Aðgerðir í áherslu sýna þau verkefni sem eru sett í forgang og hafa mestu áhrif á framgang flokksins.
Aðgerðirnar hér snerta flokkinn og sýna tengsl þeirra við verkefnaskipan sviðsins.
Aðlögunaráætlun er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn loftslagsaðgerðar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.


Verkefnið miðar að þróun spálíkana fyrir útbreiðslu tegunda og búsvæða með það að markmiði að styðja við náttúruvernd, stefnumótun og skipulag landnotkunar.
. Með því að nýta líkön er hægt að greina mögulegar breytingar á útbreiðslu tegunda vegna loftslagsbreytinga og meta seiglu (e. resilience) vistkerfa og svæða. Þannig veitir verkefnið mikilvægar upplýsingar sem nýtast við aðlögun að loftslagsbreytingum, bæði í verndaráætlunum og ákvarðanatöku um landnýtingu.

Markmið verkefnisins er að efla og uppfæra mælanet til vöktunar á veður- og náttúruvá og til upplýsinga fyrir gerð hættumats og þróun afurða sem spá fyrir um náttúruvá. Áhersla verður lögð á mælakerfi sem styrkja vöktun í tengslum við áhrif loftslagsbreytinga á náttúruvá. Má þar nefna úrkomumæla, grunnvatnsmæla, vatnshæðarmæla, jarðvegsrakamæla og mælakerfi til vöktunar á skriðuhættu.
Mælingar eru undirstaða vöktunar, eftirlits og viðbragða við náttúruvá og einnig við gerð hættumats vegna náttúruvár, bæði langtíma og skammtíma. Mælingar eru mikilvæg inntaksgögn inn í reiknilíkön fyrir spár um veður- og náttúruvá, bæði skammtíma- og langtímaspár, sem leggja grunn að viðbrögðum og bættu öryggi almennings og eigna. Mælingar eru jafnframt nauðsynleg inntaksgögn í gerð hættumats, sem er mikilvægur þáttur í skynsamlegu skipulagi sem er ein besta forvörnin gagnvart náttúruvá. Mælingar eru undirstaða rannsókna á náttúruvá og forboðum hennar. Mælingar eru því lykilþáttur í að auka viðnámsþrótt samfélagsins gagnvart náttúruvá. Mæla og tengda upplýsingatækniinnviði þarf að reka og endurnýja með reglubundnum hætti til að þeir standist tækniþróun og -kröfur hvers tíma.

Markmið verkefnisins er að styrkja viðnámsþrótt samfélagsins vegna skriðu- og krapaflóðahættu og auka þar með öryggi landsmanna og ferðamanna og draga úr eigna- og rekstrartjóni samfélagsins. Þetta fæst með markvissum rannsóknum, kortlagningu og gerð hættumats sem stuðlar að skynsamlegu skipulagi og landnýtingu, og einnig með svæðisbundnum skriðu- og krapaflóðaspám auk viðvarana sem byggir m.a. á öflugri mælitækni og eftirliti.
Loftslagsbreytingar geta valdið aukinni tíðni ofanflóða, einkum skriðufalla og krapaflóða, á Íslandi og þar með aukið tjón af þeirra völdum. Styrkja þarf viðnámsþrótt samfélagsins til þess að takast á við þessa vá með uppbyggingu varna og eflingu hættumats og vöktunar. Markvissar rannsóknir, kortlagning og gerð hættumats stuðla að skynsamlegu skipulagi og landnýtingu og hættumat er einnig grundvöllur ofanflóðavarna og vöktunar. Vöktun svæða og eftirlit með mælingum eru mikilvæg gögn fyrir ofanflóðaspár og útgáfu viðvarana, sem og ákvarðanatöku um rýmingar húsnæðis, lokanir vega eða aðrar aðgerðir.

