Gögn og upplýsingar um losun og bindingu vegna landnotkunar eru háð meiri óvissu en gögn um aðrar uppsprettur, eins og t.d. losun frá jarðefnaeldsneyti og iðnaðarferlum, enda er um flókna vistfræðilega ferla að ræða og mikinn breytileika eftir aðstæðum. Undanfarin ár hefur verið unnið að bættri gagnaöflun til að tryggja fullnægjandi og samanburðarhæf gögn og heldur sú vinna áfram.
Ísland ætlar í fyrsta skipti að setja sér tölulegt markmið fyrir losun frá landi og stefna að því að ná þeirri losun niður um 400-500 kt. CO2 íg. fyrir 2035 miðað við 2025. Viðræður standa yfir við ESB um skilgreiningu markmiðs fyrir Ísland og Noreg um losun frá landi fyrir árið 2030
Hlutfallsleg skipting landnotkunar (LULUCF) í losunartengda málaflokka.
Söguleg losun vegna landnotkunar frá árinu 2005.
Samtals voru 16 loftslagsaðgerðir og loftslagsverkefni skilgreind vegna landnotkunar (LULUCF). Aðgerðirnar eru flestar þvert á málaflokka og eru taldar mikilvægar til að bæta landnotkun í heild sinni. Áhersla er lögð á að ríkið sýni gott fordæmi og leggi fram heildstæða framkvæmdaáætlun um bætta landnýtingu í þágu loftslagsmála á jörðum í eigu ríkisins.