Aðlögunaráætlun varðar leið stjórnvalda til að draga úr loftslagstengdri áhættu til lengri og skemmri tíma með því að auka seiglu samfélaga og vistkerfa.
Áætlun fyrir aðlögun íslensks samfélags að loftslabsbreytingum hefur verið í undirbúningi undanfarin ár. Hér má líta efni fyrstu útgáfu áætlunarinnar fyrir tímabilið 2026-2030. Efni hennar kann að vera uppfært innan tímabilsins og verða þær uppfærslur sýnilegar á vefnum https://www.co2.is þar sem áætlunin er formlega birt. Við birtinguna eiga báðar lögbundnar loftslagsáætlanir stjórnvalda eiga heimilisfesti á þeirri síðu.
Vefsvæði samráðs: https://adlogun.alta.is/. Hugmyndalisti aðgerða úr samráði: https://geo.alta.is/adlogun/
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur sett í forgang útgáfu aðlögunaráætlunar 2026-2030.
Í október 2022 skipaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra stýrihóp og fól honum að vinna tillögu að efnisþáttum og skipulagi fyrir gerð landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum.
Haldin var röð vinnustofa með helstu hópum haghafa og fagaðila þar sem kallað var eftir samtali og samráði um aðlögunaraðgerðir. Stýrihópurinn skilaði tillögunni Loftslagsþolið Ísland til ráðherra haustið 2023 og voru afurðir samráðsins viðaukar við hana. Í kjölfarið hefur farið fram talsvert samtal við mögulega framkvæmdaaðila aðlögunaraðgerða og viðeigandi hagaðila við mótun aðgerða. Jafnframt hefur hlutverk Veðurstofu Íslands við gerð áætlunar verið skýrt í reglugerð 786/2024.
Aukinheldur hefur verið samráð um aðlögunaraðgerðir við undirbúning styrkumsóknar í LIFE-áætlun Evrópusambandsins fyrir hluta aðgerðanna sem falla að skilgreiningum ESB fyrir styrkhæf verkefni. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti áformar að skila styrkumsókninni til ESB vorið 2026 með vísan í samþykkta aðlögunaráætlun. Umsóknin er unnin af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Veðurstofu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Rannís í samstarfi við Bændasamtök Íslands, Samtök atvinnulífsins og ábyrgðar- og framkvæmdaraðila styrkhæfra aðgerða.