Aðalskref verkefnisins felst í því að afla, greina og nýta gögn sem sérsniðin eru að íslenskum aðstæðum til að þróa samþætta nálgun í stjórn og viðbrögðum við gróðureldum.
Gróðureldar eiga sér gjarnan stað á þurrkatímabili vorsins á Íslandi, einkum í apríl, maí og júní. Frá árinu 2006 hafa að minnsta kosti 7695 hektarar af landvistkerfum Íslands, aðallega graslendi, orðið fyrir áhrifum gróðurelda. Stærsti skráði gróðureldurinn á Íslandi varð á Mýrum árið 2006, þar sem 6700 hektarar af mýrarsvæði brunnu (NÍ, 2025). Með breytingum á landnotkun, auknum gróðri og áframhaldandi hlýnun vex hættan á gróðureldum á Íslandi. Þrátt fyrir áhuga á að draga úr líkum á gróðureldum á landsvísu er þekking á íslenskum aðstæðum enn afar takmörkuð. Núverandi viðbragðsaðgerðir hérlendis miðast að mestu við fyrirmyndir frá öðrum löndum og hafa ekki verið sérsniðnar að íslenskum skilyrðum. Því er nauðsynlegt að byggja upp staðbundna þekkingu til að skilja betur, draga úr áhættu, undirbúa viðbrögð og laga okkur að framtíðarhættu af völdum gróðurelda á Íslandi.
• Yfirlit og greining
• Áhættuminnkun
• Upplýsingar og leiðbeiningar

Meta þarf aðlögunarhæfni helstu trjátegunda gagnvart líklegustu sviðsmyndum loftslagsbreytinga og gera áætlanir um innleiðingu erfðaefnis innan trjátegunda sem er betur aðlagað framtíðarloftslagi sem og mögulega nýjum áherslum í vali á trjátegundum til skógræktar.
Skoða þarf aðlögunarhæfni núverandi skóga, bæði náttúrulegra og gróðursettra og vinna tillögur um hvernig umhirðu og viðhaldi þeirra skuli háttað til að tryggja sem best þol gagnvart loftslagsbreytingum. Til grundvallar verða gerðar mælingar á núverandi kvæma- og klónatilraunum við mismunandi skilyrði á Íslandi og metnir sérstaklega einstakir þættir í líklegum sviðsmyndum loftslagsbreytinga sem hafa áhrif á aðlögun trjágróðurs, s.s. hitastigshækkun, hitasveiflur, úrkomumagn, úrkomusveiflur og ofsaveður á mismunandi árstímum.

Aðgerðin miðar að því að bæta vöktun á skógarskaðvöldum og áhættugreiningu vegna meindýra og sjúkdóma í trjám, sem er lykilþáttur í árangursríkri innleiðingu á stefnu um fyrirbyggjandi aðgerðir og viðbragðsáætlanir í skógum.
Heilbrigðir skógar hafa meiri aðlögunarhæfni og þol gagnvart margvíslegum afleiðingum loftslagsbreytinga og draga þannig úr hættu á neikvæðum áhrifum frá ágengum meindýrum og sjúkdómum. Því eru heilbrigðir skógar betur í stakk búnir til að standast rask sem rekja má til loftslagsbreytinga. Auk þess eykur loftslagsbreyting líkurnar á að ný meindýr og plöntusjúkdómar nái fótfestu á Íslandi, sérstaklega þegar umhverfisálag veikir varnir trjáa. Ólíkt mörgum nágrannaríkjum hefur Ísland tiltölulega fáa náttúrulega óvini til að halda aftur af slíkum skaðvöldum, og plöntur landsins eru ekki aðlagaðar þessum ágengu tegundum. Þetta gerir íslenska flóru sérstaklega viðkvæma fyrir slíkum innrásum. Þessi vinna er því lykilatriði til að koma á fót öflugu, samræmdu kerfi til að vakta heilbrigði skóga og innleiða vísindalega rökstuddar áhættustýringaraðgerðir.

