
Aukið álag á fráveitukerfi og vatnsauðlindir, hætta á tjónum á hafnar- og strandsvæðum og aukin áhætta á truflunum í samgöngum og fjarskiptum kalla á samræmda nálgun í áhættumati og hönnun. Langtímastefnumörkun um uppbyggingu innviða og markviss auðlindastýring er nauðsynleg í þessu samhengi. Áhættumat og áhættustýring er lykilþáttur í aðlögun að loftslagsbreytingum og krefst samvinnu stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífs og almennings, auk markvissrar fræðslu og þjálfunar rekstraraðila innviða og Almannavarna.
Markmiðin á þessu sviði byggja á sameiginlegri framtíðarsýn og forgangsröðun. Þau eru leiðarljós í ákvarðanatöku og verkefnavinnu og tryggja að starfsemin skili áþreifanlegum árangri.
Aðlögunaráætlun er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn loftslagsaðgerðar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.


Kortleggja þyrfti viðnámsþrótt eða seiglu vegakerfisins m.t.t. loftslagsbreytinga til að hægt sé að meta forgangsröðun aðgerða til að styrkja samgöngur og takmarka líkur á samgöngurofi.
Aðgerðin er grundvallarforsenda þess að hægt sé að bregðast við í tíma, áður en fyrirséðar loftslagsbreytingar valda alvarlegum röskunum. Þróun á aðferðafræði við kortlagninguna er hafin innan Vegagerðarinnar með tilraunaverkefni og verður hægt að byggja á niðurstöðum þess verkefnis fyrir heildarkortlagningu áhættustaða. Mikilvægt er að kortleggja hvar váin er mest til að hægt sé að forgangsraða mögulegum aðgerðum til að draga úr líkum á samgöngutruflunum.
Vegagerðin vinnur að greiningum á áhrifum loftslagsbreytinga á strandsvæði m.t.t. sjávarstöðuhækkunar og aukins ölduálags og gefur m.a. út viðmið fyrir skipulag á hafnar- og strandsvæðum. Þessar greiningar ná m.a. til öryggis, viðkvæmni og tjónnæmi þessara svæða. Þörf er á að styrkja þessa vinnu á grundvelli þekkingar og reynslu sem er til staðar.
Einnig þarf að styðja þróun líkana; tryggja uppfærslur og viðbætur nýrra gagna og samþættingu þeirra. Niðurstöður úr greiningum og líkanagerð yfir stærri svæði nýtast m.a. til að hægt sé að huga að áhættu vegna loftslagsbreytinga á stærri svæðum, m.a. við skipulag strandsvæða með mótvægisaðgerðum eða skipulagsskilmálum.
· Greining á sjávarstöðubreytingumsamhliða landhæðarbreytingum m.v. núverandi mælakerfi.
· Styrkja líkanareikninga ogöldumælingar í kringum landið.
· Styrkja ölduspá á grunnslóð ogsjávarflóðaspá.
· Styðja við framsetningu líkana oggagna.
· Greining á þörf á bættumflóðavörnum og vöktunar- og viðvörunarkerfum.
· Uppfæra hönnunarviðmið bygginga oginnviða á lágsvæðum í takt við niðurstöður líkana.
Vegagerðin tekur nú þegar inn áhrif loftslagsbreytinga í hönnun nýrra samgöngumannvirkja, m.a. breytt hönnunarflóð fyrir brýr og sjávarstöðuhækkanir á strandsvæðum. Töluverð óvissa er um staðbundin áhrif loftslagsbreytinga og því mikilvægt að verklag þróist með bættum upplýsingum og aukinni þekkingu.
Sérstök áskorun er samgöngumannvirki sem hönnuð eru til langs tíma, t.d. brýr með 100 ára hönnunarlíftíma, en óvissa um áhrif loftslagsbreytinga eykst því fjær í tíma sem horft er. Nauðsynlegt er að til sé skýrt verklag sem styður við rökstudda ákvarðanatöku um hvort mögulegur viðbótarkostnaður vegna dýrari hönnunar og byggingar mannvirkis skili árangri, skv. kostnaðarhlið. Einnig þarf að fylgjast með og þróa nýjar lausnir í hönnun sem auðvelda viðbragð og breytingar á mannvirkjum ef bregðast þarf við loftslagsáhættu.
· Þróun verklags og gátlista fyrirhönnun samgöngumannvirkja sem taka mið af loftslagsþáttum. Tryggja þarfuppfærslu í takt við bætta þekkingu.
· Þróun verklags m.t.t.kostnaðarhliða, þ.e. mat á óvissu og kostnaði við að bregðast við í hönnunvegna loftslagsbreytinga til móts við möguleg áhrif og líkur á þeim.
Bregðast þarf við mögulegum breytingum í viðhaldi og þjónustu sökum breytinga og aukinna sveiflna í veðurfari.
