Aðgerðir í áherslu sýna þau verkefni sem eru sett í forgang og hafa mestu áhrif á framgang flokksins.
Aðgerðirnar hér snerta flokkinn og sýna tengsl þeirra við verkefnaskipan sviðsins.
Aðlögunaráætlun er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn loftslagsaðgerðar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.


Safnkostur og menningarverðmæti eru varðveitt í sérhæfðu húsnæði. Mörg safnanna standa hins vegar frammi fyrir því að varðveislurými þeirra er engan veginn til þess fallið að standast álag vegna loftslagsbreytinga, s.s. breytingar í rakastigi, ofsaveður eða flóð.
Þá er í sumum tilfellum um óhentuga staðsetningu að ræða m.t.t. hækkunar sjávarmáls. Ljóst er að bregðast þarf við slíkum breytingum og koma menningararfinum í varanlegt skjól þar sem varðveisla hans er örugg til framtíðar. Markmiðið er að húsnæði, staðsetning og aðstæður tryggi varðveislu menningarverðmæta (aðallega lausamuna) til framtíðar.

Varðveisla torfhúsa getur orðið vettvangur nýsköpunar í byggingartækni og svarað ákalli um sjálfbærari og umhverfisvænni byggingariðnað með notkun á efni úr nærumhverfi. Þessi byggingartækni hefur hlotið mikla athygli í nýsköpun og við hönnun nýrra húsa.
Torfhús eru byggingararfleifð Íslendinga, landið byggðist á þann hátt. Loftslagsbreytingar, þá sérstaklega hærri lofthiti, skemmri frostatíð og aukin úrkoma, hafa gríðarleg áhrif á endingu húsanna og gera varðveislu þeirra umfangsmeiri og vandasamari. Bregðast þarf við þessu ástandi með því að leiða saman nýjustu þekkingu á sviði byggingartækni, handverksþekkingar, loftslagsvísinda og menningararfsfræða um hvernig stuðla megi að sem bestri varðveislu húsanna. Slík varðveisla hefur því þann tvöfalda tilgang að varðveita menningararfinn og byggja brú inn í sjálfbærari framtíð.

Að styrkja rannsóknarinnviði fyrir stafvæðingu á menningararfi. Breytingar á landslagi og landsháttum sem rekja má til loftslagsbreytinga hafa áhrif á menningararf, jafnvel til eyðileggingar. Hluti af viðbrögðum við slíkum aðstæðum er aukin stafvæðing á menningarminjum, -landslagi og -safnkosti
Ljóst er að gera þarf átak í slíkri stafvæðingu og er markmið þessarar aðgerðar að kortleggja nauðsynlegar aðgerðir í þessa veru, forgangsraða og veita viðeigandi stofnunum fjármagn og mannafla til að sinna verkefninu.

Vinna þarf viðkvæmni- og áhættumat vegna menningarminja á Íslandi. Áhrif loftslagsbreytinga ógna fornleifum og byggingararfi á Íslandi. Afla þarf aukinnar þekkingar um áhrif tiltekinna loftslagssviðsmynda á fornleifar og byggingararf í landinu svo unnt sé að bregðast við á réttan hátt.
Greina skal viðkvæmni og áhættu skrásettra minja vegna áhrifa loftslagsbreytinga og bæta verklag við skráningu fornleifa og byggingararfs þannig að tekið sé til loftslagssviðsmynda. Gæta þarf þess að upplýsingar sem safnast við skráningu séu færðar inn í landfræðilegan gagnagrunn og þær settar í samhengi við það hvernig umhverfisþættir geti breyst vegna loftslagsbreytinga. Á þeim grunni er hægt að vinna varðveislumat, forgangsraða og taka upplýstar ákvarðanir um möguleika til þess að aðlaga minjar að þeirri loftslagsáhættu sem finna má á hverjum stað.