Aðgerðir í áherslu sýna þau verkefni sem eru sett í forgang og hafa mestu áhrif á framgang flokksins.
Aðgerðirnar hér snerta flokkinn og sýna tengsl þeirra við verkefnaskipan sviðsins.
Aðlögunaráætlun er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn loftslagsaðgerðar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.


Aðgerðin felur í sér að efla náttúrumiðaðar lausnir með mótvægis- og aðlögunaraðgerðir í huga. Ekki liggur fyrir heildstæð greining á landsvísu á möguleikum til að nýta náttúrumiðaðar lausnir til aðlögunar að loftslagsbreytingum. Sú aðferðafræði sem til staðar er hvað varðar náttúrumiðaðar lausnir er að jafnaði miðuð við stöðvun jarðvegsrofs, endurheimt vistkerfa og sjálfbær landnýting en ekki hefur verið tekið tillit til aðlögunar að loftslagsbreytingum með markvissum og samræmdum hætti.
Hnignun gróðurs og jarðvegs hér á landi hefur leitt til taps á miklum hluta kolefnisforða landsins. Þá vegur losun gróðurhúsalofttegunda frá röskuðum vistkerfum þyngst í losunarbókhaldi Íslands. Aukinheldur getur hnignun dregið úr þanþoli vistkerfa. Náttúrumiðaðar lausnir geta bæði talist mótvægisaðgerðir (vegna kolefnisbindingar) og aðlögunaraðgerðir (vegna aukins þanþols). Opinberum fjármunum er veitt í náttúrumiðaðar lausnir, s.s. vernd og endurheimt vistkerfa, skógrækt og sjálfbæra nýtingu og aukinn áhugi er á slíkum aðgerðum meðal einkaaðila. Æskilegt er að forgangsraða fjármunum í þær náttúrumiðuðu lausnir sem mestan ávinning hafa m.t.t. eflingar þanþols vistkerfa og aðlögunar að loftslagsbreytingum samhliða kolefnisbindingu og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni og hvetja jafnframt til einkafjármögnunar slíkra aðgerða.

Náttúrumiðaðar lausnir í fráveitu geta dregið úr álagi á fráveitukerfi, aukið vatnsheldni, bætt þjónustu vistkerfa í þéttbýli og aukið lífsgæði íbúa. Aðgerðin miðar að því að vinna að stefnumótun og innleiðingu hennar.
Aðgerðin hefur ríka tengingu við vatnaáætlun og Icewater-verkefnið um innleiðingu hennar sem leggur áherslu á náttúrumiðaðar lausnir og þar eru mörg samstarfsverkefni með sveitarfélögum og hagaðilum í þróun. Mikilvægt er að tryggja samhæfingu við þá vinnu og önnur sambærileg verkefni, m.a. við skipulags- og byggingaryfirvöld, svo að stefnumótun og reglur verði byggðar á bestu þekkingu og reynslu.

Aðgerðin felur í sér samstarf og samtal við sveitarfélög um mikilvægi náttúrumiðaðra lausna til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og sem lið í aðlögun að loftslagsbreytingum. Einnig felur hún í sér að greina hvernig breyta megi landnotkun bæði til að vinna á móti loftslagsbreytingum og til aðlögunar að þeim. Þannig verður stuðlað að upplýstri ákvarðanatöku og stefnumótun á sviði aðlögunar vegna loftslagsbreytinga í skipulagsmálum.
Í markmiðum laga um skóga og skógrækt kemur fram að skógrækt skuli stuðla að verndun jarðvegs og draga úr hugsanlegu tjóni vegna náttúruvár. Í þessu samhengi hefur t.d. talsverð vinna tengd eldvörnum í skógum farið fram og fræðsluefni verið gert aðgengilegt. Í markmiðum laga um landgræðslu kemur fram að endurheimt og uppbygging vistkerfa á landi skuli auka viðnámsþrótt og þanþol vistkerfa gagnvart náttúrulegum áföllum og náttúruvá. Unnið er að gerð svæðis- og landshlutaáætlana fyrir landgræðslu og skógrækt og þurfa þær áætlanir að miða að ofangreindum markmiðum og nýtast inn í vinnu við skipulagsáætlanir sveitarfélaga. Aðgerðin hefur tengsl við önnur stefnuskjöl og lög, t.a.m. Aðgerðaáætlun byggðaáætlunar 2022–2026 (aðgerð C.11) , Aðgerðaáætlun og stefna Land og líf, Lög um landgræðslu nr. 155/2018, Lög um skóga og skógrækt nr. 33/2019 og Landsskipulagsstefnu 2024–2038.