Aðgerðir í áherslu sýna þau verkefni sem eru sett í forgang og hafa mestu áhrif á framgang flokksins.
Aðgerðirnar hér snerta flokkinn og sýna tengsl þeirra við verkefnaskipan sviðsins.
Aðlögunaráætlun er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn loftslagsaðgerðar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.


Markmið verkefnisins er að efla aðlögunargetu við loftslagsbreytingar með því að þróa samræmdan gagnagrunn og aðferðafræði um rannsóknir og vöktun á náttúrulegum vistkerfum. Safnað verður saman gögnum, þau stöðluð og birt í aðgengilegri miðlægri gagnaveitu. Unnin verður rannsóknar- og vöktunaráætlun fyrir lykilþætti í íslenskri náttúru sem viðkvæmir eru fyrir loftslagsbreytingum.
Þetta stuðlar að samþættri stefnumótun og eftirliti með áhrifum loftslags á vistkerfi.

Markmið aðgerðarinnar er að auka þekkingu og getu heilbrigðiskerfisins til að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga og öðrum tengdum heilsufarsógnum yfir landamæri. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru loftslagsbreytingar ein stærsta heilsufarsógnin sem mannkynið stendur frammi fyrir. Þær geta haft mikil áhrif á andlega, líkamlega og félagslega heilsu og líðan fólks með beinum og óbeinum hætti og þá einnig heilbrigðiskerfið. Sem dæmi um helstu ógnir eru afleiðingar af auknum styrk og tíðni veðuröfga (t.d. aurskriður, sjávarflóð, snjóflóð, stormar), smitbærir og ósmitbærir sjúkdómar og fólksflutningar. Reglugerð (ESB) 2022/2371 mælir fyrir um fyrirkomulag og skipulag til að samræma viðbúnað og viðbrögð við alvarlegum heilsuógnum yfir landamæri, þ.m.t. skýrslugerð um forvarnir, viðbúnað og viðbragðsáætlun. Reglugerðin felur Sóttvarnastofnun Evrópu að leggja mat á heilbrigðisviðbúnað landanna m.t.t. fjölda þátta, m.a. stjórnunar í aðgerðum og ástandi sem kalla á virkjun heilbrigðiskerfisins (health emergency management), súnum og öðrum umhverfisógnum, rannsóknargetu, vöktun alvarlegra heilbrigðisógna o.fl.
Áhrif loftslagsbreytinga á heilbrigðiskerfið geta verið umtalsverð vegna beinna og óbeinna áhrifa þeirra á heilsu og líðan fólks og lífsaðstæður hverju sinni (félags-, efnahags- og menningarlegar aðstæður, byggt og náttúrulegt umhverfi). Má í þessu samhengi m.a. nefna náttúruváratburði, s.s. aurskriður, sjávarflóð, snjóflóð auk annarra þátta, s.s. smitsjúkdóma, aukinnar tíðni og alvarleika ofnæmistilfella og öndunarfærasjúkdóma og annarra lýðheilsuógna vegna loftmengunar. Áhrif alvarlegra náttúruváratburða á heilbrigðiskerfið geta verið umtalsverð, t.a.m. fjöldi slasaðra og/eða veikra einstaklinga, áhrif á daglegan rekstur innviða (rafmagnsleysi, skortur á heitu og/eða köldu vatni, netsambandi, rof á samgöngum o.s.frv.) og álag tengt sálfélagslegri þjónustu í kjölfar atburða svo fátt eitt sé nefnt. Mikilvægt er að efla þekkingu heilbrigðisstofnana á mögulegum hættum af völdum loftslagsbreytinga í sínu heilbrigðisumdæmi, auka getu þeirra til þess að búa sig undir og bregðast við alvarlegum atburðum og auka þannig viðnámsþrótt þeirra. Samhliða skyldi vinna sams konar verkefni fyrir heilbrigðiskerfið á landsvísu til að tryggja samræmd viðbrögð á landsvísu og leggja mat á þær loftslagsbreytingar og atburði þeim tengdum sem geta valdið umfangsmiklu álagi á heilbrigðiskerfið. Í aðlögunaraðgerðum sem snúa að heilbrigðiskerfinu sem og öðrum aðlögunaraðgerðum er m.a. mikilvægt að huga að viðkvæmum og jaðarsettum hópum sem eru alla jafna líklegri til að standa hallari fæti gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga.

