Aðgerðir í áherslu sýna þau verkefni sem eru sett í forgang og hafa mestu áhrif á framgang flokksins.
Aðgerðirnar hér snerta flokkinn og sýna tengsl þeirra við verkefnaskipan sviðsins.
Aðlögunaráætlun er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn loftslagsaðgerðar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.


Markmið aðgerðarinnar er að auka þekkingu og getu heilbrigðiskerfisins til að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga og öðrum tengdum heilsufarsógnum yfir landamæri. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru loftslagsbreytingar ein stærsta heilsufarsógnin sem mannkynið stendur frammi fyrir. Þær geta haft mikil áhrif á andlega, líkamlega og félagslega heilsu og líðan fólks með beinum og óbeinum hætti og þá einnig heilbrigðiskerfið. Sem dæmi um helstu ógnir eru afleiðingar af auknum styrk og tíðni veðuröfga (t.d. aurskriður, sjávarflóð, snjóflóð, stormar), smitbærir og ósmitbærir sjúkdómar og fólksflutningar. Reglugerð (ESB) 2022/2371 mælir fyrir um fyrirkomulag og skipulag til að samræma viðbúnað og viðbrögð við alvarlegum heilsuógnum yfir landamæri, þ.m.t. skýrslugerð um forvarnir, viðbúnað og viðbragðsáætlun. Reglugerðin felur Sóttvarnastofnun Evrópu að leggja mat á heilbrigðisviðbúnað landanna m.t.t. fjölda þátta, m.a. stjórnunar í aðgerðum og ástandi sem kalla á virkjun heilbrigðiskerfisins (health emergency management), súnum og öðrum umhverfisógnum, rannsóknargetu, vöktun alvarlegra heilbrigðisógna o.fl.
Áhrif loftslagsbreytinga á heilbrigðiskerfið geta verið umtalsverð vegna beinna og óbeinna áhrifa þeirra á heilsu og líðan fólks og lífsaðstæður hverju sinni (félags-, efnahags- og menningarlegar aðstæður, byggt og náttúrulegt umhverfi). Má í þessu samhengi m.a. nefna náttúruváratburði, s.s. aurskriður, sjávarflóð, snjóflóð auk annarra þátta, s.s. smitsjúkdóma, aukinnar tíðni og alvarleika ofnæmistilfella og öndunarfærasjúkdóma og annarra lýðheilsuógna vegna loftmengunar. Áhrif alvarlegra náttúruváratburða á heilbrigðiskerfið geta verið umtalsverð, t.a.m. fjöldi slasaðra og/eða veikra einstaklinga, áhrif á daglegan rekstur innviða (rafmagnsleysi, skortur á heitu og/eða köldu vatni, netsambandi, rof á samgöngum o.s.frv.) og álag tengt sálfélagslegri þjónustu í kjölfar atburða svo fátt eitt sé nefnt. Mikilvægt er að efla þekkingu heilbrigðisstofnana á mögulegum hættum af völdum loftslagsbreytinga í sínu heilbrigðisumdæmi, auka getu þeirra til þess að búa sig undir og bregðast við alvarlegum atburðum og auka þannig viðnámsþrótt þeirra. Samhliða skyldi vinna sams konar verkefni fyrir heilbrigðiskerfið á landsvísu til að tryggja samræmd viðbrögð á landsvísu og leggja mat á þær loftslagsbreytingar og atburði þeim tengdum sem geta valdið umfangsmiklu álagi á heilbrigðiskerfið. Í aðlögunaraðgerðum sem snúa að heilbrigðiskerfinu sem og öðrum aðlögunaraðgerðum er m.a. mikilvægt að huga að viðkvæmum og jaðarsettum hópum sem eru alla jafna líklegri til að standa hallari fæti gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga.

