Aðgerðir í áherslu sýna þau verkefni sem eru sett í forgang og hafa mestu áhrif á framgang flokksins.
Aðgerðirnar hér snerta flokkinn og sýna tengsl þeirra við verkefnaskipan sviðsins.
Aðlögunaráætlun er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn loftslagsaðgerðar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.


Aðgerðin miðar að því að innleiða framkvæmd lýðheilsumats (Health (in) Impact Assessment) á lagafrumvörpum og í stefnumótun stjórnvalda, eftir því sem við á stakt mat eða sem liður í öðru áhrifamati. Þróaðir verði gátlistar, fræðsla og annað sem þarf til að styðja markvissa framkvæmd lýðheilsumats.
Heilsa og líðan fólks er mikilvæg forsenda seiglu einstaklinga og samfélaga. Heilsa og líðan ræðst af samspili einstaklinga við sitt nánasta umhverfi og aðstæður, þ.m.t. félags- og efnahagslegt, stafrænt, byggt og náttúrulegt umhverfi. Ákvarðanir á öllum málefnasviðum og stigum samfélagsins geta því haft áhrif á heilsu og líðan almennt og/eða ýmissa undirhópa (aldur, kyn, félags- og efnahagsleg staða o.fl.). Megintilgangur lýðheilsumats er að hámarka möguleg jákvæð áhrif og lágmarka möguleg neikvæð áhrif að teknu tilliti til áhrifa á heilsu og líðan fólks. Til að styðja markvissa innleiðingu lýðheilsumats, stakt mat eða sem liður í öðru áhrifamati, er byggt á þeim grunni sem þegar er til staðar og unnið áfram í samræmi við bestu þekkingu og reynslu hérlendis og á alþjóðavísu.

Aðgerðin miðar að því að fjölga lýðheilsuvísum og endurskoða gátlista heilsueflandi starfs til að auka hagnýtingu m.t.t. aðlögunaraðgerða í loftslagsmálum. Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar á hverjum tíma og stöðu ýmissa áhrifaþátta heilbrigðis. Þeim er ætlað að nýtast stjórnvöldum og öðrum til að greina stöðuna, finna styrkleika og áskoranir þannig að hægt sé að vinna með markvissum hætti að því að efla heilsu og líðan allra. Vísarnir eru gefnir út árlega á landsvísu, fyrir umdæmi og fjölmennustu sveitarfélögin í formi einblöðunga og í mælaborðum.
Aðlögunarþarfir geta verið ólíkar eftir svæðum og því er mikilvægt að mögulegt sé að greina viðeigandi vísa fyrir eins afmörkuð svæði og gögnin leyfa hverju sinni, líkt og er gert m.a. í gegnum Loftslagsatlas Íslands. Með því að efla gagnaöflun er mögulegt að greina fleiri vísa fyrir fleiri sveitarfélög og/eða greina hvern vísi nánar fyrir undirhópa (s.s. aldur, kyn, félags- og efnahagsleg staða). Þannig geta þeir nýst enn betur, m.a. við viðkvæmni- og áhættumat hverju sinni og til að greina þarfir viðkvæmra og jaðarsettra hópa svo hægt sé að mæta þeim betur í aðlögunaraðgerðum. Auk hefðbundinna lýðheilsuvísa nýtast gátlistar Heilsueflandi samfélags (HSAM), og vefkerfið sem hýsir þá, til að meta stöðu og framvindu umhverfis og aðstæðna sem ætlað er að stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum (s.s. virkum ferðamáta og hollu mataræði), heilsu og vellíðan allra. Samhliða því að fjölga hefðbundnum lýðheilsuvísum sem taka mið af loftslagsmálum er því gagnlegt að rýna gátlista HSAM með loftslagsgleraugum og einfalda notkun þeirra fyrir sem flest sveitarfélög. Áhersla verður á samlegðaráhrif í notkun listanna og notkun „Place Standard Tool“.

