Aðgerðir í áherslu sýna þau verkefni sem eru sett í forgang og hafa mestu áhrif á framgang flokksins.
Aðgerðirnar hér snerta flokkinn og sýna tengsl þeirra við verkefnaskipan sviðsins.
Aðlögunaráætlun er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn loftslagsaðgerðar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.


Markmið verkefnisins er að styrkja viðnámsþrótt samfélagsins vegna skriðu- og krapaflóðahættu og auka þar með öryggi landsmanna og ferðamanna og draga úr eigna- og rekstrartjóni samfélagsins. Þetta fæst með markvissum rannsóknum, kortlagningu og gerð hættumats sem stuðlar að skynsamlegu skipulagi og landnýtingu, og einnig með svæðisbundnum skriðu- og krapaflóðaspám auk viðvarana sem byggir m.a. á öflugri mælitækni og eftirliti.
Loftslagsbreytingar geta valdið aukinni tíðni ofanflóða, einkum skriðufalla og krapaflóða, á Íslandi og þar með aukið tjón af þeirra völdum. Styrkja þarf viðnámsþrótt samfélagsins til þess að takast á við þessa vá með uppbyggingu varna og eflingu hættumats og vöktunar. Markvissar rannsóknir, kortlagning og gerð hættumats stuðla að skynsamlegu skipulagi og landnýtingu og hættumat er einnig grundvöllur ofanflóðavarna og vöktunar. Vöktun svæða og eftirlit með mælingum eru mikilvæg gögn fyrir ofanflóðaspár og útgáfu viðvarana, sem og ákvarðanatöku um rýmingar húsnæðis, lokanir vega eða aðrar aðgerðir.

Aðalskref verkefnisins felst í því að afla, greina og nýta gögn sem sérsniðin eru að íslenskum aðstæðum til að þróa samþætta nálgun í stjórn og viðbrögðum við gróðureldum.
Gróðureldar eiga sér gjarnan stað á þurrkatímabili vorsins á Íslandi, einkum í apríl, maí og júní. Frá árinu 2006 hafa að minnsta kosti 7695 hektarar af landvistkerfum Íslands, aðallega graslendi, orðið fyrir áhrifum gróðurelda. Stærsti skráði gróðureldurinn á Íslandi varð á Mýrum árið 2006, þar sem 6700 hektarar af mýrarsvæði brunnu (NÍ, 2025). Með breytingum á landnotkun, auknum gróðri og áframhaldandi hlýnun vex hættan á gróðureldum á Íslandi. Þrátt fyrir áhuga á að draga úr líkum á gróðureldum á landsvísu er þekking á íslenskum aðstæðum enn afar takmörkuð. Núverandi viðbragðsaðgerðir hérlendis miðast að mestu við fyrirmyndir frá öðrum löndum og hafa ekki verið sérsniðnar að íslenskum skilyrðum. Því er nauðsynlegt að byggja upp staðbundna þekkingu til að skilja betur, draga úr áhættu, undirbúa viðbrögð og laga okkur að framtíðarhættu af völdum gróðurelda á Íslandi.
• Yfirlit og greining
• Áhættuminnkun
• Upplýsingar og leiðbeiningar

Aðgerðin miðar að því að innleiða framkvæmd lýðheilsumats (Health (in) Impact Assessment) á lagafrumvörpum og í stefnumótun stjórnvalda, eftir því sem við á stakt mat eða sem liður í öðru áhrifamati. Þróaðir verði gátlistar, fræðsla og annað sem þarf til að styðja markvissa framkvæmd lýðheilsumats.
Heilsa og líðan fólks er mikilvæg forsenda seiglu einstaklinga og samfélaga. Heilsa og líðan ræðst af samspili einstaklinga við sitt nánasta umhverfi og aðstæður, þ.m.t. félags- og efnahagslegt, stafrænt, byggt og náttúrulegt umhverfi. Ákvarðanir á öllum málefnasviðum og stigum samfélagsins geta því haft áhrif á heilsu og líðan almennt og/eða ýmissa undirhópa (aldur, kyn, félags- og efnahagsleg staða o.fl.). Megintilgangur lýðheilsumats er að hámarka möguleg jákvæð áhrif og lágmarka möguleg neikvæð áhrif að teknu tilliti til áhrifa á heilsu og líðan fólks. Til að styðja markvissa innleiðingu lýðheilsumats, stakt mat eða sem liður í öðru áhrifamati, er byggt á þeim grunni sem þegar er til staðar og unnið áfram í samræmi við bestu þekkingu og reynslu hérlendis og á alþjóðavísu.

