A.2.7.

Áhættumat, forvarnir og viðbrögð gegn gróðureldum

Aðalskref verkefnisins felst í því að afla, greina og nýta gögn sem sérsniðin eru að íslenskum aðstæðum til að þróa samþætta nálgun í stjórn og viðbrögðum við gróðureldum.

Gróðureldar eiga sér gjarnan stað á þurrkatímabili vorsins á Íslandi, einkum í apríl, maí og júní. Frá árinu 2006 hafa að minnsta kosti 7695 hektarar af landvistkerfum Íslands, aðallega graslendi, orðið fyrir áhrifum gróðurelda. Stærsti skráði gróðureldurinn á Íslandi varð á Mýrum árið 2006, þar sem 6700 hektarar af mýrarsvæði brunnu (NÍ, 2025). Með breytingum á landnotkun, auknum gróðri og áframhaldandi hlýnun vex hættan á gróðureldum á Íslandi. Þrátt fyrir áhuga á að draga úr líkum á gróðureldum á landsvísu er þekking á íslenskum aðstæðum enn afar takmörkuð. Núverandi viðbragðsaðgerðir hérlendis miðast að mestu við fyrirmyndir frá öðrum löndum og hafa ekki verið sérsniðnar að íslenskum skilyrðum. Því er nauðsynlegt að byggja upp staðbundna þekkingu til að skilja betur, draga úr áhættu, undirbúa viðbrögð og laga okkur að framtíðarhættu af völdum gróðurelda á Íslandi.

Verkþættir

Verkþættirnir hér að neðan útskýra helstu verkefni og skref sem mynda framkvæmd aðgerðanna.

• Yfirlit og greining

  • Kortleggja eldfiman gróður í íslenskum vistkerfum til að meta umfang og dreifingu slíkra svæða.
  • Þróa líkön fyrir hegðun gróðurelda með íslenskum gögnum og meta þannig áhættu á landsvísu og greina aðgerðir til að minnka eldfiman gróður.
  • Gera áhættugreiningu innan marka byggðra svæða á Íslandi þar sem tekið er tillit til eldsmatar annars vegar og mannvirkja og hættu fyrir fólk hins vegar.
  • Mat á áhrifum gróðurelda og endurheimt vistkerfa eftir elda – hvernig íslensk vistkerfi bregðast við og jafna sig.

• Áhættuminnkun

  • Innleiðing áhættuminnkandi aðgerða sem eru sérsniðnar að íslenskum aðstæðum.
  • Þróun og framkvæmd viðmiðunarreglna fyrir áhættuminnkandi aðgerðir og fræðslu fyrir landeigendur.
  • Eftirlit með áhrifum áhættuminnkandi aðgerða og mat á árangri.

• Upplýsingar og leiðbeiningar

  • Þróun eldhættuvísis, veðurvísis sem gefur upplýsingar um hættu á upptökum gróðurelda á hverjum tíma við ákveðin veðurskilyrði.
  • Viðmiðunarreglur fyrir aðgerðir eftir gróðurelda til að styðja við endurheimt svæða.
  • Leiðbeiningar um nýtingu timburs á svæðum fyrir og eftir gróðurelda.

Upplýsingar

Ábyrgðaraðili
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti
Framkvæmd
Land og skógur (leiðir), Veðurstofa Íslands, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Almannavarnir
Upphaf / Endir
2027
2030
Áætlaður kostnaður
Liggur ekki fyrir
Staða aðgerðar
Fyrirhugað