
Vinna þarf viðkvæmni- og áhættumat vegna menningarminja á Íslandi. Áhrif loftslagsbreytinga ógna fornleifum og byggingararfi á Íslandi. Afla þarf aukinnar þekkingar um áhrif tiltekinna loftslagssviðsmynda á fornleifar og byggingararf í landinu svo unnt sé að bregðast við á réttan hátt.
Greina skal viðkvæmni og áhættu skrásettra minja vegna áhrifa loftslagsbreytinga og bæta verklag við skráningu fornleifa og byggingararfs þannig að tekið sé til loftslagssviðsmynda. Gæta þarf þess að upplýsingar sem safnast við skráningu séu færðar inn í landfræðilegan gagnagrunn og þær settar í samhengi við það hvernig umhverfisþættir geti breyst vegna loftslagsbreytinga. Á þeim grunni er hægt að vinna varðveislumat, forgangsraða og taka upplýstar ákvarðanir um möguleika til þess að aðlaga minjar að þeirri loftslagsáhættu sem finna má á hverjum stað.