
Varðveisla torfhúsa getur orðið vettvangur nýsköpunar í byggingartækni og svarað ákalli um sjálfbærari og umhverfisvænni byggingariðnað með notkun á efni úr nærumhverfi. Þessi byggingartækni hefur hlotið mikla athygli í nýsköpun og við hönnun nýrra húsa.
Torfhús eru byggingararfleifð Íslendinga, landið byggðist á þann hátt. Loftslagsbreytingar, þá sérstaklega hærri lofthiti, skemmri frostatíð og aukin úrkoma, hafa gríðarleg áhrif á endingu húsanna og gera varðveislu þeirra umfangsmeiri og vandasamari. Bregðast þarf við þessu ástandi með því að leiða saman nýjustu þekkingu á sviði byggingartækni, handverksþekkingar, loftslagsvísinda og menningararfsfræða um hvernig stuðla megi að sem bestri varðveislu húsanna. Slík varðveisla hefur því þann tvöfalda tilgang að varðveita menningararfinn og byggja brú inn í sjálfbærari framtíð.