Markmið aðgerðarinnar er að auka þekkingu og getu heilbrigðiskerfisins til að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga og öðrum tengdum heilsufarsógnum yfir landamæri. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru loftslagsbreytingar ein stærsta heilsufarsógnin sem mannkynið stendur frammi fyrir. Þær geta haft mikil áhrif á andlega, líkamlega og félagslega heilsu og líðan fólks með beinum og óbeinum hætti og þá einnig heilbrigðiskerfið. Sem dæmi um helstu ógnir eru afleiðingar af auknum styrk og tíðni veðuröfga (t.d. aurskriður, sjávarflóð, snjóflóð, stormar), smitbærir og ósmitbærir sjúkdómar og fólksflutningar. Reglugerð (ESB) 2022/2371 mælir fyrir um fyrirkomulag og skipulag til að samræma viðbúnað og viðbrögð við alvarlegum heilsuógnum yfir landamæri, þ.m.t. skýrslugerð um forvarnir, viðbúnað og viðbragðsáætlun. Reglugerðin felur Sóttvarnastofnun Evrópu að leggja mat á heilbrigðisviðbúnað landanna m.t.t. fjölda þátta, m.a. stjórnunar í aðgerðum og ástandi sem kalla á virkjun heilbrigðiskerfisins (health emergency management), súnum og öðrum umhverfisógnum, rannsóknargetu, vöktun alvarlegra heilbrigðisógna o.fl.
Áhrif loftslagsbreytinga á heilbrigðiskerfið geta verið umtalsverð vegna beinna og óbeinna áhrifa þeirra á heilsu og líðan fólks og lífsaðstæður hverju sinni (félags-, efnahags- og menningarlegar aðstæður, byggt og náttúrulegt umhverfi). Má í þessu samhengi m.a. nefna náttúruváratburði, s.s. aurskriður, sjávarflóð, snjóflóð auk annarra þátta, s.s. smitsjúkdóma, aukinnar tíðni og alvarleika ofnæmistilfella og öndunarfærasjúkdóma og annarra lýðheilsuógna vegna loftmengunar. Áhrif alvarlegra náttúruváratburða á heilbrigðiskerfið geta verið umtalsverð, t.a.m. fjöldi slasaðra og/eða veikra einstaklinga, áhrif á daglegan rekstur innviða (rafmagnsleysi, skortur á heitu og/eða köldu vatni, netsambandi, rof á samgöngum o.s.frv.) og álag tengt sálfélagslegri þjónustu í kjölfar atburða svo fátt eitt sé nefnt. Mikilvægt er að efla þekkingu heilbrigðisstofnana á mögulegum hættum af völdum loftslagsbreytinga í sínu heilbrigðisumdæmi, auka getu þeirra til þess að búa sig undir og bregðast við alvarlegum atburðum og auka þannig viðnámsþrótt þeirra. Samhliða skyldi vinna sams konar verkefni fyrir heilbrigðiskerfið á landsvísu til að tryggja samræmd viðbrögð á landsvísu og leggja mat á þær loftslagsbreytingar og atburði þeim tengdum sem geta valdið umfangsmiklu álagi á heilbrigðiskerfið. Í aðlögunaraðgerðum sem snúa að heilbrigðiskerfinu sem og öðrum aðlögunaraðgerðum er m.a. mikilvægt að huga að viðkvæmum og jaðarsettum hópum sem eru alla jafna líklegri til að standa hallari fæti gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga.

Þróa og innleiða samræmda aðferðafræði til að meta samfélagsleg áhrif aðlögunaraðgerða á mismunandi hópa og landsvæði. Markmiðið er að tryggja að aðlögunaraðgerðir stuðli að jafnrétti og réttlátri aðlögun.
Megináhersla verður lögð á að greina jákvæð og neikvæð áhrif aðgerða á lífsgæði, atvinnu og heilbrigði og hvernig þau dreifast eftir kynjum, aldurshópum og byggðarlögum.

Greining á viðkvæmni og loftslagsáhættu mismunandi samfélagshópa, með áherslu á þá sem standa höllum fæti gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga. Markmiðið er að tryggja að aðlögunaraðgerðir og stefnumótun aðlögunar taki mið af félagslegu réttlæti, lýðheilsu og jafnrétti.

Loftslagsbreytingar kalla á ör orkuskipti sem fela í sér aukna eftirspurn eftir raforku á næstu árum með áhrifum á dreifingu eftirspurnar. Við langtímaáætlanagerð er unnið að því að mæta þessari auknu eftirspurn sem er tilkomin vegna rafvæðingar samfélags og atvinnulífs í dreifbýli.
Uppbygging flutnings- og dreifikerfisins er skipulögð með áherslu á lágmörkun umhverfisáhrifa, þar á meðal aukinni notkun jarðstrengja og kerfishönnun sem gerir ráð fyrir breytingum í orkunotkun og nýrri tækni í orkugeymslu.