
Ísland stendur frammi fyrir flókinni og sívaxandi loftslagsáhættu sem getur haft áhrif innan lands og þvert á landamæri, m.a. í gegnum hnattræn kerfi á borð við matvælakerfi, markaði með hrávöru, birgðakeðjur, fólksflutning, heilbrigðiskerfi og vistkerfi. Til að greina og meta slíkar áhættur á kerfisbundinn hátt er nauðsynlegt að þróa sértæka vísa sem byggja á nýjustu alþjóðlegu þekkingu og viðurkenndum skilgreiningum.
Aðgerðin felur í sér að þróa gagnlega vísa fyrir kerfislæga og þverþjóðlega loftslagsáhættu með hliðsjón af starfsemi ESB og IPCC, greina hvaða gögn þurfi til og hver beri ábyrgð á söfnun og greiningu þeirra. Unnið verður að því að samþætta niðurstöður verkefnisins við vinnu við áhættumat Íslands, ramma viðkvæmnigreiningar og starf vinnuhóps 2 skv. tillögu landsnefndar um vísindastarf.