Búast má t.d. við því að frost- og þíðuferlar verði algengari sem leiða til aukins niðurbrots vega auk breytinga á umfangi vetrarþjónustu, breytingar á úrkomuákefð og flóðum, breytingar á árvegum og breytingar á hviðum og vindafari í tengslum við hörfun jökla. Margar þessara breytinga eru hægfara og hægt að aðlaga verklag og viðbragð á vettvangi jafnóðum en nauðsynlegt er að auka við skráningar til að hægt sé að meta áhrif til framtíðar og uppfæra hönnunarkröfur á grundvelli raungagna og skráninga.
Loftslagsbreytingar geta haft mikil áhrif á flutningskerfi raforku, t.a.m. með aukinni ísingu, seltuálagi, vindálagi, snjóþyngslum og ofanflóðum. Mögulegar afleiðingar geta verið styttri endingartími jarðstrengja vegna þurrka, tjón á mannvirkjum vegna aurskriða og annarra ofanflóða og skemmdir á undirstöðum flutningsvirkja vegna breytinga á rofi.
Nú þegar er tekið tillit til hugsanlegra afleiðinga hækkunar sjávarmáls þegar flutningsleiðir eru afmarkaðar í flutningskerfinu. Ástæða er til að auka enn frekar á skipulagningu flutningskerfisins með þessa áhættuþætti í huga.
Loftslagsbreytingar kalla á ör orkuskipti sem fela í sér aukna eftirspurn eftir raforku á næstu árum með áhrifum á dreifingu eftirspurnar. Við langtímaáætlanagerð er unnið að því að mæta þessari auknu eftirspurn sem er tilkomin vegna rafvæðingar samfélags og atvinnulífs í dreifbýli.
Uppbygging flutnings- og dreifikerfisins er skipulögð með áherslu á lágmörkun umhverfisáhrifa, þar á meðal aukinni notkun jarðstrengja og kerfishönnun sem gerir ráð fyrir breytingum í orkunotkun og nýrri tækni í orkugeymslu.
Ný tilskipun Evrópusambandsins um hreinsun fráveituvatns í þéttbýli mun krefjast verulegra fjárfestinga hér á landi á næstu árum. Tilskipunin felur í sér auknar kröfur um hreinsun á fráveituvatni, meðhöndlun seyru og bætta hreinsun ofanvatns, auk þess að draga úr losun á yfirfalli og tryggja að bæði skólp og ofanvatn sé hreinsað áður en það berst í viðtaka. Einnig eru sett fram ákvæði um gerð samþættra áætlana um meðhöndlun frárennslis (hreinsun skólps og ofanvatns) í þéttbýli, fyrir þéttbýli sem losa yfir 100.000 persónueiningar af skólpi
Sú stærðarafmörkun á í dag við um höfuðborgarsvæðið. Auk þess er krafist greiningar á þörf fyrir slíkar áætlanir fyrir þéttbýli sem losa 10.000–100.000 persónueiningar, en þau þéttbýli eru níu talsins á Íslandi. Á sama tíma eykst hætta á flóðum og yfirfullum fráveitukerfum vegna hækkandi sjávarstöðu og aukinnar úrkomuákefðar. Loftslagsbreytingar hafa þegar áhrif á fráveitukerfi og stýringu ofanvatns í mörgum sveitarfélögum, þar sem gömul kerfi standast ekki núverandi áskoranir. Þörf er á samræmdri greiningu á áhrifum loftslagsbreytinga á fráveitukerfi þéttbýla til að draga úr hættu á flóðum, mengun og skemmdum á innviðum.
Náttúrumiðaðar lausnir í fráveitu geta dregið úr álagi á fráveitukerfi, aukið vatnsheldni, bætt þjónustu vistkerfa í þéttbýli og aukið lífsgæði íbúa. Aðgerðin miðar að því að vinna að stefnumótun og innleiðingu hennar.
Aðgerðin hefur ríka tengingu við vatnaáætlun og Icewater-verkefnið um innleiðingu hennar sem leggur áherslu á náttúrumiðaðar lausnir og þar eru mörg samstarfsverkefni með sveitarfélögum og hagaðilum í þróun. Mikilvægt er að tryggja samhæfingu við þá vinnu og önnur sambærileg verkefni, m.a. við skipulags- og byggingaryfirvöld, svo að stefnumótun og reglur verði byggðar á bestu þekkingu og reynslu.
