A.2.5.

Skriðu- og krapaflóð – efling hættumats og vöktunar

Markmið verkefnisins er að styrkja viðnámsþrótt samfélagsins vegna skriðu- og krapaflóðahættu og auka þar með öryggi landsmanna og ferðamanna og draga úr eigna- og rekstrartjóni samfélagsins. Þetta fæst með markvissum rannsóknum, kortlagningu og gerð hættumats sem stuðlar að skynsamlegu skipulagi og landnýtingu, og einnig með svæðisbundnum skriðu- og krapaflóðaspám auk viðvarana sem byggir m.a. á öflugri mælitækni og eftirliti.

Loftslagsbreytingar geta valdið aukinni tíðni ofanflóða, einkum skriðufalla og krapaflóða, á Íslandi og þar með aukið tjón af þeirra völdum. Styrkja þarf viðnámsþrótt samfélagsins til þess að takast á við þessa vá með uppbyggingu varna og eflingu hættumats og vöktunar. Markvissar rannsóknir, kortlagning og gerð hættumats stuðla að skynsamlegu skipulagi og landnýtingu og hættumat er einnig grundvöllur ofanflóðavarna og vöktunar. Vöktun svæða og eftirlit með mælingum eru mikilvæg gögn fyrir ofanflóðaspár og útgáfu viðvarana, sem og ákvarðanatöku um rýmingar húsnæðis, lokanir vega eða aðrar aðgerðir.

