
Loftslagsatlas Íslands er myndræn vefsjá sem veitir yfirsýn yfir líkleg áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi. Hann byggir á niðurkvarðaðri úrvinnslu sviðsmynda IPCC og nær yfir bæði land og hafsvæði innan íslenskrar efnahagslögsögu. Atlasinn er formlegur farvegur til að miðla viðurkenndum loftslagssviðsmyndum og styðja við stefnumótun, aðlögun og fræðslu.
Á vegum vísindanefndar um loftslagsbreytingar og Veðurstofunnar hefur verið unnið úr hnattrænum reikniniðurstöðum loftslagslíkana sem byggja á losunarsviðsmyndum IPCC. Til að tryggja að framreikningar séu byggðir á nýjustu þekkingu þarf að uppfæra úrvinnslu reglulega eftir því sem ný gögn verða aðgengileg. Þróa þarf aðferðir og verkfæri til að framkvæma slíka niðurkvörðun hratt og örugglega. Jafnframt er mikilvægt að þróa og miðla frávikasviðsmyndum, s.s. vegna samdráttar eða mögulegs hruns AMOC. Niðurstöðum úr sviðsmyndagreiningum verður miðlað í gegnum Loftslagsatlas Íslands sem og í skýrslum og greinargerðum. Markmiðið er að afleiðingar helstu frávika frá líklegri þróun séu vel skjalfestar og gagnlegt efni aðgengilegt hagaðilum. Fyrsta útgáfa atlassins var birt í apríl 2025 og nýjar útgáfur munu bæta við fleiri loftslagsvísum og sviðsmyndum, þróa nýja virkni og tengjast öðrum gagnagáttum, s.s. varðandi náttúruvá og áhættu.