Til að auka bindingu kolefnis verður lögð áhersla á vernd og endurheimt birkiskóga, ræktun nýrra skóga og endurheimt þurrlendisvistkerfa á jörðum í eigu ríkisins og á þjóðlendu með markvissum hætti og í samræmi við framkvæmdaáætlun og fjármögnun.
Vonir standa til að nýtt og endurskoðað styrkjakerfi í landgræðslu og skógrækt fyrir einkajarðir hvetji landeigendur enn frekar til að bæta landnýtingu eigin jarða í þágu loftslagsmála. Kannað verður hvort hægt sé að móta aðferðafræði við endurheimt þurrlendisvistkerfa sem uppfyllir verklag og staðla til að hægt sé að skrá kolefnisbindingu svæðanna sem vottaðar hágæðakolefniseiningar. Einnig er mikilvægt að vinna að aðlögun trjátegunda og skóga að loftslagsbreytingum sem og auka hvata og þekkingu um nýtingu og varðveislu kolefnis í viðarafurðum úr íslenskum skógum á sjálfbæran hátt.