Verkþættir

Verkþættirnir hér að neðan útskýra helstu verkefni og skref sem mynda framkvæmd aðgerðanna.
  • Skriðugagnasafn. Náttúrufræðistofnun og Veðurstofan reka sameiginlegt skriðugagnasafn. Í það hafa verið skráðar upplýsingar um skriður á Íslandi. Það þarf að vinna talsvert í gagnasafninu næstu 1–2 árin til þess að gögnin verði eins aðgengileg og ábyggileg og mögulegt er. Um er að ræða grunngögn fyrir alla aðra vinnu, hvort sem hún tengist rannsóknum, hættumati eða vöktun. Markmiðið er að gögnin verði aðgengileg hagaðilum og almenningi t.d. um gagnagátt vegna náttúruvár. Verkefnið þarf að vinna í nánu samstarfi við Ofanflóðasjóð.  
  • Krapaflóðagagnasafn. Krapaflóð eru gjarnan ranglega greind sem vatnsflóð, skriður eða vot snjóflóð og því má búast við því að mikið vanti upp á skráningar þeirra. Krapaflóð geta átt upptök í mun minni halla en t.d. snjóflóð en þau eiga það sameiginlegt að vatn hefur safnast fyrir í snjó í upptökum. Fara þarf yfir krapaflóðasafnið og greina betur upptök þeirra og eðli sem og veðuraðdraganda. Minni þekking er á krapaflóðum en á skriðum og snjóflóðum í heiminum, m.a. vegna þess að þau eru óalgengari og eru fyrst og fremst þekkt á norðlægum slóðum. Þau eru þó orðin tíðari vegna loftslagsbreytinga og mikilvægt er að Íslendingar taki þátt í alþjóðlegu samstarfi sem snýr að krapaflóðum.  
  • Jarðfræðikotlagning með tilliti til skriðuhættu í þéttbýli. Kortleggja þarf jarðlagagerð, þykkt eðli og uppruna setlaga í hlíðum ofan þéttbýlis á Íslandi. Leggja þarf mat á hvort setlög geti verið óstöðug og skapað hættu á skriðum, einkum sem geta ógnað byggð og innviðum. Kortlagningin byggir m.a. á túlkun loftmynda, vettvangsskoðun, yfirborðskortlagningu og túlkun jarðlagasniða á mögulegum úthlaupssvæðum skriðna. Náttúrufræðistofnun hefur hafið vinnu við þetta verkefni sem mun halda áfram á næstu árum. Ofangreint verkefni er kostað af Ofanflóðasjóði að hluta.  
  • Kortlagning óstöðugra hlíða. Stórar skriður hafa verið áberandi síðastliðin ár. Í mörgum tilfellum voru þessar skriður ekki bein afleiðing aftakaúrkomu, heldur voru hlíðarnar óstöðugar sökum jarðfræðilegra aðstæðna og enduðu á því að gefa sig, mögulega í tengslum við snjóbráðnun, minniháttar úrkomu, eða einhverjum dögum eftir úrkomukafla. Í sumum tilfellum var sífreri í skriðunum en í öðrum ekki. Dæmi um slíkar skriður eru Morsárjökull 2007, Dýjafjall í Fagradal 2011, Torfufellsdalur 2011, Móafellshyrna 2012, Svínafellsjökull 2013, Askja 2014, Árnesfjall 2014, Hamarsfjörður 2017, Hítardalur 2018, Hleiðargerðisfjall ofan við Gilsá 2020, Seyðisfjörður 2020. Einungis skriðurnar á Seyðisfirði lentu á húsum, en þær voru margar hverjar mjög efnismiklar. Ljóst er að ef slíkar skriður falla á byggð gætu orðið slys á fólki og mikið tjón. Ekki er hægt að spá fyrir um þessa gerð af skriðuföllum út frá einungis veðuraðdraganda. Í mörgum tilfellum hefur sést eftir á að hlíðin var byrjuð að aflagast löngu áður en skriðan féll og að orsökina hafi mátt rekja til langvarandi aflögunar og mögulega djúpstæðs veikleika. Hreyfingin herðir venjulega verulega á sér í aðdraganda skriðunnar. Á Veðurstofunni hefur verið unnið að greiningu hlíða sem eru á hreyfingu út frá gervitunglagögnum og loftmyndum. Næsta skref er að forgangsraða þessum svæðum út frá þeirri hættu sem skriða úr þeim kann að valda. Í fyrsta forgangi eru svæði ofan þéttrar byggðar, en einnig þarf að skoða svæði ofan sveitabæja, ferðamannastaða, vega og annarra innviða. Skoða þarf þær hlíðar sérstaklega og meta hættuna á því að hreyfingin leiði til framhlaups. Meta þarf hvort, og þá hvernig, vakta á hlíðarnar með mælitækjum og fjarkönnun. Hér á landi eru nú fjögur svæði vöktuð með mælitækjum á þennan hátt; Svínafellsheiði, Eskifjörður, Seyðisfjörður sunnanverður og Gleiðarhjalli á Ísafirði. Ofangreind verkefni eru að hluta unnin og kostuð af Ofanflóðasjóði.  