Áhættu- og viðkvæmnimat Íslands ætti að snúa að beinum og óbeinum áhættum vegna loftslagsbreytinga auk þess sem sérstaklega er hugað að kerfislægum áhættum, s.s. áhættum þvert á landamæri og miðað að því að koma auga á tækifærin sem gætu falist í breyttu loftslagi.
Skapa þarf skýran ramma utan um framkvæmd viðkvæmni- og áhættumats Íslands til þess að tryggja að slíkt mat verði heildrænt, taki mið af mismunandi geirum og byggi á samræmdum upplýsingum og aðferðum. Sett verður fram tímalína sem rímar við tímalínu aðlögunaráætlunar Íslands, samræmd aðferðafræði, skilgreiningar og leiðbeiningar fyrir lykilgeira og sveitarfélög. Samhliða því verður lögð áhersla á að setja fram lykiláhættur og skilgreina lykilgeira íslensks samfélags ásamt því að meta hverjir beri ábyrgð á gerð viðkvæmni- og áhættumats hvers málaflokks.

Loftslagsbreytingar munu fela í sér breytingar á starfsumhverfi landbúnaðar. Dæmi um áhrif sem geta haft bein áhrif á landbúnað er að þurrkadögum kann að fjölga, úrkomuákefð að aukast og veðurfar að hlýna.
Afleiðingar þessa kunna að vera tíðari gróðureldar, aukin flóðahætta, aukin útbreiðsla ágengra lífvera og að skriðuföll aukist. Við viðkvæmni- og áhættumat er viðeigandi loftslagstengd hætta fyrir málaflokkinn metin gróflega og mat gert á viðkvæmni viðeigandi aðila. Vinna þarf viðkvæmni- og áhættumat fyrir landbúnað til að undirbyggja mótun, val og forgangsröðun aðlögunaraðgerða.

Loftslagsbreytingar munu fela í sér breytingar á starfsumhverfi sjávarútvegs og lagareldis, einkum sjókvíaeldis. Dæmi um bein áhrif á sjávarútveg og fiskeldi er að úrkomuákefð eykst og veðurfar hlýnar.
Afleiðingar þessa kunna að vera tíðari ofsaveður, breytt sjávarstaða og aukin flóðahætta, aukin útbreiðsla ágengra lífvera, lækkun sýrustigs sjávar og að far fiskstofna taki breytingum. Við áhættu- og viðkvæmnimat er viðeigandi loftslagstengd hætta fyrir málaflokkinn metin gróflega og mat gert á viðkvæmni viðeigandi aðila. Vinna þarf áhættu- og viðkvæmnimat fyrir sjávarútveg og fiskeldi til að undirbyggja mótun, val og forgangsröðun aðlögunaraðgerða.

Unnið verði að greiningu og vöktun á margvíslegum afleiðingum loftslagsbreytinga á íslenska ferðaþjónustu. Slík greining og vöktun verði nýtt í uppfærslum á stefnumótun stjórnvalda og aðgerðaáætlunum á sviði loftslagsmála.
Við áhættu- og viðkvæmnimat er viðeigandi loftslagstengd hætta fyrir málaflokkinn metin gróflega og mat gert á viðkvæmni viðeigandi aðila. Vinna þarf áhættu- og viðkvæmnimat fyrir ferðaþjónustu til að undirbyggja mótun, val og forgangsröðun aðlögunaraðgerða.