Færni- og hæfnispá á vinnumarkaði getur gegnt mikilvægu hlutverki þegar kemur að aðlögun að breytingum á vinnumarkaði sem m.a. má rekja til afleiðinga loftslagsbreytinga. Bein áhrif loftslagsbreytinga á vinnumarkað eru t.d. áhrif á kolefnisþungar atvinnugreinar og áhrif á atvinnugreinar þar sem veðurfar og lífríki hefur mikla þýðingu (landbúnaður, ferðamennska, sjávarútvegur). Bein áhrif eru einnig aukin eftirspurn eftir grænum störfum, sjálfbærum störfum o.þ.h. Óbein áhrif loftslagbreytinga varða t.d. þá hæfni og þá menntun sem fólk þarf að hafa á vinnumarkaði til að sinna störfum.
Hér er vert að nefna aukna eftirspurn eftir grænni tækniþekkingu og áhrif á vinnuumhverfi sem rekja má til hlýnunar/mengunar sem hafa áhrif á heilsu og framleiðni. Fjölgun reglugerða og alþjóðlegra skuldbindinga krefst einnig breytinga í stjórnun, rekstri og birgðakeðjum sem hafa áhrif á vinnumarkað. Færni- og hæfnispá er því áhrifarík aðlögunaraðgerð að loftslagsbreytingum þar sem hún gerir okkur kleift að greina hvaða nýja hæfni þarf á grænum vinnumarkaði og styður markvissa stefnumótun í menntun, nýsköpun og atvinnuþróun. Með því að auðkenna hættu- og tækifærasvæði dregur hún úr félagslegum áhrifum umbreytinga, eykur viðnámsþrótt samfélaga og tryggir að einstaklingar og atvinnulíf geti brugðist tímanlega og markvisst við breyttum aðstæðum.

Þróa þarf námsfyrirkomulag í sí- og endurmenntun sem auðveldar sjálfbær umskipti með þjálfun starfsfólks til að mæta breyttum hæfnikröfum og markaðsforsendum.
Aðgerðin er einnig skilgreind í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum en þá m.t.t. samdráttar í losun.

Þróa og innleiða samræmda aðferðafræði til að meta samfélagsleg áhrif aðlögunaraðgerða á mismunandi hópa og landsvæði. Markmiðið er að tryggja að aðlögunaraðgerðir stuðli að jafnrétti og réttlátri aðlögun.
Megináhersla verður lögð á að greina jákvæð og neikvæð áhrif aðgerða á lífsgæði, atvinnu og heilbrigði og hvernig þau dreifast eftir kynjum, aldurshópum og byggðarlögum.

Loftslagsbreytingar munu fela í sér breytingar á starfsumhverfi landbúnaðar. Dæmi um áhrif sem geta haft bein áhrif á landbúnað er að þurrkadögum kann að fjölga, úrkomuákefð að aukast og veðurfar að hlýna.
Afleiðingar þessa kunna að vera tíðari gróðureldar, aukin flóðahætta, aukin útbreiðsla ágengra lífvera og að skriðuföll aukist. Við viðkvæmni- og áhættumat er viðeigandi loftslagstengd hætta fyrir málaflokkinn metin gróflega og mat gert á viðkvæmni viðeigandi aðila. Vinna þarf viðkvæmni- og áhættumat fyrir landbúnað til að undirbyggja mótun, val og forgangsröðun aðlögunaraðgerða.

Loftslagsbreytingar munu fela í sér breytingar á starfsumhverfi sjávarútvegs og lagareldis, einkum sjókvíaeldis. Dæmi um bein áhrif á sjávarútveg og fiskeldi er að úrkomuákefð eykst og veðurfar hlýnar.
Afleiðingar þessa kunna að vera tíðari ofsaveður, breytt sjávarstaða og aukin flóðahætta, aukin útbreiðsla ágengra lífvera, lækkun sýrustigs sjávar og að far fiskstofna taki breytingum. Við áhættu- og viðkvæmnimat er viðeigandi loftslagstengd hætta fyrir málaflokkinn metin gróflega og mat gert á viðkvæmni viðeigandi aðila. Vinna þarf áhættu- og viðkvæmnimat fyrir sjávarútveg og fiskeldi til að undirbyggja mótun, val og forgangsröðun aðlögunaraðgerða.

Unnið verði að greiningu og vöktun á margvíslegum afleiðingum loftslagsbreytinga á íslenska ferðaþjónustu. Slík greining og vöktun verði nýtt í uppfærslum á stefnumótun stjórnvalda og aðgerðaáætlunum á sviði loftslagsmála.
Við áhættu- og viðkvæmnimat er viðeigandi loftslagstengd hætta fyrir málaflokkinn metin gróflega og mat gert á viðkvæmni viðeigandi aðila. Vinna þarf áhættu- og viðkvæmnimat fyrir ferðaþjónustu til að undirbyggja mótun, val og forgangsröðun aðlögunaraðgerða.

