
Jöklar á Íslandi halda áfram að hörfa og rýrna og framtíðarsviðsmyndir sýna að ef fram heldur sem horfir verða jöklar á Íslandi að mestu horfnir eftir 150–200 ár. Samkvæmt margvíslegum mælingum á jörðu niðri og með fjarkönnun hafa jöklar á Íslandi á tímabilinu 2000−2023 þynnst að meðaltali um u.þ.b. 1 m á ári og er rýrnun íslensku jöklanna örari en víðast hvar annars staðar á jörðinni. Mikilvægt er að koma á rauntímavöktun, m.a. með sívinnsluafkomureikningum svipað og gert er á Grænlandi. Ráðast þarf í líkanareikninga til þess að spá fyrir um þróun jökla og breytingar í afrennsli frá þeim miðað við ólíkar sviðsmyndir. Einnig þarf að bæta vöktun á stækkandi jökullónum og óstöðugum fjallshlíðum og greina hættu vegna berghlaupa á og við jökla og jökulhlaupa. Aukin umferð um og í nágrenni við jökla landsins kallar einnig á skýran farveg fyrir kortlagningu á sprungusvæðum á jökli og greiningu á hættu sem er samfara umferð um og við jökla landsins. Útlínur jökla verða uppfærðar á tveggja ára fresti og til viðbótar eru sporðamælingar á völdum jöklum.
Markmið þessarar aðgerðar er að efla vöktun, greiningu og miðlun upplýsinga um stöðu og þróun íslenskra jökla með áherslu á líkanagerð, fjarkönnun og aðlögun að loftslagsbreytingum. Með samfelldri vöktun og reglulegum líkanareikningum má greina breytingar á jöklum í rauntíma og auka viðbúnað vegna náttúruvár. Unnið er að þessu í samstarfi við innlenda og erlenda aðila, m.a. í gegnum ICELINK-verkefnið, GLAMBIE-afkomuverkefnið, National Snow and Ice Data Center og World Glacier Monitoring Service í Sviss.