Undirstaða þess að árangri sé náð í samdrætti losunar í landbúnaði er að aðgerðir stuðli að aukinni sjálfbærni í rekstri. Breytingar í rekstri búa, sem bera með sér loftslags- og umhverfisávinning, geta verið hagkvæmari en hefðbundnar aðferðir og því mikilvægt að bændur séu upplýstir um slíkan ávinning.
Loftslagsvænni landbúnaður þarf að byggja á rannsóknum, ráðgjöf og greinargóðri upplýsingamiðlun. Með breiðri innleiðingu slíkra aðferða geta einnig gæði matvæla, uppskera, heilbrigði jarðvegs, líffræðileg fjölbreytni og upptaka áburðarefna aukist. Skyldi svæði losna á jörðum sökum bestunar má skoða ræktun repju til lífeldsneytisframleiðslu, sem ýtir undir orkusjálfstæði og samdrátt samfélagslosunar í samgöngum.