
Aðgerðin felur í sér að efla náttúrumiðaðar lausnir með mótvægis- og aðlögunaraðgerðir í huga. Ekki liggur fyrir heildstæð greining á landsvísu á möguleikum til að nýta náttúrumiðaðar lausnir til aðlögunar að loftslagsbreytingum. Sú aðferðafræði sem til staðar er hvað varðar náttúrumiðaðar lausnir er að jafnaði miðuð við stöðvun jarðvegsrofs, endurheimt vistkerfa og sjálfbær landnýting en ekki hefur verið tekið tillit til aðlögunar að loftslagsbreytingum með markvissum og samræmdum hætti.
Hnignun gróðurs og jarðvegs hér á landi hefur leitt til taps á miklum hluta kolefnisforða landsins. Þá vegur losun gróðurhúsalofttegunda frá röskuðum vistkerfum þyngst í losunarbókhaldi Íslands. Aukinheldur getur hnignun dregið úr þanþoli vistkerfa. Náttúrumiðaðar lausnir geta bæði talist mótvægisaðgerðir (vegna kolefnisbindingar) og aðlögunaraðgerðir (vegna aukins þanþols). Opinberum fjármunum er veitt í náttúrumiðaðar lausnir, s.s. vernd og endurheimt vistkerfa, skógrækt og sjálfbæra nýtingu og aukinn áhugi er á slíkum aðgerðum meðal einkaaðila. Æskilegt er að forgangsraða fjármunum í þær náttúrumiðuðu lausnir sem mestan ávinning hafa m.t.t. eflingar þanþols vistkerfa og aðlögunar að loftslagsbreytingum samhliða kolefnisbindingu og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni og hvetja jafnframt til einkafjármögnunar slíkra aðgerða.