Aðgerðin miðar að því að fjölga lýðheilsuvísum og endurskoða gátlista heilsueflandi starfs til að auka hagnýtingu m.t.t. aðlögunaraðgerða í loftslagsmálum. Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar á hverjum tíma og stöðu ýmissa áhrifaþátta heilbrigðis. Þeim er ætlað að nýtast stjórnvöldum og öðrum til að greina stöðuna, finna styrkleika og áskoranir þannig að hægt sé að vinna með markvissum hætti að því að efla heilsu og líðan allra. Vísarnir eru gefnir út árlega á landsvísu, fyrir umdæmi og fjölmennustu sveitarfélögin í formi einblöðunga og í mælaborðum.
Aðlögunarþarfir geta verið ólíkar eftir svæðum og því er mikilvægt að mögulegt sé að greina viðeigandi vísa fyrir eins afmörkuð svæði og gögnin leyfa hverju sinni, líkt og er gert m.a. í gegnum Loftslagsatlas Íslands. Með því að efla gagnaöflun er mögulegt að greina fleiri vísa fyrir fleiri sveitarfélög og/eða greina hvern vísi nánar fyrir undirhópa (s.s. aldur, kyn, félags- og efnahagsleg staða). Þannig geta þeir nýst enn betur, m.a. við viðkvæmni- og áhættumat hverju sinni og til að greina þarfir viðkvæmra og jaðarsettra hópa svo hægt sé að mæta þeim betur í aðlögunaraðgerðum. Auk hefðbundinna lýðheilsuvísa nýtast gátlistar Heilsueflandi samfélags (HSAM), og vefkerfið sem hýsir þá, til að meta stöðu og framvindu umhverfis og aðstæðna sem ætlað er að stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum (s.s. virkum ferðamáta og hollu mataræði), heilsu og vellíðan allra. Samhliða því að fjölga hefðbundnum lýðheilsuvísum sem taka mið af loftslagsmálum er því gagnlegt að rýna gátlista HSAM með loftslagsgleraugum og einfalda notkun þeirra fyrir sem flest sveitarfélög. Áhersla verður á samlegðaráhrif í notkun listanna og notkun „Place Standard Tool“.

Þróa og innleiða samræmda aðferðafræði til að meta samfélagsleg áhrif aðlögunaraðgerða á mismunandi hópa og landsvæði. Markmiðið er að tryggja að aðlögunaraðgerðir stuðli að jafnrétti og réttlátri aðlögun.
Megináhersla verður lögð á að greina jákvæð og neikvæð áhrif aðgerða á lífsgæði, atvinnu og heilbrigði og hvernig þau dreifast eftir kynjum, aldurshópum og byggðarlögum.

Greining á viðkvæmni og loftslagsáhættu mismunandi samfélagshópa, með áherslu á þá sem standa höllum fæti gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga. Markmiðið er að tryggja að aðlögunaraðgerðir og stefnumótun aðlögunar taki mið af félagslegu réttlæti, lýðheilsu og jafnrétti.

Ný tilskipun Evrópusambandsins um hreinsun fráveituvatns í þéttbýli mun krefjast verulegra fjárfestinga hér á landi á næstu árum. Tilskipunin felur í sér auknar kröfur um hreinsun á fráveituvatni, meðhöndlun seyru og bætta hreinsun ofanvatns, auk þess að draga úr losun á yfirfalli og tryggja að bæði skólp og ofanvatn sé hreinsað áður en það berst í viðtaka. Einnig eru sett fram ákvæði um gerð samþættra áætlana um meðhöndlun frárennslis (hreinsun skólps og ofanvatns) í þéttbýli, fyrir þéttbýli sem losa yfir 100.000 persónueiningar af skólpi
Sú stærðarafmörkun á í dag við um höfuðborgarsvæðið. Auk þess er krafist greiningar á þörf fyrir slíkar áætlanir fyrir þéttbýli sem losa 10.000–100.000 persónueiningar, en þau þéttbýli eru níu talsins á Íslandi. Á sama tíma eykst hætta á flóðum og yfirfullum fráveitukerfum vegna hækkandi sjávarstöðu og aukinnar úrkomuákefðar. Loftslagsbreytingar hafa þegar áhrif á fráveitukerfi og stýringu ofanvatns í mörgum sveitarfélögum, þar sem gömul kerfi standast ekki núverandi áskoranir. Þörf er á samræmdri greiningu á áhrifum loftslagsbreytinga á fráveitukerfi þéttbýla til að draga úr hættu á flóðum, mengun og skemmdum á innviðum.

Náttúrumiðaðar lausnir í fráveitu geta dregið úr álagi á fráveitukerfi, aukið vatnsheldni, bætt þjónustu vistkerfa í þéttbýli og aukið lífsgæði íbúa. Aðgerðin miðar að því að vinna að stefnumótun og innleiðingu hennar.
Aðgerðin hefur ríka tengingu við vatnaáætlun og Icewater-verkefnið um innleiðingu hennar sem leggur áherslu á náttúrumiðaðar lausnir og þar eru mörg samstarfsverkefni með sveitarfélögum og hagaðilum í þróun. Mikilvægt er að tryggja samhæfingu við þá vinnu og önnur sambærileg verkefni, m.a. við skipulags- og byggingaryfirvöld, svo að stefnumótun og reglur verði byggðar á bestu þekkingu og reynslu.

Loftslagsatlas Íslands er myndræn vefsjá sem veitir yfirsýn yfir líkleg áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi. Hann byggir á niðurkvarðaðri úrvinnslu sviðsmynda IPCC og nær yfir bæði land og hafsvæði innan íslenskrar efnahagslögsögu. Atlasinn er formlegur farvegur til að miðla viðurkenndum loftslagssviðsmyndum og styðja við stefnumótun, aðlögun og fræðslu.
Á vegum vísindanefndar um loftslagsbreytingar og Veðurstofunnar hefur verið unnið úr hnattrænum reikniniðurstöðum loftslagslíkana sem byggja á losunarsviðsmyndum IPCC. Til að tryggja að framreikningar séu byggðir á nýjustu þekkingu þarf að uppfæra úrvinnslu reglulega eftir því sem ný gögn verða aðgengileg. Þróa þarf aðferðir og verkfæri til að framkvæma slíka niðurkvörðun hratt og örugglega. Jafnframt er mikilvægt að þróa og miðla frávikasviðsmyndum, s.s. vegna samdráttar eða mögulegs hruns AMOC. Niðurstöðum úr sviðsmyndagreiningum verður miðlað í gegnum Loftslagsatlas Íslands sem og í skýrslum og greinargerðum. Markmiðið er að afleiðingar helstu frávika frá líklegri þróun séu vel skjalfestar og gagnlegt efni aðgengilegt hagaðilum. Fyrsta útgáfa atlassins var birt í apríl 2025 og nýjar útgáfur munu bæta við fleiri loftslagsvísum og sviðsmyndum, þróa nýja virkni og tengjast öðrum gagnagáttum, s.s. varðandi náttúruvá og áhættu.

Tilraunaverkefni um gagnagátt vegna vatns og sjávarflóða hófst árið 2021 í kjölfar útgáfu Loftslagsþolins Íslands. Í næsta áfanga verkefnisins, 2025–2029, er lagt upp með að þróun gagnagáttarinnar verði sjálfstætt verkefni og eitt af þeim verkefnum sem listað er upp í landsáætlun aðgerða vegna loftslagsbreytinga. Verkefni tengd náttúruvá eins og bæði vatnavá og sjávarflóðavá verði skilgreind í sértækum verkefnum.
Þegar innleiðingu gagnagáttarinnar verður lokið og fyrirliggjandi gögn yfirfarin og gerð aðgengileg verður unnið að því að koma inn upplýsingum um yfirfarin gögn fyrir fleiri vatnasvið og frá sjávarborðsmælum. Gagnagáttin verður jafnframt þróuð áfram til þess að birta fleiri gögn til viðbótar við vatnsflóð og sjávarflóð. Notendakannanir verða framkvæmdar og kannað hvort og þá hvaða úrbætur þarf að ráðast í til þess að gagnagáttin virki sem skyldi fyrir hagaðila og nýtist við ákvarðanatöku aðgerða til þess að draga úr og laga sig að áhrifum loftslagsbreytinga.

Markmið þessa verkefnis er að auka getu og bolmagn íslenskra sveitarfélaga til að taka ákvarðanir um og framkvæma aðlögun að loftslagsbreytingum.
Þetta verður gert með því að auka magn, fjölbreytni og aðgengi að fræðsluefni, leiðbeiningum, sniðmátum og öðru gagnlegu efni um aðlögun að loftslagsbreytingum í samhengi íslenskra sveitarfélaga.