Ísland stendur frammi fyrir flókinni og sívaxandi loftslagsáhættu sem getur haft áhrif innan lands og þvert á landamæri, m.a. í gegnum hnattræn kerfi á borð við matvælakerfi, markaði með hrávöru, birgðakeðjur, fólksflutning, heilbrigðiskerfi og vistkerfi. Til að greina og meta slíkar áhættur á kerfisbundinn hátt er nauðsynlegt að þróa sértæka vísa sem byggja á nýjustu alþjóðlegu þekkingu og viðurkenndum skilgreiningum.
Aðgerðin felur í sér að þróa gagnlega vísa fyrir kerfislæga og þverþjóðlega loftslagsáhættu með hliðsjón af starfsemi ESB og IPCC, greina hvaða gögn þurfi til og hver beri ábyrgð á söfnun og greiningu þeirra. Unnið verður að því að samþætta niðurstöður verkefnisins við vinnu við áhættumat Íslands, ramma viðkvæmnigreiningar og starf vinnuhóps 2 skv. tillögu landsnefndar um vísindastarf.

Greining á viðkvæmni og loftslagsáhættu mismunandi samfélagshópa, með áherslu á þá sem standa höllum fæti gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga. Markmiðið er að tryggja að aðlögunaraðgerðir og stefnumótun aðlögunar taki mið af félagslegu réttlæti, lýðheilsu og jafnrétti.

Kortleggja þyrfti viðnámsþrótt eða seiglu vegakerfisins m.t.t. loftslagsbreytinga til að hægt sé að meta forgangsröðun aðgerða til að styrkja samgöngur og takmarka líkur á samgöngurofi.
Aðgerðin er grundvallarforsenda þess að hægt sé að bregðast við í tíma, áður en fyrirséðar loftslagsbreytingar valda alvarlegum röskunum. Þróun á aðferðafræði við kortlagninguna er hafin innan Vegagerðarinnar með tilraunaverkefni og verður hægt að byggja á niðurstöðum þess verkefnis fyrir heildarkortlagningu áhættustaða. Mikilvægt er að kortleggja hvar váin er mest til að hægt sé að forgangsraða mögulegum aðgerðum til að draga úr líkum á samgöngutruflunum.

Vegagerðin vinnur að greiningum á áhrifum loftslagsbreytinga á strandsvæði m.t.t. sjávarstöðuhækkunar og aukins ölduálags og gefur m.a. út viðmið fyrir skipulag á hafnar- og strandsvæðum. Þessar greiningar ná m.a. til öryggis, viðkvæmni og tjónnæmi þessara svæða. Þörf er á að styrkja þessa vinnu á grundvelli þekkingar og reynslu sem er til staðar.
Einnig þarf að styðja þróun líkana; tryggja uppfærslur og viðbætur nýrra gagna og samþættingu þeirra. Niðurstöður úr greiningum og líkanagerð yfir stærri svæði nýtast m.a. til að hægt sé að huga að áhættu vegna loftslagsbreytinga á stærri svæðum, m.a. við skipulag strandsvæða með mótvægisaðgerðum eða skipulagsskilmálum.
· Greining á sjávarstöðubreytingumsamhliða landhæðarbreytingum m.v. núverandi mælakerfi.
· Styrkja líkanareikninga ogöldumælingar í kringum landið.
· Styrkja ölduspá á grunnslóð ogsjávarflóðaspá.
· Styðja við framsetningu líkana oggagna.
· Greining á þörf á bættumflóðavörnum og vöktunar- og viðvörunarkerfum.
· Uppfæra hönnunarviðmið bygginga oginnviða á lágsvæðum í takt við niðurstöður líkana.

Loftslagsbreytingar geta haft mikil áhrif á flutningskerfi raforku, t.a.m. með aukinni ísingu, seltuálagi, vindálagi, snjóþyngslum og ofanflóðum. Mögulegar afleiðingar geta verið styttri endingartími jarðstrengja vegna þurrka, tjón á mannvirkjum vegna aurskriða og annarra ofanflóða og skemmdir á undirstöðum flutningsvirkja vegna breytinga á rofi.
Nú þegar er tekið tillit til hugsanlegra afleiðinga hækkunar sjávarmáls þegar flutningsleiðir eru afmarkaðar í flutningskerfinu. Ástæða er til að auka enn frekar á skipulagningu flutningskerfisins með þessa áhættuþætti í huga.

