
Færni- og hæfnispá á vinnumarkaði getur gegnt mikilvægu hlutverki þegar kemur að aðlögun að breytingum á vinnumarkaði sem m.a. má rekja til afleiðinga loftslagsbreytinga. Bein áhrif loftslagsbreytinga á vinnumarkað eru t.d. áhrif á kolefnisþungar atvinnugreinar og áhrif á atvinnugreinar þar sem veðurfar og lífríki hefur mikla þýðingu (landbúnaður, ferðamennska, sjávarútvegur). Bein áhrif eru einnig aukin eftirspurn eftir grænum störfum, sjálfbærum störfum o.þ.h. Óbein áhrif loftslagbreytinga varða t.d. þá hæfni og þá menntun sem fólk þarf að hafa á vinnumarkaði til að sinna störfum.
Hér er vert að nefna aukna eftirspurn eftir grænni tækniþekkingu og áhrif á vinnuumhverfi sem rekja má til hlýnunar/mengunar sem hafa áhrif á heilsu og framleiðni. Fjölgun reglugerða og alþjóðlegra skuldbindinga krefst einnig breytinga í stjórnun, rekstri og birgðakeðjum sem hafa áhrif á vinnumarkað. Færni- og hæfnispá er því áhrifarík aðlögunaraðgerð að loftslagsbreytingum þar sem hún gerir okkur kleift að greina hvaða nýja hæfni þarf á grænum vinnumarkaði og styður markvissa stefnumótun í menntun, nýsköpun og atvinnuþróun. Með því að auðkenna hættu- og tækifærasvæði dregur hún úr félagslegum áhrifum umbreytinga, eykur viðnámsþrótt samfélaga og tryggir að einstaklingar og atvinnulíf geti brugðist tímanlega og markvisst við breyttum aðstæðum.