Aðgerðir í áherslu sýna þau verkefni sem eru sett í forgang og hafa mestu áhrif á framgang flokksins.
Aðgerðirnar hér snerta flokkinn og sýna tengsl þeirra við verkefnaskipan sviðsins.
Aðlögunaráætlun er á ábyrgð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en er unnin af verkefnisstjórn loftslagsaðgerðar í breiðu samstarfi Stjórnarráðsins og stofnana þess.


Auglýst verður eftir umsóknum og fjármagni úthlutað til rannsóknar- og nýsköpunarverkefna tengdum náttúruvá. Náttúruvá getur verið margvísleg og loftslagsbreytingar hafa nú þegar aukið og munu áfram auka náttúruvá á Íslandi sem getur komið fram í öfgakenndara veðurfari, skriðum, flóðum og fleiru sem hefur mikil áhrif á samfélög og innviði.
Mikilvægt er að undirbúa íslenskt samfélag sem best og byggja stefnumótun og aðgerðir á rannsóknum og nýjustu þekkingu. Lagt er til að úthluta 500–600 milljónum króna til samstarfsverkefna rannsóknastofnana og fyrirtækja á breiðum þekkingarlegum grundvelli þar sem litið verður til þverfaglegs samstarfs. Áhersla er lögð á víðtækt samstarf og miðlun niðurstaðna.

Til að tryggja skilvirka og samhæfða framkvæmd, eftirfylgni og utanumhald er brýnt að skilgreina loftslagsþjónustu skýrar í lögum, regluverki og stefnugögnum stjórnvalda. Slík skilgreining ætti að tilgreina hlutverk og ábyrgð Veðurstofu Íslands og þá sérstaklega miðlunar- og þjónustuhlutverk skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar.
Snar þáttur í efldri loftslagsþjónustu er að tryggja aðgengilegar upplýsingar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi.