
Heildarmarkmið er uppsetning og kvörðun vatnafarslíkans fyrir landið allt. Líkanið er svo nýtt ásamt framtíðarsviðsmyndum loftslagsbreytinga til þess að greina áhrif loftslagsbreytinga á vatnafar til framtíðar, með áherslu á náttúruvá vegna flóða og þurrka, en einnig áhrif á vatnsbúskapinn sem er grunnur að nýtingu og verndun vatns. Líkanið verður auk þess nýtt til þess að spá fyrir um rennsli í rauntíma og nýtist því til þess að bæta flóðavöktun Veðurstofunnar og efla viðbragð og viðnámsþrótt samfélagsins. Hægt verður að nálgast líkanareiknað rennsli í gegnum gagnagátt fyrir náttúruvá.
Uppsetning og kvörðun vatnafarslíkana ásamt mælingum á vatnsbúskap er forsenda þess að geta spáð fyrir um og lagað sig að þeim breytingum sem kunna að verða á vatnafari með loftslagsbreytingum. Loftslagsbreytingar geta haft áhrif á tíðni, stærð og tímasetningu flóða, en geta að sama skapi haft áhrif á þurrka. Mikilvægt er að greina þær breytingar sem vænta má að frekari loftslagsbreytingar hafi á flóðavá, svo unnt sé að taka tillit til þeirra í allri ákvarðanatöku og viðbragði; hvort sem snýr að vörnum gegn flóðum, hönnun innviða eða skipulagsáætlunum. Auk þess þarf að horfa á vatnsauðlindina í heild og leggja mat á áhrif loftslagsbreytinga til framtíðar á nýtingu og verndun vatns. Unnið verður í nánum tengslum við verkefnið um gagnagátt fyrir náttúruvá með áherslu á vatns- og sjávarflóð og þróun Loftslagsatlass sem setur fram loftslagsáhættu, byggt á samspili slíkra gagna og loftslagssviðsmynda.