Áhættu- og viðkvæmnimat Íslands ætti að snúa að beinum og óbeinum áhættum vegna loftslagsbreytinga auk þess sem sérstaklega er hugað að kerfislægum áhættum, s.s. áhættum þvert á landamæri og miðað að því að koma auga á tækifærin sem gætu falist í breyttu loftslagi.
Skapa þarf skýran ramma utan um framkvæmd viðkvæmni- og áhættumats Íslands til þess að tryggja að slíkt mat verði heildrænt, taki mið af mismunandi geirum og byggi á samræmdum upplýsingum og aðferðum. Sett verður fram tímalína sem rímar við tímalínu aðlögunaráætlunar Íslands, samræmd aðferðafræði, skilgreiningar og leiðbeiningar fyrir lykilgeira og sveitarfélög. Samhliða því verður lögð áhersla á að setja fram lykiláhættur og skilgreina lykilgeira íslensks samfélags ásamt því að meta hverjir beri ábyrgð á gerð viðkvæmni- og áhættumats hvers málaflokks.

Vegagerðin tekur nú þegar inn áhrif loftslagsbreytinga í hönnun nýrra samgöngumannvirkja, m.a. breytt hönnunarflóð fyrir brýr og sjávarstöðuhækkanir á strandsvæðum. Töluverð óvissa er um staðbundin áhrif loftslagsbreytinga og því mikilvægt að verklag þróist með bættum upplýsingum og aukinni þekkingu.
Sérstök áskorun er samgöngumannvirki sem hönnuð eru til langs tíma, t.d. brýr með 100 ára hönnunarlíftíma, en óvissa um áhrif loftslagsbreytinga eykst því fjær í tíma sem horft er. Nauðsynlegt er að til sé skýrt verklag sem styður við rökstudda ákvarðanatöku um hvort mögulegur viðbótarkostnaður vegna dýrari hönnunar og byggingar mannvirkis skili árangri, skv. kostnaðarhlið. Einnig þarf að fylgjast með og þróa nýjar lausnir í hönnun sem auðvelda viðbragð og breytingar á mannvirkjum ef bregðast þarf við loftslagsáhættu.
· Þróun verklags og gátlista fyrirhönnun samgöngumannvirkja sem taka mið af loftslagsþáttum. Tryggja þarfuppfærslu í takt við bætta þekkingu.
· Þróun verklags m.t.t.kostnaðarhliða, þ.e. mat á óvissu og kostnaði við að bregðast við í hönnunvegna loftslagsbreytinga til móts við möguleg áhrif og líkur á þeim.

Bregðast þarf við mögulegum breytingum í viðhaldi og þjónustu sökum breytinga og aukinna sveiflna í veðurfari.
Búast má t.d. við því að frost- og þíðuferlar verði algengari sem leiða til aukins niðurbrots vega auk breytinga á umfangi vetrarþjónustu, breytingar á úrkomuákefð og flóðum, breytingar á árvegum og breytingar á hviðum og vindafari í tengslum við hörfun jökla. Margar þessara breytinga eru hægfara og hægt að aðlaga verklag og viðbragð á vettvangi jafnóðum en nauðsynlegt er að auka við skráningar til að hægt sé að meta áhrif til framtíðar og uppfæra hönnunarkröfur á grundvelli raungagna og skráninga.

Við gerð næstu vatnaáætlunar fyrir Ísland (2028–2033) verður hver aðgerð metin m.t.t. loftslagsbreytinga. Tryggja þarf að aðgerðirnar sem settar verða fram auki ekki losun gróðurhúsalofttegunda og að þær séu þannig úr garði gerðar að þær geti aðlagast loftslagsbreytingum. Fráveita er eitt dæmi um svið þar sem slíkt mat skiptir miklu máli:
Þegar framkvæmd er athugun á áhrifum loftslagsbreytinga á aðgerðir skal: 1. Taka mið af líklegum áhrifum loftslagsbreytinga þegar aðgerðir eru skipulagðar og meta hvort þær verði áfram árangursríkar við breyttar aðstæður. 2. Velja aðgerðir sem eru sveigjanlegar og byggja á framtíðarsviðsmyndum um álag og losun gróðurhúsalofttegunda. 3. Tryggja að valdar aðgerðir séu sjálfbærar, henti sem flestum samstarfsaðilum og hafi sem minnst neikvæð umhverfisáhrif, s.s. hvað varðar aukna losun gróðurhúsalofttegunda. Aðeins skulu innleiddar aðgerðir sem geta staðist áhrif loftslagsbreytinga og valda ekki aukinni losun. Aðgerðin tekur mið af nýrri tilskipun ESB um hreinsun fráveituvatns og þeim aðlögunarkröfum og fjárfestingum sem henni fylgja. Hún mun einnig nýta tækifæri tengd hringrásarhagkerfinu, s.s. nýtingu seyru til lífgasframleiðslu, kolefnisbindingar og jarðvegsbóta.

