
Norræni þróunarsjóðurinn var stofnaður með samkomulagi Norðurlandanna árið 1988. Sjóðurinn styður við þróunarríki með verkefnum á sviði loftslags- og þróunarmála og styrkir samtímis leiðtogahlutverk Norðurlandanna á sviðinu. Veittir eru styrkir, lán og hlutafé með það að leiðarljósi að bregðast hratt við með viðeigandi leiðum og aðferðum, í samræmi við aðstæður.
Sjóðurinn styður fyrst og fremst við byrjunarstig verkefna og veitir hvatafjármögnun með áherslu á fátækustu þróunarríkin og smáeyþróunarríki, auk sérstakrar áherslu á viðkvæma samfélagshópa, s.s. konur og stúlkur. Þá er sjóðnum ætlað að tengja saman ólíka fjárfesta og hvetja til aðkomu bæði einkafjármagns og opinbers. Samstarf Íslands við norræna þróunarsjóðinn er í formi árlegra fjárhagslegra framlaga og stjórnarsetu. Þá er stutt sérstaklega við EEP Africa (e. The Energy and Environment Partnership Trust Fund), sem starfar undir sjóðnum. EEP Africa veitir hvatafjármögnun til verkefna í 17 ríkjum í sunnan- og austanverðri Afríku, með áherslu á hreina orku. Starfsemi sjóðsins er ætlað að stuðla að markmiðum Parísarsamkomulagsins.