Aðgerðin felur í sér samstarf og samtal við sveitarfélög um mikilvægi náttúrumiðaðra lausna til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og sem lið í aðlögun að loftslagsbreytingum. Einnig felur hún í sér að greina hvernig breyta megi landnotkun bæði til að vinna á móti loftslagsbreytingum og til aðlögunar að þeim. Þannig verður stuðlað að upplýstri ákvarðanatöku og stefnumótun á sviði aðlögunar vegna loftslagsbreytinga í skipulagsmálum.
Í markmiðum laga um skóga og skógrækt kemur fram að skógrækt skuli stuðla að verndun jarðvegs og draga úr hugsanlegu tjóni vegna náttúruvár. Í þessu samhengi hefur t.d. talsverð vinna tengd eldvörnum í skógum farið fram og fræðsluefni verið gert aðgengilegt. Í markmiðum laga um landgræðslu kemur fram að endurheimt og uppbygging vistkerfa á landi skuli auka viðnámsþrótt og þanþol vistkerfa gagnvart náttúrulegum áföllum og náttúruvá. Unnið er að gerð svæðis- og landshlutaáætlana fyrir landgræðslu og skógrækt og þurfa þær áætlanir að miða að ofangreindum markmiðum og nýtast inn í vinnu við skipulagsáætlanir sveitarfélaga. Aðgerðin hefur tengsl við önnur stefnuskjöl og lög, t.a.m. Aðgerðaáætlun byggðaáætlunar 2022–2026 (aðgerð C.11) , Aðgerðaáætlun og stefna Land og líf, Lög um landgræðslu nr. 155/2018, Lög um skóga og skógrækt nr. 33/2019 og Landsskipulagsstefnu 2024–2038.

Að útbúa leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um leiðir til aðlögunar að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð. Styrkja viðnámsþrótt sveitarfélaga og getu þeirra til aðlögunar að loftslagsbreytingum með því að þróa leiðbeiningar sem nýtast í skipulagsgerð, með áherslu á samfélagslegt réttlæti og félagslega innviði.
Mikilvægt er að sveitarfélög taki mið að áhrifum loftslagsbreytinga við ákvarðanir um nýtingu lands og þróun uppbyggingar í hinu byggða umhverfi. Til þess er mikilvægt að þau hafi aðgang að leiðbeiningum um skipulagsgerð sem gerir þeim kleift að búa sig undir- og aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga. Leiðbeiningar um aðlögun að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð verða unnar á grundvelli vinnu verkefnis í stefnumótandi byggðaáætlun þar sem fimm sveitarfélög taka þátt í verkefni um aðlögun íslenskra sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga. Við gerð leiðbeininganna verður horft til stöðu ólíkra hópa innan sveitarfélaganna, sérstaklega viðkvæmra hópa, og tryggja með þeim hætti að tekið sé mið af stöðu þeirra þegar litið er til aðlögunar að loftslagsbreytingum við gerð skipulagsáætlana.

Að útbúa leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um leiðir til aðlögunar að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð. Styrkja viðnámsþrótt sveitarfélaga og getu þeirra til aðlögunar að loftslagsbreytingum með því að þróa leiðbeiningar sem nýtast í skipulagsgerð, með áherslu á samfélagslegt réttlæti og félagslega innviði.
Mikilvægt er að sveitarfélög taki mið af áhrifum loftslagsbreytinga við ákvarðanir um nýtingu lands og þróun uppbyggingar í hinu byggða umhverfi. Til þess er mikilvægt að þau hafi aðgang að leiðbeiningum um skipulagsgerð sem gerir þeim kleift að búa sig undir og aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga. Leiðbeiningar um aðlögun að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð verða unnar á grundvelli vinnu verkefnis í stefnumótandi byggðaáætlun þar sem fimm sveitarfélög taka þátt í verkefni um aðlögun íslenskra sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga. Við gerð leiðbeininganna verður horft til stöðu ólíkra hópa innan sveitarfélaganna, sérstaklega viðkvæmra hópa, og tryggja með þeim hætti að tekið sé mið af stöðu þeirra þegar litið er til aðlögunar að loftslagsbreytingum við gerð skipulagsáætlana.

Síðustu ár hefur Byggðastofnun leitt aðgerð C.10 á aðgerðaáætlun byggðaáætlunar 2022–2026 í samstarfi við Veðurstofu Íslands, Skipulagsstofnun og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
Þessi aðgerð byggir á aðgerð C.10 í byggðaáætlun og er markmiðið að auka getu og bolmagn íslenskra sveitarfélaga til að móta staðbundnar aðgerðir og áætlanir til aðlögunar að áhrifum loftslagsbreytinga. Þetta verður gert með því að taka saman og meta fyrri reynslu af áhættu- og viðkvæmnimatsgerð íslenskra sveitarfélaga og hanna leiðbeiningar og sniðmát, sem nýtt verða til þjálfunar innan sveitarfélaga í framhaldinu.

Markmið þessa verkefnis er að framkvæma vandað, upplýst og aðgengilegt samráð með íbúum sveitarfélaga (og öðrum hagaðilum) til að skapa umræður og draga fram upplýsingar í tengslum við áhættu- og viðkvæmnimat vegna loftslagsbreytinga.
Jákvæð samlegðaráhrif þessarar aðgerðar eru m.a. aukin geta sveitarfélaga til að framkvæma vandaða íbúaþátttöku og aukin vitund íbúa um áhrif loftslagsbreytinga, mikilvægi aðlögunar að loftslagsbreytingum og þau viðbragðsúrræði sem í boði eru.