Safnkostur og menningarverðmæti eru varðveitt í sérhæfðu húsnæði. Mörg safnanna standa hins vegar frammi fyrir því að varðveislurými þeirra er engan veginn til þess fallið að standast álag vegna loftslagsbreytinga, s.s. breytingar í rakastigi, ofsaveður eða flóð.
Þá er í sumum tilfellum um óhentuga staðsetningu að ræða m.t.t. hækkunar sjávarmáls. Ljóst er að bregðast þarf við slíkum breytingum og koma menningararfinum í varanlegt skjól þar sem varðveisla hans er örugg til framtíðar. Markmiðið er að húsnæði, staðsetning og aðstæður tryggi varðveislu menningarverðmæta (aðallega lausamuna) til framtíðar.

Varðveisla torfhúsa getur orðið vettvangur nýsköpunar í byggingartækni og svarað ákalli um sjálfbærari og umhverfisvænni byggingariðnað með notkun á efni úr nærumhverfi. Þessi byggingartækni hefur hlotið mikla athygli í nýsköpun og við hönnun nýrra húsa.
Torfhús eru byggingararfleifð Íslendinga, landið byggðist á þann hátt. Loftslagsbreytingar, þá sérstaklega hærri lofthiti, skemmri frostatíð og aukin úrkoma, hafa gríðarleg áhrif á endingu húsanna og gera varðveislu þeirra umfangsmeiri og vandasamari. Bregðast þarf við þessu ástandi með því að leiða saman nýjustu þekkingu á sviði byggingartækni, handverksþekkingar, loftslagsvísinda og menningararfsfræða um hvernig stuðla megi að sem bestri varðveislu húsanna. Slík varðveisla hefur því þann tvöfalda tilgang að varðveita menningararfinn og byggja brú inn í sjálfbærari framtíð.

Að styrkja rannsóknarinnviði fyrir stafvæðingu á menningararfi. Breytingar á landslagi og landsháttum sem rekja má til loftslagsbreytinga hafa áhrif á menningararf, jafnvel til eyðileggingar. Hluti af viðbrögðum við slíkum aðstæðum er aukin stafvæðing á menningarminjum, -landslagi og -safnkosti
Ljóst er að gera þarf átak í slíkri stafvæðingu og er markmið þessarar aðgerðar að kortleggja nauðsynlegar aðgerðir í þessa veru, forgangsraða og veita viðeigandi stofnunum fjármagn og mannafla til að sinna verkefninu.

Til að tryggja skilvirka og samhæfða framkvæmd, eftirfylgni og utanumhald er brýnt að skilgreina loftslagsþjónustu skýrar í lögum, regluverki og stefnugögnum stjórnvalda. Slík skilgreining ætti að tilgreina hlutverk og ábyrgð Veðurstofu Íslands og þá sérstaklega miðlunar- og þjónustuhlutverk skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar.
Snar þáttur í efldri loftslagsþjónustu er að tryggja aðgengilegar upplýsingar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi.

