
Mikilvægt er að greina hvaða áhrif loftslagsbreytingar kunna að hafa á grunnvatnsauðlindir framtíðarinnar. Samspil loftslagsbreytinga og aukinnar eftirspurnar eftir grunnvatni kallar á heildstæða yfirsýn og kerfisbundna vöktun. Veðurstofan rekur í dag aðeins tvo virka grunnvatnsmæla, en þarf að hafa aðgang að víðtæku neti slíkra mæla til að öðlast áreiðanlega mynd af þróun og nýtingu vatnsauðlindarinnar.
Loftslagsbreytingar hafa áhrif á hringrás vatns og geta dregið úr endurnýjun grunnvatns, sem eykur óvissu um sjálfbæra nýtingu. Nauðsynlegt er að byggja upp þekkingu á stöðu grunnvatns um land allt, vakta breytingar á magni og notkun og leggja mat á hvort verið sé að ganga á auðlindina. Niðurstöður nýtist sem hluti af endurskoðun vatnaáætlunar Íslands og við gerð framtíðaráætlana um nýtingu og vernd vatnsauðlinda.