Aðgerðir í áherslu sýna þau verkefni sem eru sett í forgang og hafa mestu áhrif á framgang flokksins.
Aðgerðirnar hér snerta flokkinn og sýna tengsl þeirra við verkefnaskipan sviðsins.
Aðlögunaráætlun er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn loftslagsaðgerðar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.


Sjóður um kerfisbundnar veðurathuganir, Systematic Observations Financing Facility (SOFF), er samstarf þriggja stofnana Sameinuðu þjóðanna (Alþjóðaveðurfræðistofnunin, Þróunaráætlun SÞ og Umhverfisstofnun SÞ) með þátttöku aðildarríkja og alþjóðlegra fjármálastofnana.
Sjóðurinn hefur að markmiði að efla getu í fátækustu ríkjunum til að fylgjast með, spá fyrir um og meta þörf þeirra, til að sinna veðurathugunum. Þá er sjóðnum ætlað að styðja við öflun og greiningu á betri veður- og loftslagsgögnum þar sem athuganir eru takmarkaðar, sem stuðlar að nákvæmari spá á heimsvísu. Þannig er betur hægt að bregðast við náttúruhamförum og aðlögun að loftslagsbreytingum.

Aðlögunarsjóðurinn (e. Adaptation Fund) fjármagnar verkefni í þróunarríkjunum sem er ætlað að styðja við aðlögun þeirra að loftslagsbreytingum, styrkja innviði og stuðla að sjálfbærri þróun í samræmi við Heimsmarkmið SÞ.
Verkefni á vegum sjóðsins lúta m.a. að því að bæta viðbúnað gegn náttúruhamförum, styðja við sjálfbæra nýtingu og landgræðslu, draga úr vatnsskorti, efla matvælaöryggi og laga landbúnað að breytingum á loftslagi og tryggja lífsviðurværi í samfélögum sem eru viðkvæm fyrir loftslagsáhrifum. Samstarf Íslands við Aðlögunarsjóðinn er í formi árlegra fjárhagslegra framlaga, virkrar þátttöku og eftirfylgni með starfi sjóðsins.

Norræni þróunarsjóðurinn var stofnaður með samkomulagi Norðurlandanna árið 1988. Sjóðurinn styður við þróunarríki með verkefnum á sviði loftslags- og þróunarmála og styrkir samtímis leiðtogahlutverk Norðurlandanna á sviðinu. Veittir eru styrkir, lán og hlutafé með það að leiðarljósi að bregðast hratt við með viðeigandi leiðum og aðferðum, í samræmi við aðstæður.
Sjóðurinn styður fyrst og fremst við byrjunarstig verkefna og veitir hvatafjármögnun með áherslu á fátækustu þróunarríkin og smáeyþróunarríki, auk sérstakrar áherslu á viðkvæma samfélagshópa, s.s. konur og stúlkur. Þá er sjóðnum ætlað að tengja saman ólíka fjárfesta og hvetja til aðkomu bæði einkafjármagns og opinbers. Samstarf Íslands við norræna þróunarsjóðinn er í formi árlegra fjárhagslegra framlaga og stjórnarsetu. Þá er stutt sérstaklega við EEP Africa (e. The Energy and Environment Partnership Trust Fund), sem starfar undir sjóðnum. EEP Africa veitir hvatafjármögnun til verkefna í 17 ríkjum í sunnan- og austanverðri Afríku, með áherslu á hreina orku. Starfsemi sjóðsins er ætlað að stuðla að markmiðum Parísarsamkomulagsins.