
Til þess að tryggja samhæfingu og þverfaglegt samstarf skal þróa áfram vinnu og verklag við alþjóðstarf Íslands undir Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) og gerð íslenskra samantektarskýrslna um vísindalega þekkingu um loftslagsbreytingar á Íslandi. Hluti af þessari vinnu er að skipuleggja vinnu við næstu samantektarskýrslur og samstarf undir IPCC í samstarfi við landsnefnd um vísindastarf vegna loftslagsbreytinga. Nefndin var skipuð í nóvember 2024 til þriggja ára og hefur ráðgefandi hlutverk gagnvart ráðuneyti, Veðurstofu Íslands og Umhverfis- og orkustofnun og samhæfingar- og stuðningshlutverk gagnvart vinnuhópum á sviði loftslagsmála sem vinna samantektarskýrslurnar.
Til að tryggja samræmda yfirferð og miðlun vísinda um áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga í íslensku samhengi hefur nefndin lagt til að starfræktir verði þrír vinnuhópar að fyrirmynd vinnuhópa IPCC. Vinnuhóparnir sinna samantekt á stöðu þekkingar á: (1) eðlisvísindalegum grunni loftslagsbreytinga, (2) áhrifum, aðlögun og viðkvæmni samfélagsins og vistkerfa og (3) mótvægisaðgerðum og kolefnisbindingu. Markmið vinnuhópanna verði að safna saman, greina og miðla stöðu vísinda um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi og leggja þannig grunn að stefnumótun, áhættumati og aðlögun. Hóparnir skuli byggja á nýjustu gögnum og rannsóknum og tryggja framsetningu sem styður við ákvörðunartöku, stefnumótun og forgangsröðun aðgerða á landsvísu og hjá sveitarfélögum. Miðað er við að vinnan fari fram í nánu samstarfi við landsnefnd um vísindastarf og með stuðningi frá skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar. Hver vinnuhópur skilar heildstæðri skýrslu og tekur þátt í rýni skýrslna IPCC, með áherslu á íslenskt samhengi.