  • Skriðuhættumat fyrir þéttbýli. Gert hefur verið ofanflóðahættumat fyrir þá þéttbýlisstaði á Íslandi þar sem ofanflóðahætta er talin vera umtalsverð. Þetta mat var að miklu leyti unnið á árunum 1996—2005 og tekur tillit til bæði snjóflóða, krapaflóða og skriðufalla. Í mörgum tilfellum var staðan metin þannig að snjóflóðahættan væri ráðandi, og hættumatslínur miðuðust því við hana. Það er hins vegar mikilvægt að greina skriðuhættuna betur til þess að hægt sé að vakta hana og taka tillit til hennar við uppbyggingu varna. Endurskoðun hættumats m.t.t. skriðuhættu þarf því að fara fram þegar búið er að vinna jarðfræðigreiningu og kortlagningu á hverjum stað fyrir sig. Skriðuhætta hefur verið metin sérstaklega á Seyðisfirði og verið er að klára úrvinnslu rannsókna síðustu ára. Skriðuhættumat fyrir Eskifjörð er í vinnslu og margir aðrir staðir eru á listanum, m.a. Ísafjörður, Ólafsfjörður Suðureyri og Neskaupstaður. Hættumat er hlutverk Veðurstofu skv. lögum.   
  • Úttekt á skriðuhættu á ferðamannastöðum. Margir af vinsælustu ferðamannastöðum landsins eru á svæðum þar sem hætta getur verið á grjóthruni og/eða skriðum. Sem dæmi má nefna Gullfoss, Seljalandsfoss, Dettifoss, Dyrhólaey, Reynisfjöru, Sólheimajökul, Stuðlagil og Öskju. Leggja þarf mat á það hvað telst ásættanleg áhætta á ferðamannastöðum, gera úttekt á ofanflóðahættu og leggja til viðeigandi viðbúnað, varnaraðgerðir og/eða vöktun.    
  • Þróun líkana fyrir svæðisbundnar skriðu- og krapaflóðaspár. Flestar hefðbundnar skriðu- og krapaflóðahrinur tengjast mikilli rigningu og/eða leysingu ýmist til lengri eða skemmri tíma. Því er hægt að spá fyrir um þær að einhverju leyti fyrir hvern landshluta (ekki niður á einstaka farvegi). Líkön sem byggja á veðurspám og mælingum á veðri, snjó, jarðvegsraka og grunnvatni geta bætt mikið áreiðanleika slíkra spáa. Einnig þarf að setja slíkar spár eða viðvaranir fram á skýran hátt, t.d. með litakóða líkt og veðurviðvaranir.    
  • Mælingar vegna vöktunar á skriðuhættu. Mörg af verkefnunum hér að framan krefjast ýmissa mælinga. Fjölga þarf úrkomu-, jarðvegsraka-, grunnvatns- og snjómælum til þess að líkön fyrir svæðisbundnar skriðu- og krapaflóðaspár virki sem best. Þar sem hlíðar eru á hreyfingu ofan byggðar, ferðamannastaða eða innviða þarf að meta þörf á mælibúnaði á hverjum stað fyrir sig. Fylgjast getur þurft með yfirborðshreyfingu, grunnvatnsstöðu og aflögun. Dæmi um tæki sem mæla slíkt eru sjálfvirkar alstöðvar, GPS stöðvar, hallamælar eða aflögunarmælar í borholum, togmælar í sprungum, InSAR radarar, vatnshæðarmælar í borholum og jarðvegsrakamælar. Í sumum tilfellum getur niðurstaðan orðið sú að fullnægjandi sé að vakta langtímahreyfingar útfrá gervitunglagögnum, mögulega með uppsetningu fastpunkta og spegla á svæðinu. Þessi verkþáttur verður unnin í samvinnu við aðgerð VP2_3_URN_VÍ (Vöktun helstu þátta íslenskrar náttúru m.t.t. loftslagsbreytinga – náttúruvá).   
  • Veðuraðdragndi ofanflóða. Greina þarf nánar veðuraðdraganda þekktra skriðu- snjóflóða- og krapaflóðahrina sem tengjast rigningu og leysingu. Nýta þarf ofanflóðagagnasafnið, nýjustu endurgreiningar á veðurlíkönum, og gögn úr sjálfvirkum veðurstöðvum til þess að greina betur veðuraðdraganda ofanflóða en áður hefur verið gert.    
  • Skriðuvarnir. Mikilvægt er að byggja markvisst upp þekkingu á ofanflóðavarnarvirkjum hér á landi. Mikil þekking er nú þegar tiltæk á nokkrum verkfræðistofum, einkum á snjóflóðavörnum. Minna hefur verið reist af sérstökum skriðuvörnum, en nú er unnið að þeim fyrir Seyðisfjörð. Unnið í samstarfi við Ofanflóðasjóð.

Upplýsingar

Ábyrgðaraðili
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti
Framkvæmd
Veðurstofa Íslands í samstarfi við fleiri aðila.
Upphaf / Endir
2026
2030
Áætlaður kostnaður
44 m. kr á ári, mat á heildarkostnaði liggur ekki fyrir.
Staða aðgerðar
Í framkvæmd