Aðgerðir í áherslu sýna þau verkefni sem eru sett í forgang og hafa mestu áhrif á framgang flokksins.
Aðgerðirnar hér snerta flokkinn og sýna tengsl þeirra við verkefnaskipan sviðsins.
Aðlögunaráætlun er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn loftslagsaðgerðar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.


Aðgerðin miðar að því að byggja upp samræmd landupplýsingagögn um búsvæði, jarðfræði, jarðveg og útbreiðslu loftslagsnæmra tegunda til að styðja við aðlögun að loftslagsbreytingum.
Kortlagningin mun gera stjórnvöldum kleift að greina vistkerfi og svæði í hættu, forgangsraða verndaraðgerðum og innleiða viðbragðsáætlanir gegn framandi tegundum sem geta breiðst út með hlýnandi loftslagi. Gagnasafnið verður nýtt í stefnumótun um náttúruvernd, landnotkun og áhættumat vegna loftslagsbreytinga.

Jöklar á Íslandi halda áfram að hörfa og rýrna og framtíðarsviðsmyndir sýna að ef fram heldur sem horfir verða jöklar á Íslandi að mestu horfnir eftir 150–200 ár. Samkvæmt margvíslegum mælingum á jörðu niðri og með fjarkönnun hafa jöklar á Íslandi á tímabilinu 2000−2023 þynnst að meðaltali um u.þ.b. 1 m á ári og er rýrnun íslensku jöklanna örari en víðast hvar annars staðar á jörðinni. Mikilvægt er að koma á rauntímavöktun, m.a. með sívinnsluafkomureikningum svipað og gert er á Grænlandi. Ráðast þarf í líkanareikninga til þess að spá fyrir um þróun jökla og breytingar í afrennsli frá þeim miðað við ólíkar sviðsmyndir. Einnig þarf að bæta vöktun á stækkandi jökullónum og óstöðugum fjallshlíðum og greina hættu vegna berghlaupa á og við jökla og jökulhlaupa. Aukin umferð um og í nágrenni við jökla landsins kallar einnig á skýran farveg fyrir kortlagningu á sprungusvæðum á jökli og greiningu á hættu sem er samfara umferð um og við jökla landsins. Útlínur jökla verða uppfærðar á tveggja ára fresti og til viðbótar eru sporðamælingar á völdum jöklum.
Markmið þessarar aðgerðar er að efla vöktun, greiningu og miðlun upplýsinga um stöðu og þróun íslenskra jökla með áherslu á líkanagerð, fjarkönnun og aðlögun að loftslagsbreytingum. Með samfelldri vöktun og reglulegum líkanareikningum má greina breytingar á jöklum í rauntíma og auka viðbúnað vegna náttúruvár. Unnið er að þessu í samstarfi við innlenda og erlenda aðila, m.a. í gegnum ICELINK-verkefnið, GLAMBIE-afkomuverkefnið, National Snow and Ice Data Center og World Glacier Monitoring Service í Sviss.

Markmið verkefnisins er að efla og uppfæra mælanet til vöktunar á veður- og náttúruvá og til upplýsinga fyrir gerð hættumats og þróun afurða sem spá fyrir um náttúruvá. Áhersla verður lögð á mælakerfi sem styrkja vöktun í tengslum við áhrif loftslagsbreytinga á náttúruvá. Má þar nefna úrkomumæla, grunnvatnsmæla, vatnshæðarmæla, jarðvegsrakamæla og mælakerfi til vöktunar á skriðuhættu.
Mælingar eru undirstaða vöktunar, eftirlits og viðbragða við náttúruvá og einnig við gerð hættumats vegna náttúruvár, bæði langtíma og skammtíma. Mælingar eru mikilvæg inntaksgögn inn í reiknilíkön fyrir spár um veður- og náttúruvá, bæði skammtíma- og langtímaspár, sem leggja grunn að viðbrögðum og bættu öryggi almennings og eigna. Mælingar eru jafnframt nauðsynleg inntaksgögn í gerð hættumats, sem er mikilvægur þáttur í skynsamlegu skipulagi sem er ein besta forvörnin gagnvart náttúruvá. Mælingar eru undirstaða rannsókna á náttúruvá og forboðum hennar. Mælingar eru því lykilþáttur í að auka viðnámsþrótt samfélagsins gagnvart náttúruvá. Mæla og tengda upplýsingatækniinnviði þarf að reka og endurnýja með reglubundnum hætti til að þeir standist tækniþróun og -kröfur hvers tíma.