Loftslagsatlas Íslands er myndræn vefsjá sem veitir yfirsýn yfir líkleg áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi. Hann byggir á niðurkvarðaðri úrvinnslu sviðsmynda IPCC og nær yfir bæði land og hafsvæði innan íslenskrar efnahagslögsögu. Atlasinn er formlegur farvegur til að miðla viðurkenndum loftslagssviðsmyndum og styðja við stefnumótun, aðlögun og fræðslu.
Á vegum vísindanefndar um loftslagsbreytingar og Veðurstofunnar hefur verið unnið úr hnattrænum reikniniðurstöðum loftslagslíkana sem byggja á losunarsviðsmyndum IPCC. Til að tryggja að framreikningar séu byggðir á nýjustu þekkingu þarf að uppfæra úrvinnslu reglulega eftir því sem ný gögn verða aðgengileg. Þróa þarf aðferðir og verkfæri til að framkvæma slíka niðurkvörðun hratt og örugglega. Jafnframt er mikilvægt að þróa og miðla frávikasviðsmyndum, s.s. vegna samdráttar eða mögulegs hruns AMOC. Niðurstöðum úr sviðsmyndagreiningum verður miðlað í gegnum Loftslagsatlas Íslands sem og í skýrslum og greinargerðum. Markmiðið er að afleiðingar helstu frávika frá líklegri þróun séu vel skjalfestar og gagnlegt efni aðgengilegt hagaðilum. Fyrsta útgáfa atlassins var birt í apríl 2025 og nýjar útgáfur munu bæta við fleiri loftslagsvísum og sviðsmyndum, þróa nýja virkni og tengjast öðrum gagnagáttum, s.s. varðandi náttúruvá og áhættu.

Tilraunaverkefni um gagnagátt vegna vatns og sjávarflóða hófst árið 2021 í kjölfar útgáfu Loftslagsþolins Íslands. Í næsta áfanga verkefnisins, 2025–2029, er lagt upp með að þróun gagnagáttarinnar verði sjálfstætt verkefni og eitt af þeim verkefnum sem listað er upp í landsáætlun aðgerða vegna loftslagsbreytinga. Verkefni tengd náttúruvá eins og bæði vatnavá og sjávarflóðavá verði skilgreind í sértækum verkefnum.
Þegar innleiðingu gagnagáttarinnar verður lokið og fyrirliggjandi gögn yfirfarin og gerð aðgengileg verður unnið að því að koma inn upplýsingum um yfirfarin gögn fyrir fleiri vatnasvið og frá sjávarborðsmælum. Gagnagáttin verður jafnframt þróuð áfram til þess að birta fleiri gögn til viðbótar við vatnsflóð og sjávarflóð. Notendakannanir verða framkvæmdar og kannað hvort og þá hvaða úrbætur þarf að ráðast í til þess að gagnagáttin virki sem skyldi fyrir hagaðila og nýtist við ákvarðanatöku aðgerða til þess að draga úr og laga sig að áhrifum loftslagsbreytinga.

Þekking á áhrifum loftslagsbreytinga og aðlögunaraðgerðum er oft dreifð, brotakennd og erfitt að miðla milli hagaðila. Vöntun er á vettvangi þar sem mismunandi greinar, stjórnsýslustig og samfélög geta lært hvert af öðru, miðlað reynslu og eflt getu sína sameiginlega. Þekkingarrof milli vísindasamfélagsins og stefnumótenda dregur úr áhrifum rannsókna og hamlar markvissri innleiðingu aðlögunaraðgerða. Hafa ber í huga að aðlögun er staðbundin í eðli sínu, en margar áskoranir eru sameiginlegar og krefjast samvinnu þvert á geira og landshluta.
Að efla sameiginlega þekkingargrunn og ræða og meta árangur aðlögunaraðgerða með reglulegum ráðstefnum, málstofum eða fundum sem miða að því að tengja saman vísindi, stefnumótun og framkvæmd, miðla reynslu og lærdómi milli sveitarfélaga, stofnana, fræðasamfélags og annarra hagaðila, skapa vettvang fyrir gagnvirka umræðu og sameiginlega mótun lausna, og kynna nýjar aðferðir, verkfæri og rannsóknarniðurstöður sem styðja við ákvarðanatöku og stefnumótun. Á þennan hátt er stuðlað að aukinni hæfni, upplýsingamiðlun og samstarfi sem styrkir samfélagslegan viðnámsþrótt og eykur áhrif aðlögunarstarfs á landsvísu.
Almennt hvað þessa verkþætti varðar skal reynaeftir fremsta megni að nýta kannanir, verkfæri, efni og miðlunarleiðir semþegar eru til staðar eða nýttar. Þetta á t.d. við um reglulega fundi meðalhagaðila. Þó skal bent á að minni málstofur með skýran fókus á nærumhverfi erulíklegri til að skila árangri hvað varðar aukið þekkingarstig og aukið virði íþeim upplýsingum og leiðbeiningum sem miðlað er.

