Aðgerðir í áherslu sýna þau verkefni sem eru sett í forgang og hafa mestu áhrif á framgang flokksins.
Aðgerðirnar hér snerta flokkinn og sýna tengsl þeirra við verkefnaskipan sviðsins.
Aðlögunaráætlun er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn loftslagsaðgerðar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.


Ný tilskipun Evrópusambandsins um hreinsun fráveituvatns í þéttbýli mun krefjast verulegra fjárfestinga hér á landi á næstu árum. Tilskipunin felur í sér auknar kröfur um hreinsun á fráveituvatni, meðhöndlun seyru og bætta hreinsun ofanvatns, auk þess að draga úr losun á yfirfalli og tryggja að bæði skólp og ofanvatn sé hreinsað áður en það berst í viðtaka. Einnig eru sett fram ákvæði um gerð samþættra áætlana um meðhöndlun frárennslis (hreinsun skólps og ofanvatns) í þéttbýli, fyrir þéttbýli sem losa yfir 100.000 persónueiningar af skólpi
Sú stærðarafmörkun á í dag við um höfuðborgarsvæðið. Auk þess er krafist greiningar á þörf fyrir slíkar áætlanir fyrir þéttbýli sem losa 10.000–100.000 persónueiningar, en þau þéttbýli eru níu talsins á Íslandi. Á sama tíma eykst hætta á flóðum og yfirfullum fráveitukerfum vegna hækkandi sjávarstöðu og aukinnar úrkomuákefðar. Loftslagsbreytingar hafa þegar áhrif á fráveitukerfi og stýringu ofanvatns í mörgum sveitarfélögum, þar sem gömul kerfi standast ekki núverandi áskoranir. Þörf er á samræmdri greiningu á áhrifum loftslagsbreytinga á fráveitukerfi þéttbýla til að draga úr hættu á flóðum, mengun og skemmdum á innviðum.

Náttúrumiðaðar lausnir í fráveitu geta dregið úr álagi á fráveitukerfi, aukið vatnsheldni, bætt þjónustu vistkerfa í þéttbýli og aukið lífsgæði íbúa. Aðgerðin miðar að því að vinna að stefnumótun og innleiðingu hennar.
Aðgerðin hefur ríka tengingu við vatnaáætlun og Icewater-verkefnið um innleiðingu hennar sem leggur áherslu á náttúrumiðaðar lausnir og þar eru mörg samstarfsverkefni með sveitarfélögum og hagaðilum í þróun. Mikilvægt er að tryggja samhæfingu við þá vinnu og önnur sambærileg verkefni, m.a. við skipulags- og byggingaryfirvöld, svo að stefnumótun og reglur verði byggðar á bestu þekkingu og reynslu.

Við gerð næstu vatnaáætlunar fyrir Ísland (2028–2033) verður hver aðgerð metin m.t.t. loftslagsbreytinga. Tryggja þarf að aðgerðirnar sem settar verða fram auki ekki losun gróðurhúsalofttegunda og að þær séu þannig úr garði gerðar að þær geti aðlagast loftslagsbreytingum. Fráveita er eitt dæmi um svið þar sem slíkt mat skiptir miklu máli:
Þegar framkvæmd er athugun á áhrifum loftslagsbreytinga á aðgerðir skal: 1. Taka mið af líklegum áhrifum loftslagsbreytinga þegar aðgerðir eru skipulagðar og meta hvort þær verði áfram árangursríkar við breyttar aðstæður. 2. Velja aðgerðir sem eru sveigjanlegar og byggja á framtíðarsviðsmyndum um álag og losun gróðurhúsalofttegunda. 3. Tryggja að valdar aðgerðir séu sjálfbærar, henti sem flestum samstarfsaðilum og hafi sem minnst neikvæð umhverfisáhrif, s.s. hvað varðar aukna losun gróðurhúsalofttegunda. Aðeins skulu innleiddar aðgerðir sem geta staðist áhrif loftslagsbreytinga og valda ekki aukinni losun. Aðgerðin tekur mið af nýrri tilskipun ESB um hreinsun fráveituvatns og þeim aðlögunarkröfum og fjárfestingum sem henni fylgja. Hún mun einnig nýta tækifæri tengd hringrásarhagkerfinu, s.s. nýtingu seyru til lífgasframleiðslu, kolefnisbindingar og jarðvegsbóta.