Heildarmarkmið er uppsetning og kvörðun vatnafarslíkans fyrir landið allt. Líkanið er svo nýtt ásamt framtíðarsviðsmyndum loftslagsbreytinga til þess að greina áhrif loftslagsbreytinga á vatnafar til framtíðar, með áherslu á náttúruvá vegna flóða og þurrka, en einnig áhrif á vatnsbúskapinn sem er grunnur að nýtingu og verndun vatns. Líkanið verður auk þess nýtt til þess að spá fyrir um rennsli í rauntíma og nýtist því til þess að bæta flóðavöktun Veðurstofunnar og efla viðbragð og viðnámsþrótt samfélagsins. Hægt verður að nálgast líkanareiknað rennsli í gegnum gagnagátt fyrir náttúruvá.
Uppsetning og kvörðun vatnafarslíkana ásamt mælingum á vatnsbúskap er forsenda þess að geta spáð fyrir um og lagað sig að þeim breytingum sem kunna að verða á vatnafari með loftslagsbreytingum. Loftslagsbreytingar geta haft áhrif á tíðni, stærð og tímasetningu flóða, en geta að sama skapi haft áhrif á þurrka. Mikilvægt er að greina þær breytingar sem vænta má að frekari loftslagsbreytingar hafi á flóðavá, svo unnt sé að taka tillit til þeirra í allri ákvarðanatöku og viðbragði; hvort sem snýr að vörnum gegn flóðum, hönnun innviða eða skipulagsáætlunum. Auk þess þarf að horfa á vatnsauðlindina í heild og leggja mat á áhrif loftslagsbreytinga til framtíðar á nýtingu og verndun vatns. Unnið verður í nánum tengslum við verkefnið um gagnagátt fyrir náttúruvá með áherslu á vatns- og sjávarflóð og þróun Loftslagsatlass sem setur fram loftslagsáhættu, byggt á samspili slíkra gagna og loftslagssviðsmynda.

Sjávarstaða verði álíka vel vöktuð og spáð eins og gert er við aðra þætti sem taka munu breytingum vegna loftslagsbreytinga, s.s. hita og úrkomu. Samfélagslegt mikilvægi þess er óumdeilt. Sjávarstaða hverju sinni verður þekkt og einnig þróun helstu áhrifaþátta. Spá um sjávarhæð verði af álíka gæðum og fyrir hita, vind og úrkomu í veðurlíkönum.
Vinna að framsetningu vöktunargagna um sjávarstöðu og úrvinnsla á þeim. Verið er að byggja upp mælinet fyrir langtímavöktun sjávarstöðu. Gera þarf mælingarnar aðgengilegar í gagnagátt og vinna þarf úr þeim eftir framvindu. Tengja þarf langtímaþróun við breytingar á ísmassa, landhæðarbreytingar og sjávarstöðu. Þá þarf að bæta líkanareikninga svo hægt sé að spá fyrir um sjávarflóðavá með nokkurra daga fyrirvara.