Til þess að tryggja samhæfingu og þverfaglegt samstarf skal þróa áfram vinnu og verklag við alþjóðstarf Íslands undir Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) og gerð íslenskra samantektarskýrslna um vísindalega þekkingu um loftslagsbreytingar á Íslandi. Hluti af þessari vinnu er að skipuleggja vinnu við næstu samantektarskýrslur og samstarf undir IPCC í samstarfi við landsnefnd um vísindastarf vegna loftslagsbreytinga. Nefndin var skipuð í nóvember 2024 til þriggja ára og hefur ráðgefandi hlutverk gagnvart ráðuneyti, Veðurstofu Íslands og Umhverfis- og orkustofnun og samhæfingar- og stuðningshlutverk gagnvart vinnuhópum á sviði loftslagsmála sem vinna samantektarskýrslurnar.
Til að tryggja samræmda yfirferð og miðlun vísinda um áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga í íslensku samhengi hefur nefndin lagt til að starfræktir verði þrír vinnuhópar að fyrirmynd vinnuhópa IPCC. Vinnuhóparnir sinna samantekt á stöðu þekkingar á: (1) eðlisvísindalegum grunni loftslagsbreytinga, (2) áhrifum, aðlögun og viðkvæmni samfélagsins og vistkerfa og (3) mótvægisaðgerðum og kolefnisbindingu. Markmið vinnuhópanna verði að safna saman, greina og miðla stöðu vísinda um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi og leggja þannig grunn að stefnumótun, áhættumati og aðlögun. Hóparnir skuli byggja á nýjustu gögnum og rannsóknum og tryggja framsetningu sem styður við ákvörðunartöku, stefnumótun og forgangsröðun aðgerða á landsvísu og hjá sveitarfélögum. Miðað er við að vinnan fari fram í nánu samstarfi við landsnefnd um vísindastarf og með stuðningi frá skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar. Hver vinnuhópur skilar heildstæðri skýrslu og tekur þátt í rýni skýrslna IPCC, með áherslu á íslenskt samhengi.

Sjálfbærnistofnun HÍ ynni að því að styðja við vísindamiðlun til almennings og innan háskólasamfélagsins með samstarfi allra háskóla á landinu, styddi samstarf og samtal ólíkra aðila og verkefna á sviði aðlögunar loftslagsbreytinga og, sem hluti af því, mótaði tengslanet doktorsnema og nýdoktora á fjölbreyttum fagsviðum sem vinna rannsóknir á sviði loftslagsmála og aðlögunar loftslagsbreytinga. Styrkt verði samstarf við stofnanir, s.s. Veðurstofu Íslands og Umhverfis- og orkustofnun. Skoðað verði að stofna þverfræðilegt loftslagssetur.
Helstu verkefni væru því að efla fræðslu, miðlun og samstarf um aðlögun að loftslagsbreytingum innan háskólasamfélagsins og leiða saman ólík fræðasvið. Markmiðið með því væri að styrkja vísindalega þekkingu og miðlun hennar til stjórnvalda, almennings og hagaðila ásamt því að efla þverfaglegt samstarf um rannsóknir. Með því að tryggja samstarf og tengslamyndun mætti auka þann slagkraft sem þegar er til staðar og nýta þannig fjármuni, mannauð og þekkingu betur.

Skapandi og lifandi fræðsla til almennings, og sérstaklega barna, um áhrif loftslagsbreytinga í gegnum faglegt safnastarf. Söfn eru lifandi vettvangur til samfélagslegs samtals um söguna, nútíðina og framtíðina.
Söfn á borð við Náttúruminjasafn Íslands fræða almenning um íslenska náttúru og nauðsynlegt er að þau fjalli einnig um áhrif loftslagsbreytinga. Aukin þekking almennings um áhrif loftslagsbreytinga er til þess fallin að breyta viðhorfum og athöfnum fólks í þá átt að stuðla að umhverfisvernd og sjálfbærni.