Ný tilskipun Evrópusambandsins um hreinsun fráveituvatns í þéttbýli mun krefjast verulegra fjárfestinga hér á landi á næstu árum. Tilskipunin felur í sér auknar kröfur um hreinsun á fráveituvatni, meðhöndlun seyru og bætta hreinsun ofanvatns, auk þess að draga úr losun á yfirfalli og tryggja að bæði skólp og ofanvatn sé hreinsað áður en það berst í viðtaka. Einnig eru sett fram ákvæði um gerð samþættra áætlana um meðhöndlun frárennslis (hreinsun skólps og ofanvatns) í þéttbýli, fyrir þéttbýli sem losa yfir 100.000 persónueiningar af skólpi
Sú stærðarafmörkun á í dag við um höfuðborgarsvæðið. Auk þess er krafist greiningar á þörf fyrir slíkar áætlanir fyrir þéttbýli sem losa 10.000–100.000 persónueiningar, en þau þéttbýli eru níu talsins á Íslandi. Á sama tíma eykst hætta á flóðum og yfirfullum fráveitukerfum vegna hækkandi sjávarstöðu og aukinnar úrkomuákefðar. Loftslagsbreytingar hafa þegar áhrif á fráveitukerfi og stýringu ofanvatns í mörgum sveitarfélögum, þar sem gömul kerfi standast ekki núverandi áskoranir. Þörf er á samræmdri greiningu á áhrifum loftslagsbreytinga á fráveitukerfi þéttbýla til að draga úr hættu á flóðum, mengun og skemmdum á innviðum.

Vinna þarf viðkvæmni- og áhættumat vegna menningarminja á Íslandi. Áhrif loftslagsbreytinga ógna fornleifum og byggingararfi á Íslandi. Afla þarf aukinnar þekkingar um áhrif tiltekinna loftslagssviðsmynda á fornleifar og byggingararf í landinu svo unnt sé að bregðast við á réttan hátt.
Greina skal viðkvæmni og áhættu skrásettra minja vegna áhrifa loftslagsbreytinga og bæta verklag við skráningu fornleifa og byggingararfs þannig að tekið sé til loftslagssviðsmynda. Gæta þarf þess að upplýsingar sem safnast við skráningu séu færðar inn í landfræðilegan gagnagrunn og þær settar í samhengi við það hvernig umhverfisþættir geti breyst vegna loftslagsbreytinga. Á þeim grunni er hægt að vinna varðveislumat, forgangsraða og taka upplýstar ákvarðanir um möguleika til þess að aðlaga minjar að þeirri loftslagsáhættu sem finna má á hverjum stað.

Verkefnið miðar að því að skapa vettvang til að styðja við þróun og innleiðingu skilvirkra, samhæfðra og samræmdra viðbragðsáætlana ríkis, sveitarfélaga og stofnana á þeirra vegum og fyrirtækja sem reka mikilvæga innviði sem stuðla að markvissum viðbrögðum þegar hamfarir verða.
Verkefnið mun stuðla að aukinni samvinnu og skilvirkni í almannavarnaástandi, með áherslu á að vernda líf, umhverfi og eignir.

Síðustu ár hefur Byggðastofnun leitt aðgerð C.10 á aðgerðaáætlun byggðaáætlunar 2022–2026 í samstarfi við Veðurstofu Íslands, Skipulagsstofnun og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
Þessi aðgerð byggir á aðgerð C.10 í byggðaáætlun og er markmiðið að auka getu og bolmagn íslenskra sveitarfélaga til að móta staðbundnar aðgerðir og áætlanir til aðlögunar að áhrifum loftslagsbreytinga. Þetta verður gert með því að taka saman og meta fyrri reynslu af áhættu- og viðkvæmnimatsgerð íslenskra sveitarfélaga og hanna leiðbeiningar og sniðmát, sem nýtt verða til þjálfunar innan sveitarfélaga í framhaldinu.