
Sjálfbærnistofnun HÍ ynni að því að styðja við vísindamiðlun til almennings og innan háskólasamfélagsins með samstarfi allra háskóla á landinu, styddi samstarf og samtal ólíkra aðila og verkefna á sviði aðlögunar loftslagsbreytinga og, sem hluti af því, mótaði tengslanet doktorsnema og nýdoktora á fjölbreyttum fagsviðum sem vinna rannsóknir á sviði loftslagsmála og aðlögunar loftslagsbreytinga. Styrkt verði samstarf við stofnanir, s.s. Veðurstofu Íslands og Umhverfis- og orkustofnun. Skoðað verði að stofna þverfræðilegt loftslagssetur.
Helstu verkefni væru því að efla fræðslu, miðlun og samstarf um aðlögun að loftslagsbreytingum innan háskólasamfélagsins og leiða saman ólík fræðasvið. Markmiðið með því væri að styrkja vísindalega þekkingu og miðlun hennar til stjórnvalda, almennings og hagaðila ásamt því að efla þverfaglegt samstarf um rannsóknir. Með því að tryggja samstarf og tengslamyndun mætti auka þann slagkraft sem þegar er til staðar og nýta þannig fjármuni, mannauð og þekkingu betur.