðbundnar aðgerðir og áætlanir til aðlögunar að áhrifum loftslagsbreytinga. Þetta verður gert með því að taka saman og meta fyrri reynslu af áhættu- og viðkvæmnimatsgerð íslenskra sveitarfélaga og hanna leiðbeiningar og sniðmát, sem nýtt verða til þjálfunar innan sveitarfélaga í framhaldinu.
Markmið þessa verkefnis er að framkvæma vandað, upplýst og aðgengilegt samráð með íbúum sveitarfélaga (og öðrum hagaðilum) til að skapa umræður og draga fram upplýsingar í tengslum við áhættu- og viðkvæmnimat vegna loftslagsbreytinga.
Jákvæð samlegðaráhrif þessarar aðgerðar eru m.a. aukin geta sveitarfélaga til að framkvæma vandaða íbúaþátttöku og aukin vitund íbúa um áhrif loftslagsbreytinga, mikilvægi aðlögunar að loftslagsbreytingum og þau viðbragðsúrræði sem í boði eru.
Sjóður um kerfisbundnar veðurathuganir, Systematic Observations Financing Facility (SOFF), er samstarf þriggja stofnana Sameinuðu þjóðanna (Alþjóðaveðurfræðistofnunin, Þróunaráætlun SÞ og Umhverfisstofnun SÞ) með þátttöku aðildarríkja og alþjóðlegra fjármálastofnana.
Sjóðurinn hefur að markmiði að efla getu í fátækustu ríkjunum til að fylgjast með, spá fyrir um og meta þörf þeirra, til að sinna veðurathugunum. Þá er sjóðnum ætlað að styðja við öflun og greiningu á betri veður- og loftslagsgögnum þar sem athuganir eru takmarkaðar, sem stuðlar að nákvæmari spá á heimsvísu. Þannig er betur hægt að bregðast við náttúruhamförum og aðlögun að loftslagsbreytingum.
Aðlögunarsjóðurinn (e. Adaptation Fund) fjármagnar verkefni í þróunarríkjunum sem er ætlað að styðja við aðlögun þeirra að loftslagsbreytingum, styrkja innviði og stuðla að sjálfbærri þróun í samræmi við Heimsmarkmið SÞ.
Verkefni á vegum sjóðsins lúta m.a. að því að bæta viðbúnað gegn náttúruhamförum, styðja við sjálfbæra nýtingu og landgræðslu, draga úr vatnsskorti, efla matvælaöryggi og laga landbúnað að breytingum á loftslagi og tryggja lífsviðurværi í samfélögum sem eru viðkvæm fyrir loftslagsáhrifum. Samstarf Íslands við Aðlögunarsjóðinn er í formi árlegra fjárhagslegra framlaga, virkrar þátttöku og eftirfylgni með starfi sjóðsins.
Norræni þróunarsjóðurinn var stofnaður með samkomulagi Norðurlandanna árið 1988. Sjóðurinn styður við þróunarríki með verkefnum á sviði loftslags- og þróunarmála og styrkir samtímis leiðtogahlutverk Norðurlandanna á sviðinu. Veittir eru styrkir, lán og hlutafé með það að leiðarljósi að bregðast hratt við með viðeigandi leiðum og aðferðum, í samræmi við aðstæður.
Sjóðurinn styður fyrst og fremst við byrjunarstig verkefna og veitir hvatafjármögnun með áherslu á fátækustu þróunarríkin og smáeyþróunarríki, auk sérstakrar áherslu á viðkvæma samfélagshópa, s.s. konur og stúlkur. Þá er sjóðnum ætlað að tengja saman ólíka fjárfesta og hvetja til aðkomu bæði einkafjármagns og opinbers. Samstarf Íslands við norræna þróunarsjóðinn er í formi árlegra fjárhagslegra framlaga og stjórnarsetu. Þá er stutt sérstaklega við EEP Africa (e. The Energy and Environment Partnership Trust Fund), sem starfar undir sjóðnum. EEP Africa veitir hvatafjármögnun til verkefna í 17 ríkjum í sunnan- og austanverðri Afríku, með áherslu á hreina orku. Starfsemi sjóðsins er ætlað að stuðla að markmiðum Parísarsamkomulagsins.