Aðgerðir í áherslu sýna þau verkefni sem eru sett í forgang og hafa mestu áhrif á framgang flokksins.
Aðgerðirnar hér snerta flokkinn og sýna tengsl þeirra við verkefnaskipan sviðsins.
Aðlögunaráætlun er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn loftslagsaðgerðar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.


Aðgerðin byggir upp grunn fyrir langtímavöktun vistkerfa og mat á viðkvæmni þeirra gagnvart loftslagsbreytingum og súrnun sjávar.
Með því að koma upp neti vöktunarstaða og framkvæma áhættumat vegna loftslagstengdra þátta (s.s. hitabreytinga, þurrka, sjávarhæðarhækkunar, sífrera og framandi tegunda) er markmiðið að greina snemmbær merki um breytingar í náttúru og styðja við stefnumótun, mótvægisaðgerðir, verndaráætlanir og aðlögun í landnotkun. Einnig að koma upp sjálfvirku kerfi til þess að fylgjast með breytingum á jökullónum út frá gervitunglamyndum Kóperníkusaráætlunarinnar.

Aðgerðin miðar að því að byggja upp samræmd landupplýsingagögn um búsvæði, jarðfræði, jarðveg og útbreiðslu loftslagsnæmra tegunda til að styðja við aðlögun að loftslagsbreytingum.
Kortlagningin mun gera stjórnvöldum kleift að greina vistkerfi og svæði í hættu, forgangsraða verndaraðgerðum og innleiða viðbragðsáætlanir gegn framandi tegundum sem geta breiðst út með hlýnandi loftslagi. Gagnasafnið verður nýtt í stefnumótun um náttúruvernd, landnotkun og áhættumat vegna loftslagsbreytinga.

Verkefnið miðar að þróun spálíkana fyrir útbreiðslu tegunda og búsvæða með það að markmiði að styðja við náttúruvernd, stefnumótun og skipulag landnotkunar.
. Með því að nýta líkön er hægt að greina mögulegar breytingar á útbreiðslu tegunda vegna loftslagsbreytinga og meta seiglu (e. resilience) vistkerfa og svæða. Þannig veitir verkefnið mikilvægar upplýsingar sem nýtast við aðlögun að loftslagsbreytingum, bæði í verndaráætlunum og ákvarðanatöku um landnýtingu.

Meta þarf aðlögunarhæfni helstu trjátegunda gagnvart líklegustu sviðsmyndum loftslagsbreytinga og gera áætlanir um innleiðingu erfðaefnis innan trjátegunda sem er betur aðlagað framtíðarloftslagi sem og mögulega nýjum áherslum í vali á trjátegundum til skógræktar.
Skoða þarf aðlögunarhæfni núverandi skóga, bæði náttúrulegra og gróðursettra og vinna tillögur um hvernig umhirðu og viðhaldi þeirra skuli háttað til að tryggja sem best þol gagnvart loftslagsbreytingum. Til grundvallar verða gerðar mælingar á núverandi kvæma- og klónatilraunum við mismunandi skilyrði á Íslandi og metnir sérstaklega einstakir þættir í líklegum sviðsmyndum loftslagsbreytinga sem hafa áhrif á aðlögun trjágróðurs, s.s. hitastigshækkun, hitasveiflur, úrkomumagn, úrkomusveiflur og ofsaveður á mismunandi árstímum.

Aðgerðin miðar að því að bæta vöktun á skógarskaðvöldum og áhættugreiningu vegna meindýra og sjúkdóma í trjám, sem er lykilþáttur í árangursríkri innleiðingu á stefnu um fyrirbyggjandi aðgerðir og viðbragðsáætlanir í skógum.
Heilbrigðir skógar hafa meiri aðlögunarhæfni og þol gagnvart margvíslegum afleiðingum loftslagsbreytinga og draga þannig úr hættu á neikvæðum áhrifum frá ágengum meindýrum og sjúkdómum. Því eru heilbrigðir skógar betur í stakk búnir til að standast rask sem rekja má til loftslagsbreytinga. Auk þess eykur loftslagsbreyting líkurnar á að ný meindýr og plöntusjúkdómar nái fótfestu á Íslandi, sérstaklega þegar umhverfisálag veikir varnir trjáa. Ólíkt mörgum nágrannaríkjum hefur Ísland tiltölulega fáa náttúrulega óvini til að halda aftur af slíkum skaðvöldum, og plöntur landsins eru ekki aðlagaðar þessum ágengu tegundum. Þetta gerir íslenska flóru sérstaklega viðkvæma fyrir slíkum innrásum. Þessi vinna er því lykilatriði til að koma á fót öflugu, samræmdu kerfi til að vakta heilbrigði skóga og innleiða vísindalega rökstuddar áhættustýringaraðgerðir.

Aðgerðin felur í sér samstarf og samtal við sveitarfélög um mikilvægi náttúrumiðaðra lausna til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og sem lið í aðlögun að loftslagsbreytingum. Einnig felur hún í sér að greina hvernig breyta megi landnotkun bæði til að vinna á móti loftslagsbreytingum og til aðlögunar að þeim. Þannig verður stuðlað að upplýstri ákvarðanatöku og stefnumótun á sviði aðlögunar vegna loftslagsbreytinga í skipulagsmálum.
Í markmiðum laga um skóga og skógrækt kemur fram að skógrækt skuli stuðla að verndun jarðvegs og draga úr hugsanlegu tjóni vegna náttúruvár. Í þessu samhengi hefur t.d. talsverð vinna tengd eldvörnum í skógum farið fram og fræðsluefni verið gert aðgengilegt. Í markmiðum laga um landgræðslu kemur fram að endurheimt og uppbygging vistkerfa á landi skuli auka viðnámsþrótt og þanþol vistkerfa gagnvart náttúrulegum áföllum og náttúruvá. Unnið er að gerð svæðis- og landshlutaáætlana fyrir landgræðslu og skógrækt og þurfa þær áætlanir að miða að ofangreindum markmiðum og nýtast inn í vinnu við skipulagsáætlanir sveitarfélaga. Aðgerðin hefur tengsl við önnur stefnuskjöl og lög, t.a.m. Aðgerðaáætlun byggðaáætlunar 2022–2026 (aðgerð C.11) , Aðgerðaáætlun og stefna Land og líf, Lög um landgræðslu nr. 155/2018, Lög um skóga og skógrækt nr. 33/2019 og Landsskipulagsstefnu 2024–2038.