Kortleggja þyrfti viðnámsþrótt eða seiglu fjarskiptakerfa m.t.t. til loftslagsbreytinga til að hægt sé að meta forgangsröðun aðgerða til að styrkja fjarskipti og takmarka líkur á fjarskiptarofi.
Aðgerðin er forsenda þess að hægt sé að bregðast við í tíma, áður en fyrirséðar loftslagsbreytingar valda alvarlegum röskunum. Þróa þyrfti aðferðafræði fyrir heildarkortlagningu áhættustaða sem væri forsenda forgangsröðunar mögulegra aðgerða til að draga úr líkum á fjarskiptatruflunum.

Ísland stendur frammi fyrir flókinni og sívaxandi loftslagsáhættu sem getur haft áhrif innan lands og þvert á landamæri, m.a. í gegnum hnattræn kerfi á borð við matvælakerfi, markaði með hrávöru, birgðakeðjur, fólksflutning, heilbrigðiskerfi og vistkerfi. Til að greina og meta slíkar áhættur á kerfisbundinn hátt er nauðsynlegt að þróa sértæka vísa sem byggja á nýjustu alþjóðlegu þekkingu og viðurkenndum skilgreiningum.
Aðgerðin felur í sér að þróa gagnlega vísa fyrir kerfislæga og þverþjóðlega loftslagsáhættu með hliðsjón af starfsemi ESB og IPCC, greina hvaða gögn þurfi til og hver beri ábyrgð á söfnun og greiningu þeirra. Unnið verður að því að samþætta niðurstöður verkefnisins við vinnu við áhættumat Íslands, ramma viðkvæmnigreiningar og starf vinnuhóps 2 skv. tillögu landsnefndar um vísindastarf.

Öflugt umhverfi rannsókna og nýsköpunar er forsenda framþróunar í framleiðslu matvæla. Jarðræktarmiðstöð eflir matvælarannsóknir og styður við markmið um heilnæma og sjálfbæra matvælaframleiðslu með eflingu kornræktar á Íslandi.
Uppbygging á starfsemi jarðræktarmiðstöðvar er því lykilþáttur í að efla fæðuöryggi á Íslandi á tímum loftslagsbreytinga.

Loftslagsbreytingar geta haft mikil áhrif á flutningskerfi raforku, t.a.m. með aukinni ísingu, seltuálagi, vindálagi, snjóþyngslum og ofanflóðum. Mögulegar afleiðingar geta verið styttri endingartími jarðstrengja vegna þurrka, tjón á mannvirkjum vegna aurskriða og annarra ofanflóða og skemmdir á undirstöðum flutningsvirkja vegna breytinga á rofi.
Nú þegar er tekið tillit til hugsanlegra afleiðinga hækkunar sjávarmáls þegar flutningsleiðir eru afmarkaðar í flutningskerfinu. Ástæða er til að auka enn frekar á skipulagningu flutningskerfisins með þessa áhættuþætti í huga.

Loftslagsbreytingar kalla á ör orkuskipti sem fela í sér aukna eftirspurn eftir raforku á næstu árum með áhrifum á dreifingu eftirspurnar. Við langtímaáætlanagerð er unnið að því að mæta þessari auknu eftirspurn sem er tilkomin vegna rafvæðingar samfélags og atvinnulífs í dreifbýli.
Uppbygging flutnings- og dreifikerfisins er skipulögð með áherslu á lágmörkun umhverfisáhrifa, þar á meðal aukinni notkun jarðstrengja og kerfishönnun sem gerir ráð fyrir breytingum í orkunotkun og nýrri tækni í orkugeymslu.

Verkefnið miðar að því að skapa vettvang til að styðja við þróun og innleiðingu skilvirkra, samhæfðra og samræmdra viðbragðsáætlana ríkis, sveitarfélaga og stofnana á þeirra vegum og fyrirtækja sem reka mikilvæga innviði sem stuðla að markvissum viðbrögðum þegar hamfarir verða.
Verkefnið mun stuðla að aukinni samvinnu og skilvirkni í almannavarnaástandi, með áherslu á að vernda líf, umhverfi og eignir.