Aðgerðir í áherslu sýna þau verkefni sem eru sett í forgang og hafa mestu áhrif á framgang flokksins.
Aðgerðirnar hér snerta flokkinn og sýna tengsl þeirra við verkefnaskipan sviðsins.
Aðlögunaráætlun er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn loftslagsaðgerðar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.


Aðgerðin miðar að því að fjölga lýðheilsuvísum og endurskoða gátlista heilsueflandi starfs til að auka hagnýtingu m.t.t. aðlögunaraðgerða í loftslagsmálum. Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar á hverjum tíma og stöðu ýmissa áhrifaþátta heilbrigðis. Þeim er ætlað að nýtast stjórnvöldum og öðrum til að greina stöðuna, finna styrkleika og áskoranir þannig að hægt sé að vinna með markvissum hætti að því að efla heilsu og líðan allra. Vísarnir eru gefnir út árlega á landsvísu, fyrir umdæmi og fjölmennustu sveitarfélögin í formi einblöðunga og í mælaborðum.
Aðlögunarþarfir geta verið ólíkar eftir svæðum og því er mikilvægt að mögulegt sé að greina viðeigandi vísa fyrir eins afmörkuð svæði og gögnin leyfa hverju sinni, líkt og er gert m.a. í gegnum Loftslagsatlas Íslands. Með því að efla gagnaöflun er mögulegt að greina fleiri vísa fyrir fleiri sveitarfélög og/eða greina hvern vísi nánar fyrir undirhópa (s.s. aldur, kyn, félags- og efnahagsleg staða). Þannig geta þeir nýst enn betur, m.a. við viðkvæmni- og áhættumat hverju sinni og til að greina þarfir viðkvæmra og jaðarsettra hópa svo hægt sé að mæta þeim betur í aðlögunaraðgerðum. Auk hefðbundinna lýðheilsuvísa nýtast gátlistar Heilsueflandi samfélags (HSAM), og vefkerfið sem hýsir þá, til að meta stöðu og framvindu umhverfis og aðstæðna sem ætlað er að stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum (s.s. virkum ferðamáta og hollu mataræði), heilsu og vellíðan allra. Samhliða því að fjölga hefðbundnum lýðheilsuvísum sem taka mið af loftslagsmálum er því gagnlegt að rýna gátlista HSAM með loftslagsgleraugum og einfalda notkun þeirra fyrir sem flest sveitarfélög. Áhersla verður á samlegðaráhrif í notkun listanna og notkun „Place Standard Tool“.

Þróa og innleiða samræmda aðferðafræði til að meta samfélagsleg áhrif aðlögunaraðgerða á mismunandi hópa og landsvæði. Markmiðið er að tryggja að aðlögunaraðgerðir stuðli að jafnrétti og réttlátri aðlögun.
Megináhersla verður lögð á að greina jákvæð og neikvæð áhrif aðgerða á lífsgæði, atvinnu og heilbrigði og hvernig þau dreifast eftir kynjum, aldurshópum og byggðarlögum.

Greining á viðkvæmni og loftslagsáhættu mismunandi samfélagshópa, með áherslu á þá sem standa höllum fæti gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga. Markmiðið er að tryggja að aðlögunaraðgerðir og stefnumótun aðlögunar taki mið af félagslegu réttlæti, lýðheilsu og jafnrétti.

Að útbúa leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um leiðir til aðlögunar að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð. Styrkja viðnámsþrótt sveitarfélaga og getu þeirra til aðlögunar að loftslagsbreytingum með því að þróa leiðbeiningar sem nýtast í skipulagsgerð, með áherslu á samfélagslegt réttlæti og félagslega innviði.
Mikilvægt er að sveitarfélög taki mið að áhrifum loftslagsbreytinga við ákvarðanir um nýtingu lands og þróun uppbyggingar í hinu byggða umhverfi. Til þess er mikilvægt að þau hafi aðgang að leiðbeiningum um skipulagsgerð sem gerir þeim kleift að búa sig undir- og aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga. Leiðbeiningar um aðlögun að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð verða unnar á grundvelli vinnu verkefnis í stefnumótandi byggðaáætlun þar sem fimm sveitarfélög taka þátt í verkefni um aðlögun íslenskra sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga. Við gerð leiðbeininganna verður horft til stöðu ólíkra hópa innan sveitarfélaganna, sérstaklega viðkvæmra hópa, og tryggja með þeim hætti að tekið sé mið af stöðu þeirra þegar litið er til aðlögunar að loftslagsbreytingum við gerð skipulagsáætlana.

Að útbúa leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um leiðir til aðlögunar að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð. Styrkja viðnámsþrótt sveitarfélaga og getu þeirra til aðlögunar að loftslagsbreytingum með því að þróa leiðbeiningar sem nýtast í skipulagsgerð, með áherslu á samfélagslegt réttlæti og félagslega innviði.
Mikilvægt er að sveitarfélög taki mið af áhrifum loftslagsbreytinga við ákvarðanir um nýtingu lands og þróun uppbyggingar í hinu byggða umhverfi. Til þess er mikilvægt að þau hafi aðgang að leiðbeiningum um skipulagsgerð sem gerir þeim kleift að búa sig undir og aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga. Leiðbeiningar um aðlögun að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð verða unnar á grundvelli vinnu verkefnis í stefnumótandi byggðaáætlun þar sem fimm sveitarfélög taka þátt í verkefni um aðlögun íslenskra sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga. Við gerð leiðbeininganna verður horft til stöðu ólíkra hópa innan sveitarfélaganna, sérstaklega viðkvæmra hópa, og tryggja með þeim hætti að tekið sé mið af stöðu þeirra þegar litið er til aðlögunar að loftslagsbreytingum við gerð skipulagsáætlana.

Markmið þessa verkefnis er að framkvæma vandað, upplýst og aðgengilegt samráð með íbúum sveitarfélaga (og öðrum hagaðilum) til að skapa umræður og draga fram upplýsingar í tengslum við áhættu- og viðkvæmnimat vegna loftslagsbreytinga.
Jákvæð samlegðaráhrif þessarar aðgerðar eru m.a. aukin geta sveitarfélaga til að framkvæma vandaða íbúaþátttöku og aukin vitund íbúa um áhrif loftslagsbreytinga, mikilvægi aðlögunar að loftslagsbreytingum og þau viðbragðsúrræði sem í boði eru.