Markmið þessa verkefnis er að auka getu og bolmagn íslenskra sveitarfélaga til að taka ákvarðanir um og framkvæma aðlögun að loftslagsbreytingum.
Þetta verður gert með því að auka magn, fjölbreytni og aðgengi að fræðsluefni, leiðbeiningum, sniðmátum og öðru gagnlegu efni um aðlögun að loftslagsbreytingum í samhengi íslenskra sveitarfélaga.

Að útbúa leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um leiðir til aðlögunar að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð. Styrkja viðnámsþrótt sveitarfélaga og getu þeirra til aðlögunar að loftslagsbreytingum með því að þróa leiðbeiningar sem nýtast í skipulagsgerð, með áherslu á samfélagslegt réttlæti og félagslega innviði.
Mikilvægt er að sveitarfélög taki mið að áhrifum loftslagsbreytinga við ákvarðanir um nýtingu lands og þróun uppbyggingar í hinu byggða umhverfi. Til þess er mikilvægt að þau hafi aðgang að leiðbeiningum um skipulagsgerð sem gerir þeim kleift að búa sig undir- og aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga. Leiðbeiningar um aðlögun að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð verða unnar á grundvelli vinnu verkefnis í stefnumótandi byggðaáætlun þar sem fimm sveitarfélög taka þátt í verkefni um aðlögun íslenskra sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga. Við gerð leiðbeininganna verður horft til stöðu ólíkra hópa innan sveitarfélaganna, sérstaklega viðkvæmra hópa, og tryggja með þeim hætti að tekið sé mið af stöðu þeirra þegar litið er til aðlögunar að loftslagsbreytingum við gerð skipulagsáætlana.

Að útbúa leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um leiðir til aðlögunar að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð. Styrkja viðnámsþrótt sveitarfélaga og getu þeirra til aðlögunar að loftslagsbreytingum með því að þróa leiðbeiningar sem nýtast í skipulagsgerð, með áherslu á samfélagslegt réttlæti og félagslega innviði.
Mikilvægt er að sveitarfélög taki mið af áhrifum loftslagsbreytinga við ákvarðanir um nýtingu lands og þróun uppbyggingar í hinu byggða umhverfi. Til þess er mikilvægt að þau hafi aðgang að leiðbeiningum um skipulagsgerð sem gerir þeim kleift að búa sig undir og aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga. Leiðbeiningar um aðlögun að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð verða unnar á grundvelli vinnu verkefnis í stefnumótandi byggðaáætlun þar sem fimm sveitarfélög taka þátt í verkefni um aðlögun íslenskra sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga. Við gerð leiðbeininganna verður horft til stöðu ólíkra hópa innan sveitarfélaganna, sérstaklega viðkvæmra hópa, og tryggja með þeim hætti að tekið sé mið af stöðu þeirra þegar litið er til aðlögunar að loftslagsbreytingum við gerð skipulagsáætlana.

Síðustu ár hefur Byggðastofnun leitt aðgerð C.10 á aðgerðaáætlun byggðaáætlunar 2022–2026 í samstarfi við Veðurstofu Íslands, Skipulagsstofnun og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
Þessi aðgerð byggir á aðgerð C.10 í byggðaáætlun og er markmiðið að auka getu og bolmagn íslenskra sveitarfélaga til að móta staðbundnar aðgerðir og áætlanir til aðlögunar að áhrifum loftslagsbreytinga. Þetta verður gert með því að taka saman og meta fyrri reynslu af áhættu- og viðkvæmnimatsgerð íslenskra sveitarfélaga og hanna leiðbeiningar og sniðmát, sem nýtt verða til þjálfunar innan sveitarfélaga í framhaldinu.

Markmið þessa verkefnis er að framkvæma vandað, upplýst og aðgengilegt samráð með íbúum sveitarfélaga (og öðrum hagaðilum) til að skapa umræður og draga fram upplýsingar í tengslum við áhættu- og viðkvæmnimat vegna loftslagsbreytinga.
Jákvæð samlegðaráhrif þessarar aðgerðar eru m.a. aukin geta sveitarfélaga til að framkvæma vandaða íbúaþátttöku og aukin vitund íbúa um áhrif loftslagsbreytinga, mikilvægi aðlögunar að loftslagsbreytingum og þau viðbragðsúrræði sem í boði eru.