Mikilvægt er að greina hvaða áhrif loftslagsbreytingar kunna að hafa á grunnvatnsauðlindir framtíðarinnar. Samspil loftslagsbreytinga og aukinnar eftirspurnar eftir grunnvatni kallar á heildstæða yfirsýn og kerfisbundna vöktun. Veðurstofan rekur í dag aðeins tvo virka grunnvatnsmæla, en þarf að hafa aðgang að víðtæku neti slíkra mæla til að öðlast áreiðanlega mynd af þróun og nýtingu vatnsauðlindarinnar.
Loftslagsbreytingar hafa áhrif á hringrás vatns og geta dregið úr endurnýjun grunnvatns, sem eykur óvissu um sjálfbæra nýtingu. Nauðsynlegt er að byggja upp þekkingu á stöðu grunnvatns um land allt, vakta breytingar á magni og notkun og leggja mat á hvort verið sé að ganga á auðlindina. Niðurstöður nýtist sem hluti af endurskoðun vatnaáætlunar Íslands og við gerð framtíðaráætlana um nýtingu og vernd vatnsauðlinda.

Markmið verkefnisins er að styrkja viðnámsþrótt samfélagsins vegna skriðu- og krapaflóðahættu og auka þar með öryggi landsmanna og ferðamanna og draga úr eigna- og rekstrartjóni samfélagsins. Þetta fæst með markvissum rannsóknum, kortlagningu og gerð hættumats sem stuðlar að skynsamlegu skipulagi og landnýtingu, og einnig með svæðisbundnum skriðu- og krapaflóðaspám auk viðvarana sem byggir m.a. á öflugri mælitækni og eftirliti.
Loftslagsbreytingar geta valdið aukinni tíðni ofanflóða, einkum skriðufalla og krapaflóða, á Íslandi og þar með aukið tjón af þeirra völdum. Styrkja þarf viðnámsþrótt samfélagsins til þess að takast á við þessa vá með uppbyggingu varna og eflingu hættumats og vöktunar. Markvissar rannsóknir, kortlagning og gerð hættumats stuðla að skynsamlegu skipulagi og landnýtingu og hættumat er einnig grundvöllur ofanflóðavarna og vöktunar. Vöktun svæða og eftirlit með mælingum eru mikilvæg gögn fyrir ofanflóðaspár og útgáfu viðvarana, sem og ákvarðanatöku um rýmingar húsnæðis, lokanir vega eða aðrar aðgerðir.

Ýmis gögn sem Veðurstofan safnar, bæði athuganir og veðurlíkanaútreikninga, má nýta til að greina betur og kortleggja ofsaveður og óvenjulegt veður. Við slíka vinnu þarf oft að nota aðra aðferðafræði en við hefðbundinna veðurúrvinnslu sem og að vinna með aðra tímakvarða.
. Þessi vinna fellur því ekki undir hefðbundna úrvinnslu en eflir hana. Í sumum tilvikum getur þurft að vinna þvert á fög, t.d. veður og vatn, og jafnvel stofnanir.

Aðalskref verkefnisins felst í því að afla, greina og nýta gögn sem sérsniðin eru að íslenskum aðstæðum til að þróa samþætta nálgun í stjórn og viðbrögðum við gróðureldum.
Gróðureldar eiga sér gjarnan stað á þurrkatímabili vorsins á Íslandi, einkum í apríl, maí og júní. Frá árinu 2006 hafa að minnsta kosti 7695 hektarar af landvistkerfum Íslands, aðallega graslendi, orðið fyrir áhrifum gróðurelda. Stærsti skráði gróðureldurinn á Íslandi varð á Mýrum árið 2006, þar sem 6700 hektarar af mýrarsvæði brunnu (NÍ, 2025). Með breytingum á landnotkun, auknum gróðri og áframhaldandi hlýnun vex hættan á gróðureldum á Íslandi. Þrátt fyrir áhuga á að draga úr líkum á gróðureldum á landsvísu er þekking á íslenskum aðstæðum enn afar takmörkuð. Núverandi viðbragðsaðgerðir hérlendis miðast að mestu við fyrirmyndir frá öðrum löndum og hafa ekki verið sérsniðnar að íslenskum skilyrðum. Því er nauðsynlegt að byggja upp staðbundna þekkingu til að skilja betur, draga úr áhættu, undirbúa viðbrögð og laga okkur að framtíðarhættu af völdum gróðurelda á Íslandi.
• Yfirlit og greining
• Áhættuminnkun
• Upplýsingar og leiðbeiningar