Við gerð næstu vatnaáætlunar fyrir Ísland (2028–2033) verður hver aðgerð metin m.t.t. loftslagsbreytinga. Tryggja þarf að aðgerðirnar sem settar verða fram auki ekki losun gróðurhúsalofttegunda og að þær séu þannig úr garði gerðar að þær geti aðlagast loftslagsbreytingum. Fráveita er eitt dæmi um svið þar sem slíkt mat skiptir miklu máli:
Þegar framkvæmd er athugun á áhrifum loftslagsbreytinga á aðgerðir skal: 1. Taka mið af líklegum áhrifum loftslagsbreytinga þegar aðgerðir eru skipulagðar og meta hvort þær verði áfram árangursríkar við breyttar aðstæður. 2. Velja aðgerðir sem eru sveigjanlegar og byggja á framtíðarsviðsmyndum um álag og losun gróðurhúsalofttegunda. 3. Tryggja að valdar aðgerðir séu sjálfbærar, henti sem flestum samstarfsaðilum og hafi sem minnst neikvæð umhverfisáhrif, s.s. hvað varðar aukna losun gróðurhúsalofttegunda. Aðeins skulu innleiddar aðgerðir sem geta staðist áhrif loftslagsbreytinga og valda ekki aukinni losun. Aðgerðin tekur mið af nýrri tilskipun ESB um hreinsun fráveituvatns og þeim aðlögunarkröfum og fjárfestingum sem henni fylgja. Hún mun einnig nýta tækifæri tengd hringrásarhagkerfinu, s.s. nýtingu seyru til lífgasframleiðslu, kolefnisbindingar og jarðvegsbóta.
Safnkostur og menningarverðmæti eru varðveitt í sérhæfðu húsnæði. Mörg safnanna standa hins vegar frammi fyrir því að varðveislurými þeirra er engan veginn til þess fallið að standast álag vegna loftslagsbreytinga, s.s. breytingar í rakastigi, ofsaveður eða flóð.
Þá er í sumum tilfellum um óhentuga staðsetningu að ræða m.t.t. hækkunar sjávarmáls. Ljóst er að bregðast þarf við slíkum breytingum og koma menningararfinum í varanlegt skjól þar sem varðveisla hans er örugg til framtíðar. Markmiðið er að húsnæði, staðsetning og aðstæður tryggi varðveislu menningarverðmæta (aðallega lausamuna) til framtíðar.
Varðveisla torfhúsa getur orðið vettvangur nýsköpunar í byggingartækni og svarað ákalli um sjálfbærari og umhverfisvænni byggingariðnað með notkun á efni úr nærumhverfi. Þessi byggingartækni hefur hlotið mikla athygli í nýsköpun og við hönnun nýrra húsa.
Torfhús eru byggingararfleifð Íslendinga, landið byggðist á þann hátt. Loftslagsbreytingar, þá sérstaklega hærri lofthiti, skemmri frostatíð og aukin úrkoma, hafa gríðarleg áhrif á endingu húsanna og gera varðveislu þeirra umfangsmeiri og vandasamari. Bregðast þarf við þessu ástandi með því að leiða saman nýjustu þekkingu á sviði byggingartækni, handverksþekkingar, loftslagsvísinda og menningararfsfræða um hvernig stuðla megi að sem bestri varðveislu húsanna. Slík varðveisla hefur því þann tvöfalda tilgang að varðveita menningararfinn og byggja brú inn í sjálfbærari framtíð.
Að styrkja rannsóknarinnviði fyrir stafvæðingu á menningararfi. Breytingar á landslagi og landsháttum sem rekja má til loftslagsbreytinga hafa áhrif á menningararf, jafnvel til eyðileggingar. Hluti af viðbrögðum við slíkum aðstæðum er aukin stafvæðing á menningarminjum, -landslagi og -safnkosti
Ljóst er að gera þarf átak í slíkri stafvæðingu og er markmið þessarar aðgerðar að kortleggja nauðsynlegar aðgerðir í þessa veru, forgangsraða og veita viðeigandi stofnunum fjármagn og mannafla til að sinna verkefninu.
Vinna þarf viðkvæmni- og áhættumat vegna menningarminja á Íslandi. Áhrif loftslagsbreytinga ógna fornleifum og byggingararfi á Íslandi. Afla þarf aukinnar þekkingar um áhrif tiltekinna loftslagssviðsmynda á fornleifar og byggingararf í landinu svo unnt sé að bregðast við á réttan hátt.
Greina skal viðkvæmni og áhættu skrásettra minja vegna áhrifa loftslagsbreytinga og bæta verklag við skráningu fornleifa og byggingararfs þannig að tekið sé til loftslagssviðsmynda. Gæta þarf þess að upplýsingar sem safnast við skráningu séu færðar inn í landfræðilegan gagnagrunn og þær settar í samhengi við það hvernig umhverfisþættir geti breyst vegna loftslagsbreytinga. Á þeim grunni er hægt að vinna varðveislumat, forgangsraða og taka upplýstar ákvarðanir um möguleika til þess að aðlaga minjar að þeirri loftslagsáhættu sem finna má á hverjum stað.