
Aðgerðin miðar að því að innleiða framkvæmd lýðheilsumats (Health (in) Impact Assessment) á lagafrumvörpum og í stefnumótun stjórnvalda, eftir því sem við á stakt mat eða sem liður í öðru áhrifamati. Þróaðir verði gátlistar, fræðsla og annað sem þarf til að styðja markvissa framkvæmd lýðheilsumats.
Heilsa og líðan fólks er mikilvæg forsenda seiglu einstaklinga og samfélaga. Heilsa og líðan ræðst af samspili einstaklinga við sitt nánasta umhverfi og aðstæður, þ.m.t. félags- og efnahagslegt, stafrænt, byggt og náttúrulegt umhverfi. Ákvarðanir á öllum málefnasviðum og stigum samfélagsins geta því haft áhrif á heilsu og líðan almennt og/eða ýmissa undirhópa (aldur, kyn, félags- og efnahagsleg staða o.fl.). Megintilgangur lýðheilsumats er að hámarka möguleg jákvæð áhrif og lágmarka möguleg neikvæð áhrif að teknu tilliti til áhrifa á heilsu og líðan fólks. Til að styðja markvissa innleiðingu lýðheilsumats, stakt mat eða sem liður í öðru áhrifamati, er byggt á þeim grunni sem þegar er til staðar og unnið áfram í samræmi við bestu þekkingu og reynslu hérlendis og á alþjóðavísu.