Auglýst verður eftir umsóknum og fjármagni úthlutað til rannsóknar- og nýsköpunarverkefna tengdum náttúruvá. Náttúruvá getur verið margvísleg og loftslagsbreytingar hafa nú þegar aukið og munu áfram auka náttúruvá á Íslandi sem getur komið fram í öfgakenndara veðurfari, skriðum, flóðum og fleiru sem hefur mikil áhrif á samfélög og innviði.
Mikilvægt er að undirbúa íslenskt samfélag sem best og byggja stefnumótun og aðgerðir á rannsóknum og nýjustu þekkingu. Lagt er til að úthluta 500–600 milljónum króna til samstarfsverkefna rannsóknastofnana og fyrirtækja á breiðum þekkingarlegum grundvelli þar sem litið verður til þverfaglegs samstarfs. Áhersla er lögð á víðtækt samstarf og miðlun niðurstaðna.

Ný tilskipun Evrópusambandsins um hreinsun fráveituvatns í þéttbýli mun krefjast verulegra fjárfestinga hér á landi á næstu árum. Tilskipunin felur í sér auknar kröfur um hreinsun á fráveituvatni, meðhöndlun seyru og bætta hreinsun ofanvatns, auk þess að draga úr losun á yfirfalli og tryggja að bæði skólp og ofanvatn sé hreinsað áður en það berst í viðtaka. Einnig eru sett fram ákvæði um gerð samþættra áætlana um meðhöndlun frárennslis (hreinsun skólps og ofanvatns) í þéttbýli, fyrir þéttbýli sem losa yfir 100.000 persónueiningar af skólpi
Sú stærðarafmörkun á í dag við um höfuðborgarsvæðið. Auk þess er krafist greiningar á þörf fyrir slíkar áætlanir fyrir þéttbýli sem losa 10.000–100.000 persónueiningar, en þau þéttbýli eru níu talsins á Íslandi. Á sama tíma eykst hætta á flóðum og yfirfullum fráveitukerfum vegna hækkandi sjávarstöðu og aukinnar úrkomuákefðar. Loftslagsbreytingar hafa þegar áhrif á fráveitukerfi og stýringu ofanvatns í mörgum sveitarfélögum, þar sem gömul kerfi standast ekki núverandi áskoranir. Þörf er á samræmdri greiningu á áhrifum loftslagsbreytinga á fráveitukerfi þéttbýla til að draga úr hættu á flóðum, mengun og skemmdum á innviðum.

Tilraunaverkefni um gagnagátt vegna vatns og sjávarflóða hófst árið 2021 í kjölfar útgáfu Loftslagsþolins Íslands. Í næsta áfanga verkefnisins, 2025–2029, er lagt upp með að þróun gagnagáttarinnar verði sjálfstætt verkefni og eitt af þeim verkefnum sem listað er upp í landsáætlun aðgerða vegna loftslagsbreytinga. Verkefni tengd náttúruvá eins og bæði vatnavá og sjávarflóðavá verði skilgreind í sértækum verkefnum.
Þegar innleiðingu gagnagáttarinnar verður lokið og fyrirliggjandi gögn yfirfarin og gerð aðgengileg verður unnið að því að koma inn upplýsingum um yfirfarin gögn fyrir fleiri vatnasvið og frá sjávarborðsmælum. Gagnagáttin verður jafnframt þróuð áfram til þess að birta fleiri gögn til viðbótar við vatnsflóð og sjávarflóð. Notendakannanir verða framkvæmdar og kannað hvort og þá hvaða úrbætur þarf að ráðast í til þess að gagnagáttin virki sem skyldi fyrir hagaðila og nýtist við ákvarðanatöku aðgerða til þess að draga úr og laga sig að áhrifum loftslagsbreytinga.