Í bráðabirgða viðkvæmni- og áhættumati Íslands voru sérstaklega teknir til skoðunar fjórir geirar; sjávarútvegur, landbúnaður, ferðaþjónusta og vátrygginga- og fjármálastarfsemi.
Í viðkvæmni- og áhættumati er bent á mikilvægi frekari rannsókna, greininga og vöktunar á áhrifum loftslagsbreytinga á mismunandi geira samfélagsins. Einnig sé vöntun á þverlægum áherslum þegar kemur að rannsóknum, miðlun og stjórnsýslu. Slíkt auðveldar skilgreiningu á lykiláhættum Íslands, hvaða geirar samfélagsins standa höllustum fæti og skapar grundvöll til forgangsröðunar aðlögunaraðgerða.
Hlýnun og súrnun sjávar veldur breytingum á útbreiðslu og stofnstærð nytjategunda og getur haft áhrif á heildarafla og aflasamsetningu.
Í hafinu í kringum Ísland hefur hækkandi hiti þegar leitt til breytinga á útbreiðslu margra botnfisktegunda. Tegundir, sem hafa verið við nyrðri mörk útbreiðslu sinnar á Íslandsmiðum og fundist að mestu í hlýja sjónum sunnan og vestan við landið, hafa stækkað útbreiðslusvæði sitt í norðaustur. Á sama tíma hefur stofnstærð og útbreiðsla kaldsjávartegunda minnkað.
Áhrif loftslagsbreytinga á fiskeldi geta t.d. verið staðbundnar breytingar á vaxtarhraða eldistegunda, nýir sjúkdómar og sníkjudýr, breytt afkastageta svæða, áhrif á bæði aðfanga- og virðiskeðju, einkum þegar kemur að fóðurframleiðslu, og áhrif veðuröfga á innviði.
Enn skortir verulega upp á rannsóknir og greiningar á umfangi áhrifa loftslagsbreytinga á sjávarútveg. Þar að auki liggja hvorki fyrir upplýsingar um viðkvæmni og aðlögunarhæfni sjávarútvegarins né gögn um möguleg framtíðaráhrif loftslagsbreytinga á sjávarútveg og fiskeldi. Þó má búast við áframhaldandi loftslagstengdum áhrifum á sjávarútveg og fiskeldi sem gerir atvinnugreinina berskjaldaða.
Ræktun á landi hefur orðið fyrir áhrifum loftslagsbreytinga á ákveðnum svæðum. Sums staðar hafa þurrkar dregið úr uppskeru, annars staðar hafa hefur aftakaúrkoma og flóð leitt til uppskerubrests auk þess sem frost- og þýðukaflar hafa haft neikvæð áhrif á stöku stað.
Loftslagsbreytingar munu áfram hafa áhrif á ræktun nytjaplantna á Íslandi. Hlýnandi loftslag getur bætt ræktunarskilyrði og leitt til aukinnar framleiðni í landbúnaði og skógrækt. Aftur á móti getur breytt veðurfar og frekari útbreiðsla sjúkdóma og óværu falið í sér áskorarnir. Loftslagstengdir atburðir annars staðar í heiminum geta haft veruleg áhrif á íslenskan landbúnað hafi þeir í för með sér röskun á innflutningi kjarnafóðurs. Þetta á meðal annars við um nautgripa-, svína og kjúklingarækt. Loftslagsbreytingar munu aftur á móti hafa lítil bein áhrif á hefðbundið dýrahald.
Ekki liggja fyrir gögn eða rannsóknir á viðkvæmni og aðlögunargetu landbúnaðar á Íslandi.
Ferðaþjónustan á Íslandi hefur þegar að einhverju leiti orðið fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, þó áhrifin séu mismikil á milli svæða. Mest áberandi breytingarnar tengjast hopun jökla og aukinnar tíðni og umfangs veðuröfga sem hafa haft áhrif á öryggi ferðamanna.
Náttúruváratburðir hafa einnig haft staðbundin áhrif á innviði og mannvirki sem ferðamenn nýta. Íslensk ferðaþjónusta hefur þegar hafið aðlögunaraðgerðir vegna loftslagsbreytinga og aukinnar eftirspurnar eftir vistvænni ferðaþjónustu.
Búast má við við að ferðalög til norðlægra landa komi til með að aukast þó aðgerðir í loftslagsmálum og viðhorf til langra flugferðalaga geti dregið úr eftirspurn. Loftslagsbreytingar hafa í för með sér ýmsar áskoranir fyrir ferðaþjónustu á Íslandi til framtíðar. Jöklaferðamennska er sérstaklega viðkvæm gagnvart loftslagsbreytingum vegna hopunar jökla og breytts umhverfis. Sjávartengd ferðaþjónusta, eins og hvalaskoðun, getur orðið fyrir áhrifum vegna tilfærslu tegunda í kjölfar hlýnunar sjávar. Árstíðabundnar breytingar geta valdið því að vetrartengd ferðaþjónusta eigi undir högg að sækja á meðan fjöldi ferðamanna gæti aukist á sumrin.
Ekki liggja fyrir gögn eða rannsóknir á viðkvæmni og aðlögunargetu ferðaþjónustu á Íslandi.
Vátrygginga- og efnahagsstarfsemi á Íslandi hefur þegar orðið fyrir áhrifum loftslagsbreytinga vegna loftslagstengdra atburða. Loftslagstengd veðurfarstjón hafa haft áhrif á rekstur vátryggingafélaga, þar með talið Náttúruhamfaratrygginga Íslands, þar sem slíkir atburðir valda persónu- og eignatjóni.
Búist má við að í framtíðinni muni tíðni og umfang tjóna aukast og endurkomutími atburða styttast með tilheyrandi áhrifum á vátryggingastarfsemi. Loftslagstengdir atburðir annars staðar í heiminum geta einnig haft áhrif á rekstur vátryggingafélaga innanlands vegna endurtryggingasamninga við erlend vátryggingafélög.
Loftslagsbreytingar tengjast umboði og hlutverki Seðlabanka Íslands, s.s. í samhengi fjármálastöðugleika, fjármálaeftirlits og peningaeftirlits. Loftslagsáhætta er vaxandi og mun hafa áhrif á verðlag, fjármálastöðugleika og öryggi fjármálakerfisins.
Loftslagsáhætta almennrar bankastarfsemi felur í sér aukna fjárhagslega óvissu, áhættu og aukinn kostnað tengdum fjárfestingum eða útlánum. Greiningargeta banka á þessum áhrifum er þó fremur skammt á veg komin.
Í dag er vátrygginga- og fjármálageirinn nokkuð vel í stakk búinn til þess að takast á við tjón og áhættustýring dregur úr áhættu. Þó má búast við því að loftslagsbreytingar komi til með að auka viðkvæmni geirans með auknum áhættum í framtíðinni.
Ekki liggja fyrir gögn eða rannsóknir á viðkvæmni og aðlögunargetu vátrygginga- og fjármálastarfsemi á Íslandi.